Frumlegar leiðir skattheimtunnar

Yfirvöldum hefur í áranna rás tekist að finna upp alveg ótrúlega margar og frumlegar leiðir til að féfletta launþegann.

Bein skattheimta er bara toppurinn á þeim ísjaka. Tekjuskattar, virðisaukaskattar, tollar, umhverfisskattar, fjármagnstekjuskattar, stimpilgjöld, fasteignagjöld, eignaskattar, sértækir skattar á banka og sjávarútveg og bíla og tóbak og áfengi, erfðaskattar. Listinn er endalaus.

Verðbólga er alveg sérstaklega illkvittin skattheimta. Ríkissjóður og fjármagnseigendur sjá skuldir minnka og eignir vaxa í verði. Láglaunafólk sér á eftir sparnaði sínum og bætir í vaxtagreiðslurnar.

Síðan er það óbeina skattheimtan: Leyfisgjöldin, endurmenntunin, kröfur til nýrra íbúða og húsa (sem gera fasteignir dýrari, ekki betri), vottunarkröfur, eftirlitskröfur, skráningarskylda, kröfur um að boða sérstaka eftirlitsmenn á staðinn ef einhver svo mikið sem rekur við. Hérna leikur báknið lausum hala í skjóli löggjafar sem felur í sér að nánari kröfur og reglur megi setja í reglugerð, og er lýðræðið þar með úr leik.

En upptalningunni lýkur ekki þarna.

Mjög lúmsk leið til að bæta í skattheimtuna er mjög í tísku um þessar mundir: Að sameina sveitarfélög. Eða, með öðrum orðum:

  • Að auka fjarlægðina til landamæra þar sem skattheima er vægari
  • Að auka fjarlægð milli íbúa og ráðhúss
  • Að sópa fleiri skattgreiðendum í sarpinn svo að skuldsetninguna á herðar þeirra megi auka

Það kemur því ekki á óvart að Reykjavíkurborg, sem er búin að þurrausa allar leiðir til að mjólka þegna sína, sé núna byrjuð að finna peningalyktina í vösum nágranna sinna.

Vonandi fellur enginn í gildruna.

Og nokkuð sem væri enn betra: Vonandi hefst núna umræða um breytingar á löggjöf sem gerir hverfum mögulegt að kljúfa sig frá kvölurum sínum og sameinast vægari herrum eða stofna eigin umdæmi.

Eða eins og ég skrifaði í tímaritsgrein fyrir nálægt því 10 árum:

Í allri umræðu um stjórnunareiningar, stórar sem smáar, þarf að hafa eitt í huga: Hvernig [er] viðkomandi eining að þróast? Þróast hún í átt að samþjöppun valds, auknu skrifræði, þyngri skattbyrðum, þéttari reglugerðafrumskógi og aukinni spillingu? Um Evrópusambandið má tvímælalaust segja allt þetta. Um íslensk sveitarfélög í núverandi mynd og í núverandi samrunaþróun má að sumu leyti segja hið sama. Með því að losa tökin á sveitarfélögunum og gera þau viðkvæm fyrir samkeppni hvert frá öðru, og klofningi í frumeindir, mætti snúa þeirri þróun við.

Ég stend við þessi orð. Stærðaróhagkvæmnin er óvinur fólksins. Smæðarhagkvæmnin er rétta leiðin. Að minnsta kosti þegar kemur að því að eiga við sveitarfélögin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband