Föstudagur, 10. nóvember 2023
Eitt egg í einni körfu
Stundum er sagt þar sem unnið er með áhættu, svo sem í fjárfestingum, að leggja ekki öll eggin í eina körfu. Ef karfan dettur þá brotna þau öll.
En hvað er til ráða þegar menn eiga eitt egg í einni körfu og sú karfa er við það að detta?
Eins og í tilviki hitaveitu á Suðurnesjum og að einhverju leyti rafmagnsframleiðslu?
Jú, reyna að bólstra þessa körfu svo hún þoli höggið þegar hún dettur, úr 10 kílómetra hæð.
Hugmyndir eins og þær að byggja vegg á nokkrum dögum til að stöðva hraunflóð byrja allt í einu að hljóma raunhæfar.
Í mörg ár hefur verið kallað á eftir því að framleiða meira rafmagn og efla dreifikerfi þess, sérstaklega á svæðum eins og Suðurnesjum.
Það hefur ekki verið auðsótt. Einhver mosi gæti jú farið undir vatn. Einhver öfgafull túlkun á fyrirmælum erlendra embættismanna gæti verið svikin. Einhver þrýstihópur gæti farið í fýlu.
Eftir stendur eitt egg í einni körfu og tilraunir til að verja þetta egg frá fallinu óumflýjanlega.
Ég hef auðvitað samúð fyrir því að hitaveita geti ekki þjónað mjög stóru svæði. En rafmagnsdreifing á ekki að vera bundin við eina litla línu sem ítrekað hefur svikið og stefnir í að slitni.
Hamfarir hrista stundum upp í hlutunum. Fá menn til að hugsa í áætlun A, B, C og svo framvegis. Kannski það verði raunin ef hraun í rólegheitum brýtur niður mannanna verk og gerir að engu á meðan varaaflstöðvar enn og aftur, á landi eða fljótandi, bjarga málunum.
Gríðarlega mikilvægt að verja virkjunina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert bjartur að halda að þetta lið læri nokkuð af þessu.
Ásgrímur Hartmannsson, 10.11.2023 kl. 20:26
Er ekki bara best að senda "Hlýði-Víði" á staðinn og láta hann bólusetja virkjunina með mRNA? Virkaði svona ljómandi vel á mannfólkið
Þorsteinn Siglaugsson, 10.11.2023 kl. 21:10
Þessi hrina heldur í það minnsta aftur af Hvassahraunsflugvellinum hans Dags B.
Ragnhildur Kolka, 10.11.2023 kl. 21:38
Þú veist sem sagt lítið sem ekkert um raforkudreifingu og raforkuframleiðslu á Suðurnesjum og hafðir ekki áhuga á að vita neitt áður en þú bloggaðir. Enda engin ástæða til að bregða út af vana.
Vagn (IP-tala skráð) 10.11.2023 kl. 22:02
Vagn,
Ég bíð í ofvæni eftir fræðsluefni þínu! Í þessu eins og svo mörgu öðru. Í ofvæn!
Geir Ágústsson, 10.11.2023 kl. 22:24
Ég mæli með að hræddir fari í bólusetningu.
Kristinn Bjarnason, 11.11.2023 kl. 08:07
Grindvíkingar hafa mögulega lengi þurft að þjást í höndum HS Veitna:
"HS Veitur harma mjög þau óþægindi sem Grindvíkingar urðu fyrir vegna þessa rafmagnsleysis en lengd þess er í raun óafsakanleg. HS Veitur munu gera allt sem er í valdi fyrirtækisins til að koma í veg fyrir að viðlíka viðburðir geti endurtekið sig, það tók á á föstudaginn að vera með bæinn rafmagnslausan á sama tíma og jörðin skalf, sannarlega var ekki á það bætandi."
https://www.hsveitur.is/um-okkur/frettir/rafmagnsleysi-i-grindavik/
Og auðvitað líka af því það hefur ekki mátt styrkja dreifikerfið fyrir Reykjanesið:
"Einföld tenging 132 kV meginflutningskerfisins við Suðurnes er megin ástæða þess að ekki er hægt að verða við mikilli eftirspurn eftir raforku á Suðurnesjum."
https://www.landsnet.is/library?itemid=7faa0926-eb43-4f6f-bc0c-588145015f9a
Eldgos breytir auðvitað leiknum algjörlega en í langan tíma hafa Grindvíkingar fengið að framleiða verðmæti án þess að innviðaþörfum bæjarins sé nægilega sinnt.
Geir Ágústsson, 11.11.2023 kl. 09:51
"HS Veitur harma mjög þau óþægindi sem Grindvíkingar urðu fyrir..." ath, HS Veitur en ekki Landsnet. Eitt egg í einni körfu brotnaði en önnur egg í öðrum körfum ekki. Grindavík er ekki Suðurnesin. Ekki varð rafmagnslaust á Suðurnesjunum þó stakt bæjarfélag hafi orðið rafmagnslaust. En bæjarfélög, hverfi og hús um allan heim búa við það að bilanir geta orsakað rafmagnsleysi.
Fyrir tæpu ári síðan urðu yfir 4000 heimili í Kaupmannahöfn rafmagnslaus, eitt egg í einni körfu brotnaði. Hafa þá Amagerbúar fengið að framleiða verðmæti í langan tíma án þess að innviðaþörfum hverfisins hafi verið nægilega sinnt? Er raunhæft að ætlast til þess að rafmagnsleysi sé ómögulegt?
Vagn (IP-tala skráð) 11.11.2023 kl. 11:23
Vagn,
Áralöngu ákalli Suðurnesja eftir nýrri háspennulínu var loksins svarað í fyrra svo vandamálið sem þú telur ekki að sé til staðar verður leyst.
https://www.vf.is/frettir/hrun-a-innvidum-a-sudurnesjum-i-rafmagnsleysi
Auðvitað er ekkert 100%. Í Danmörku er takmarkið að neytendur upplifi ekki meira en um 20 mínútur af rafmagnsleysi á ári, en að það geti stigið upp í 35 mínútur eftir tæpan áratug (þegar orkuframleiðslan verður í auknum mæli byggð upp af óáreiðanlegri orkugjöfum).
Hvað ætli Landsnet stefni á fyrir Grindavík? 2-3 daga á ári?
Geir Ágústsson, 11.11.2023 kl. 12:05
Áralöngu ákalli Suðurnesja eftir nýrri háspennulínu sem fóðrað gæti frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar var loksins svarað í fyrra svo það vandamál verður leyst. En það kemur rafmagnsleysi vegna eldgoss eða bilana lítið sem ekkert við.
Bilun í rofa í spennistöð rétt við Keflavíkurflugvöll skapaði tveggja klukkustunda rafmagnsleysi á hluta Suðurnesjanna. Og hætt er við að fleiri línur Landsnets að spennistöðinni hefðu engu breytt og ekki komið í veg fyrir rafmagnsleysið. Lendi núverandi lína Landsnets undir hrauni þá mun þurfa að treysta á raforku frá HS Orku þær stundir eða daga sem tekur að rúlla út jarðstreng framhjá gosinu. En það fullnægir ekki þörfum allra notenda: heimila, iðnaðar, atvinnulífs, o.s.frv. Slökkva gæti þurft á orkufrekum notendum, götulýsingu o.s.frv. og grípa til skömmtunar. Óþægilegt til lengdar en ekkert neyðarástand.
Landsnet sér Grindavík ekki fyrir rafmagni nema eitthvað mikið bili hjá HS Orku.
Vagn (IP-tala skráð) 11.11.2023 kl. 13:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.