Vindorkuplágan

Mikið hefur verið sagt og skrifað um uppbyggingu á vindorkuverum á Íslandi. Sem betur fer hefur samt ekki borið mikið á framkvæmdum sem sjúga fé úr arðbærum aðferðum til orkuöflunar. En Íslendingar eru oft duglegir að lepja upp vitleysuna í útlöndum og það er því ekki útilokað að þeir hefji stórfellda endurtekningu á mistökum annarra ríkja (eins og er að eiga sér stað í innflytjendamálum þessi misserin, meðal annars).

Í Evrópu og Bandaríkjunum er vindorkan núna á fallandi fæti. Ókeypis peningar hanga ekki lengur á trjánum. Neytendur muna vel eftir því hvernig orkureikningarnir fóru eins og sinueldur í gegnum heimilisbókhaldið í fyrra. Mikil áhersla hefur verið að fylla allar olíu- og gasgeymslur. Milt haust hefur líka minnkað álagið á orkuinnviðina.

En hvað ætla yfirvöld að gera nú þegar enginn hefur lengur efni á að byggja nýja vindorkugarða og framleiðendur þeirra sjá hlutabréf sín hrynja?

Jú, auðvitað að moka undir vitleysuna með neytendum (áhersla upphafleg):

Þó að hærri niðurgreiðslur í næstu uppboðslotu ... kunni að endurvekja þróun vinds á hafi úti, mun það líklega skila sér í auknum raforkukostnaði fyrir neytendur sem enn eru hlaðnir himinháum reikningum í kjölfar orkukreppunnar í fyrra.

**********

While higher subsidies in the next auction round ... may well reinvigorate offshore wind development, it will likely feed through to increased electricity costs for consumers still burdened with sky-high bills in the wake of last year’s energy crisis.

Það er sem sagt ekki nóg að sjá spilaborgina hrynja til að gefa hana upp á bátinn. Nei, almenningur skal áfram mjólkaður í hítina svo stór fyrirtæki, full af heitu lofti, geti haldið áfram að greiða arð og troða stálturnum í hafsbotninn. 

Nú hef ég ekkert á móti vindorku í sjálfu sér. Hún hentar sennilega ágætlega fyrir sum svæði þegar aðrir valkostir eru verri, svo sem í Danmörku sem hefur hvorki fallvötn né jarðhita, engar kolanámur og frekar takmarkaðar olíu- og gaslindir. Danmörk er rík og lætur neytendur svo sannarlega gjalda fyrir það með háu rafmagnsverði sem bera marga og mikla skatta til að halda uppi vindmyllunum. En fyrir Íslendinga er vindorkan í besta falli táknrænn gjörningur sem mun engu skila nema kostnaði og umhverfisspjöllum. Er þá ótalinn kostnaðurinn sem felst í að binda stóra hópa fólks í viðhaldsverkefnum tengdum vindmyllum og við að hreinsa upp fuglahræin í kringum þær. 

Hættum þessu áður en örlög íslenskra neytenda verða þau sömu og evrópskra: Að vera mjólkaðir í vitleysuna þar til hún verður orðin of stór til að menn geti leyft henni að hrynja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir Íslendinga er vindorkan bara eins og lóðrétt uppistöðulón, og kemur í stað nokkur hundruð eða þúsund ferkílómetra stækkunar og fjölgunar lóna vatnsaflsvirkjana. Ekki slæm lausn í landi þar sem orku skortir en helst má ekki setja land undir vatn. Hægt væri að auka afl vatnsaflsvirkjana með því að bæta við vélum án þess að stækka uppistöðulónin. Vindorka og vatnsorka vinna mjög vel saman.

Vagn (IP-tala skráð) 11.11.2023 kl. 13:47

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Gefðu mér frekar fallegt uppistöðulón sem hækkar grunnvatnsstöðuna og stuðlar að sköpun, frekar en eyðileggingu lífs.

Geir Ágústsson, 11.11.2023 kl. 14:12

3 identicon

"Fallegt" uppistöðulón sem lækkar í yfir veturinn og skilar uppblæstri og moldroki frá vori fram á síðsumar. Það er vandséð hvernig þú, sem ekki vilt nota grímu, átt að njóta þess að sitja á leirbakkanum að horfa á dauða unga, fúlegg og hreiður sem drulla hefur kaffært og uppistöðulónið móbrúna gegnum þykkan og áþreifanlegan moldarmökk. Þá væri gott að hafa vindmyllur sem koma í veg fyrir fækkun grænna dala, fjölgun lóna, að mjög mikið lækki í lónum, þau fyllist fyrr, og ekki þurfi að skammta raforku.

Vagn (IP-tala skráð) 11.11.2023 kl. 15:13

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég vann einu sinni að verkefni í Danmörku þar sem var verið að leggja rör í jörðina. Á einum stað þurfti að fella 2-3 tré í trjáröð. Þetta varanlega gat myndi setja vindmyllu í útsýni nálægs bóndabæjar. Bóndinn mótmælti harðlega, svo mánuðum skiptir, þar til rörleiðinni var breytt með tilheyrandi uppfærslum á teikningum og skjölum svo að vindmyllan yrði ekki sjáanlega frá bóndabænum. 

Danska ríkið bannar fjölgun á vindmyllum á landi. Það má stækka þær sem nú þegar eru til staðar en ekki fjölga þeim. Þetta er vegna mótmæla og ósættis fólks við að hafa þessa risavöxnu turna í kringum sig. Í staðinn setja menn hafsjó peninga í að reisa þeir úti í sjó, úr sjónfæri strandgesta og annarra.

Hvar get ég lesið um þetta blessaða moldrok fyrir utan einnar aðsendrar greinar á Vísir.is? Ég þekki marga sem hafa unnið við uppistöðlón, jafnvel í áratugi, og engir þeirra hafa notað grímu fyrr en yfirvöld fundu upp á fölsuðum vísindum árið 2020.

Íslendingar þurfa virkja meira og víðar á landinu og efla flutningskerfið svo fiskvinnslur á Austfjörðum geti á ný nýtt rafmagn frekar en Dísel-olíu og heilu landsvæðin séu ekki viðkvæm fyrir óumflýjanlegum bilunum í einstaka liðum í keðjunni. Litlar byggðir þurfa að hafa varanlegt varaafl til reiðu. Á okkar líftíma verður búið að frelsa litlar tegundir kjarnorkurafala úr greipum regluvarða og setja upp víða og þá er hægt að huga að orkuskiptum þar sem orkuframleiðslan tekur minna pláss. Um leið er hægt að hefja vegferð þar sem valkostir við jarðefnaeldsneyti eru skoðaðir og til staðar þegar olían og gasið þornar upp á næstu öld eða tveimur. Eða þetta er a.m.k. ein sviðsmyndin, öllu raunhæfari en að grafa upp allt heimsins járn og málma í segla til að reisa risavaxna stálturna sem geyma viðkvæma vindmyllu á toppnum.

Geir Ágústsson, 11.11.2023 kl. 16:03

5 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Enn eru menn með ruglið um fugladauðann!  Rannsóknir eftir rannsóknir hafa verið gerðar á þessu og þessir haugar af dauðum fuglum hafa ekki fundist enn!  Jú það fljúga fuglar á þetta og drepast.  Þeir fljúga líka á hús og bíla og annað.  Þá hlýtur að þurfa að banna hús og bíla líka!

Ég bjó í Danmörku í 3 ár, þar af um 6 mánuði í næsta nágrenni við eina svona vindmyllu, svona 200 metra frá húsinu eða svo.  Sá aldrei dauðann fugl við hana.  Og allur þessi hávaði sem fólk æpir um, mest þeir sem hafa aldrei komið nálægt svona?  Tók aldrei eftir honum og labbaði þó mikið þarna.  

Af hverju ertu svona hræddur við þetta?  Af hverju ekki að nýta þær orkuauðlindir, sem Ísland býr yfir?  Er betra að drekkja hálendinu og láglendinu í uppistöðulón?  

Arnór Baldvinsson, 11.11.2023 kl. 22:00

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Arnór,

Er aðallega hræddur við að menn séu hérna að gleyma sér í gleðinni og einblína og veðja á dýra og óstöðuga lausn í stað þess að byggja upp almennilegt "base load" með traustu flutningsneti, nokkuð sem hefur verið vanrækt í slíkum mæli að meira að segja hinn prúði forstjóri Landsvirkjunar er farinn að nota stór aðvörunarorð.

Annars vil ég nú leyfa mér að gera greinarmun á fugladauða hérna. Auðvitað fljúga litlu fuglarnir á glugga og drepast en ernir og gæsir síður, en ernir og gæsir þeim mun líklegri til að vera <a href="Federal Study Highlights Spike in Eagle Deaths at Wind Farms (nationalgeographic.com)">hálshoggnir og vængstýfðir</a> nálægt vindmyllu.

Geir Ágústsson, 12.11.2023 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband