Norrænir jafnaðarmenn

Í Danmörku hefur hægri-miðju-vinstristjórnin nú tilkynnt að hún ætli að lækka launaskatta um að meðaltali um 40 þús. íslenskar krónur á ári á hvern einasta íbúa. Samkvæmt einni reiknivélinni sýnist mér þetta ætla að verða alveg ágæt lækkun fyrir sjálfan mig. 

Um leið ætlar ríkisstjórnin að auka ýmis útgjöld, að þannig er pólitíkin auðvitað. 

Hvernig stendur á þessari skattalækkun? Vissulega var hún á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar en er ekki verðbólga og verið að senda peninga og vopn inn í átakasvæði til að viðhalda þeim? Þarf ekki að fjármagna rándýr orkuskipti? Sveitarfélögin gráta sig hás af peningaskorti - þurfa þau ekki meira? 

Það er ástæða: Tilraun til að fjölga fólki á vinnumarkaði. 5000 störf eiga að fæðast við að lækka skattana. Launafólk greiðir þá meira í skatta og ríkið verður mögulega ekki af neinu. 

Á Íslandi kallast svona lagað Allir vinna, en ólíkt danska fyrirkomulagi þá lækka skattar á Íslandi bara tímabundið og ná yfirleitt einvörðungu til virðisaukaskattsins. Hugmyndin er sú sama - allir vinna - en Danir virðast að þessu sinni vilja að allir vinni varanlega, frekar en bara tímabundið.

Norrænir jafnaðarmenn muna gjarnan að til að fóðra ríkisvélina þarf framleiðslu verðmæta sem má síðar hirða að því marki að þau halda áfram að vera framleidd. Þeir breyta kerfinu hægt og rólega og hafa ákveðið óþol gagnvart skuldasöfnun. Skattarnir eru háir, vissulega, en þeir greiða líka fyrir það sem þarf að greiða fyrir (frekar en að vera bara fyrsta lag skattheimtu, og síðan bætast þjónustugjöldin við), og víða hægt að krækja í skattafrádrætti (svo sem vegna vaxtagreiðslna, aksturs til og frá vinnu og með kaupum á ákveðinni þjónustu).

Og þetta með innflytjendur? Norrænir jafnaðarmenn hafa núna lært að tilvist velferðakerfis og mikið innstreymi innflytjenda eru mótsagnir.

Margt er svipað í Íslandi og Danmörku: Biðlistar eru langir (tekur um 4-6 vikur að fá tíma hjá heimilislækni), velferðarkerfið aðlaðandi valkostur við vinnu og enginn skortur á fjáraustri í gæluverkefni. 

En maður má þakka fyrir það góða. Og það er hér með gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband