Sunnudagur, 12. nóvember 2023
Þegar Íslendingar hrökkva í gírinn
Náttúruhamfarir eru skelfilegar og geta haft mjög neikvæð áhrif á líf fjölda fólks. En það er kannski þegar þær skella á að Íslendingar hrökkva í gírinn. Vandamál eru leyst. Fólki er komið í skjól. Frjáls framlög eru sótt. Yfirvöld skera á alla hnútana sem þau leggja að öllu jöfnu á þá sem vilja svo mikið sem grafa holu í jörðina og gera það kleift að hleypa verktökum af stað.
Engin kynjuð fjárlagagerð á meðan menn eru að finna fé til að framkvæma lausnir enda enginn tími fyrir svoleiðis kjaftæði þegar eldfjall er að fæðast.
Ekkert umhverfismat á svartri eyðimörk við orkuver. Nei, það þarf að reisa vegg og þá verður veggur reistur.
Enginn kynjafræðingur að telja hvað margar konur og kvár eru að vinna á gröfum eða við smíði eða aðstoða við rýmingu og koma fólki í skjól. Kynjahlutföll skipta ekki máli þegar er verk að vinna.
Ég legg til að þegar rykið er sest og orðið nokkuð ljóst hvaða hamfarir eru nákvæmlega í gangi að menn setjist niður og reyni að draga einhvern lærdóm af viðbrögðunum. Hvaða reglum var fleygt í ruslið þegar á reyndi? Hvaða óþarfa stöðugildi voru ekki höfð með í ráðum þegar mikið lá á? Hvaða pappírsvinnu var fórnað þegar líf og verðmæti voru í húfi?
Í kjölfarið er svo hægt að fara með eldspýtustokk að regluverkinu og grynnka aðeins á því, og auðvitað minnka fjölda opinberra starfsmanna til að endurspegla fækkun opinberra hindrana í ýmsum umsóknarferlum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:53 | Facebook
Athugasemdir
Þar sem farið hefur verið að öllum lögum og reglum, tilskilin pappírsvinna unnin og verkferlum fylgt verður líklega, þegar rykið er sest og orðið nokkuð ljóst hvaða hamfarir eru nákvæmlega í gangi, farið að þínum ráðum. Nefnd verður stofnuð og menn setjist niður og reyna að draga einhvern lærdóm af viðbrögðunum. Hvaða reglur voru ófullnægjandi, hvaða lög máttu vera betri og hvað var ekki gert vegna þess að heimildir vantaði? Hvaða vistir og viðbúnað, tól og tæki þarf ríkið að eiga, viðhalda og endurnýja. Hvaða stöðugildi voru ofhlaðin og hvernig má efla regluverkið og auka völd og fjölda opinberra viðbragðsaðila? Það verður margt sem nefndin þín þarf að skoða.
Vagn (IP-tala skráð) 12.11.2023 kl. 16:58
Við erum greinilega á sömu blaðsíðu hérna. Það sem áður tók ár og daga tók núna örfáa daga. Nauðsynleg pappírsvinna til að geta reist risavaxinn vegg er sennilega í fjölda blaðsíða undir 100. Ekki þurfti að slást við byggingafulltrúa sveitarfélags svo árum skiptur, gegn gjaldþroti og því að verða húsnæðislaus, því deiliskipulagið lýsti ekki stórum varnarvegg.
Annars held ég að menn geti hérna brugðist hratt við þrátt fyrir regluverkið, ekki vegna þess, með því einfaldlega að setja það ofan í skúffu.
Geir Ágústsson, 12.11.2023 kl. 18:06
Þetta breytti litlu fyrir starfsfólk fjármálaráðuneytisins, þeirra fyrstu viðbrögð voru að leggja til nýjan skatt með flýtimeðferð.
Guðmundur Ásgeirsson, 13.11.2023 kl. 19:40
Guðmundur,
Auðvitað! Hvað gerir blankur þjófur? Stelur meira!
Geir Ágústsson, 13.11.2023 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.