Mánudagur, 13. nóvember 2023
Allt er tímabundið en sumt dugar í daga og annað í áratugi
Tómur ríkissjóður, sem forgangsraðar erlendum fátæklingum í leit að velferðarfé og vopnaskaki spilltra erlendra stjórnmálamanna, hefur ekki efni á því að sinna eigin þegnum.
En þegar neyðin bankar á dyrnar, með sleggju, þá þarf að gera eitthvað.
Sem þarf auðvitað að fjármagna með skattahækkunum, enda rekur hið opinbera sig á lántökum og á ekki krónu afgangs.
Eldfjallaeyja í miðri lægðahraðlest Norður-Atlantshafsins á ekki krónu afgangs til að mæta minnstu frávikum þrátt fyrir svimandi skattheimtu.
Engar af tryggingum yfirvalda hennar duga til. Engir sjóðir eru nógu stórir, þótt þeir hafi safnast upp í mörg ár. Kannski fóru þeir í að niðurgreiða rafmagnsbíla til að fjarlægja koldíoxíðfótspor bensínbíla, en sem eldfjall fyllir upp í á augabragði.
Auðævi Íslendinga liggja að mörgu leyti í nálægð við náttúruna og náttúruöflin: Jarðhitinn, vatnsöflin, fiskimiðin. Allir eru ánægðir þegar þessar auðlindir moka inn fé. Þessu fé er sólundað í hallir og gæluverkefni. Þegar náttúran ræskir sig aðeins er ekkert afgangs til að bregðast við því.
Ég fer kannski að verða hlynntari því að Ísland gangi í Evrópusambandið því þá er hægt að senda veruleikafirrtu stjórnmálamennina á útlendar skrifstofur og þeir sem eftir eru skilja raunveruleikann. Fórnarkostnaðurinn er samt sennilega of stór. Þorskinum verður sagt að koma upp með vottorð í farteskinu og gúrkunni sagt að hún sé ekki nógu bein.
Eftir stendur að reyna kjósa betur næst, ef það tæki dugi þá til nokkurs lengur.
Eftir stendur líka að tímabundinn skattur verður lagður á og endist að eilífu. Ekkert er eins varanlegt og tímabundin skattheimta, sagði vitur maður.
Vonum að þeir sem halda um buddu ríkisvaldsins reki ekki eigin heimili og hagræði eigin heimilistryggingum á sama hátt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.