Foreldravandamálið

Viðtöl við menn í framvarðasveit raunhagkerfisins - þar sem menn vinna verðmætaskapandi vinnu á gólfinu - eru oft mjög fróðleg. Eitt slíkt, við framkvæmdastjóra rafverktaka, er hér. Þaðan er eftirfarandi tilvitnun:

Það hefur orðið vakning fyrir iðnnámi og það virðist minna fara fyrir þessu umrædda foreldravandamáli, þ.e. þegar flestum var beint í stúdentspróf á árum áður.

Leit á leitarvélum skilar mér engum nothæfum niðurstöðum um þetta meinta foreldravandamál svo ég geri ráð fyrir að þetta sé tungutak sem er notað á kaffistofunum og ratar ekki í fréttir eða fræðigreinar. 

En tilvist þessa vandamáls kemur mér ekkert á óvart. Á Íslandi, meðal annarra ríkja, er mikill þrýstingur á að fjölga háskólanemum. Þetta hefur tekist alveg rosalega vel á Íslandi. Niðurstaðan er skortur á iðnmenntuðu fólki og offramboð af því sem ég hef heyrt suma kalla vandamálafræðinga“, fólk sem þarf að finna upp vandamál til að hafa eitthvað að gera. Kynjafræðingar eru hérna mögulega augljósasta og best þekkta dæmið.

Nú er ég sjálfur með stúdentspróf og háskólamenntun og hef ekkert samviskubit yfir því. Atvinnuástandið fyrir fólk með mína menntun er yfirleitt ágætt, enda eftirspurn til staðar og launin þokkaleg. En sjálfstætt starfandi iðnaðarmenn eru með margar mismunandi leiðir til að stinga mig af í tekjuöflun og og aðlögun að síbreytilegum aðstæðum. Ég þekki einn hérna í Danmörku sem var farinn að þéna svo vel sem múrari að hann ákvað að kaupa veitingastað til að sinna á meðan sveinar hans sjá um að blanda sementið. Ég þekki annan sem hefur ekki borgað skatt svo árum skiptir, og þiggur ekki annað en reiðufé fyrir þjónustu sína, og hefur það alveg þokkalegt. Hann mætir jafnvel í skítugum vinnufötum á skrifstofu sveitarfélagsins til að sækja atvinnuleysisbæturnar.

Nú er ég ekki, í þetta skipti, að hvetja til lögbrota en bara benda á að iðnaðarmenn hafa möguleika sem fólk á bak við skrifborð hefur ekki. Kannski fylgir því meiri óvissa en að vera opinber starfsmaður sem leysir vandamál sem hann fann sjálfur upp, og þiggur fyrir það hófleg laun á samkvæmt kjarasamningi, en tvímælalaust meira aðlaðandi fyrir þann sem vill skera stærri sér sneið út úr heiminum í formi tíma eða peninga eða sjálfstæðis eða allt þrennt.

Foreldravandamálið eru mögulega bara óformlega hugtak sem er notað á kaffistofum raunhagkerfisins, en ég mæli með því að taka það alvarlegar en allar heimsins skýrslur opinberra nefnda. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband