Mánudagur, 9. október 2023
Hálendishátíð og nothæfir listamenn
Landvernd, öfgafull samtök þeirra sem vilja hlaða rafmagnsbíla án þess að rafmagn sé framleitt, hafa blásið í svokallaða Hálendishátíð. Nothæfir listamenn hafa boðað komu sína um leið og þeir ásaka Íslendinga um skammsýni. Í yfirlýsingu Landverndar segir meðal annars:
Með tónleikunum viljum við vekja athygli á dásemdum Hálendisins en líka benda á þær ógnir er að því steðja. Við viljum auka skilning og þekkingu á Hálendinu en jafnframt hvetja alla til að standa að baki Landvernd og styðja samtökin í því að vera málsvari náttúrunnar, sem ekki getur varið sig sjálf.
Við viljum ekki fleiri virkjanir, ekki fleiri uppbyggða vegi, hótel eða háspennulínur á Hálendinu, sem er í raun hjarta landsins.
Þarna er margt sagt en annað ósagt. Nú troðast erlendir ferðamenn í gegnum Keflavíkurflugvöll til að skoða íslenskt hálendi. Þar eru háspennulínur og vegir og meira að segja einstaka vindmyllur, sem eru sérstakt lýti í sérhverju landslagi. Þar eru líka innstungur til að hlaða farsíma og það er erfitt að komast eitthvert á bíl ef enginn er vegurinn. Mikið er talað um orkuskipti, meðal annars af Landvernd, sem sér helst þá lausn að álverin minnki orkunotkun sína, svona eins og það sé ekki nú þegar efst á lista hjá þeim af rekstrarlegum ástæðum.
Ef Landvernd fengi að ráða þá væri illa komið fyrir Íslendingum.
En það er alltaf nóg af listamönnum til að stökkva á hvaða vitleysu sem er. Kannski án þess að hafa lesið smáa letrið. Kannski án þess að vita að rafmagn í hljómtæki þeirra yrði af skornum skammti ef Landvernd væri við stjórnvölinn.
Sem samtökin eru kannski, óbeint. Fylgjendur samtakanna eru sennilega víða innan báknsins að flækjast fyrir þjóðþrifaverkefnum með endalausum kæruferlum og breytingum á leikreglunum.
Það er þá vandamál sem ráðherra með veik hné þarf að rísa gegn.
En á meðan geta klappstýrur rafmagnsleysis og malarvega notið tímans á Hálendishátíð til heiðurs aðgengilegu hálendi þökk sé vegum, virkjunum og háspennulínum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.