Fimmtudagur, 7. september 2023
Um fasisma og hinn nýja
Í dag birtist eftir mig grein á vefritinu Krossgötum þar sem ég gæli við skilgreiningu á ríkjandi stjórnarfari í lýðræðislegum ríkjum þessi misserin og raunar mörg undanfarin ár. Sögulegar rætur þessa stjórnarfars eru teknar fyrir og koma kannski einhverjum á óvart.
Sumir telja að fasismi sé einhvers konar Hiterlismi og snúist um að hertaka önnur ríki og senda minnihlutahópa í útrýmingarbúðir. Svo er alls ekki. Fasismi í upprunalegri skilgreiningu Benito Mussolini fjallaði einfaldlega um sterkt ríkisvald sem var ofar einstaklingnum og hans sjálfselsku einstaklingshyggju. Einstaklingurinn var til fyrir ríkið, ekki öfugt.
Hann má vissulega eiga hluti og fyrirtæki en þegar ríkisvaldið bankar á dyrnar þá þarf viðkomandi að hlýða.
Menn skrifuðu stjórnarskrár vestrænna ríkja með algjörlega öfugu hugarfari eins og ég fjalla um í grein minni en í framkvæmd er í raun um ákveðna gerð af fasisma að ræða - nýfasisma.
Þannig getur ríkisvaldið til dæmis tekið af okkur réttinn til að gera allskonar friðsamlegt, eins og að eiga viðskipti og samskipti, að því er virðist.
Þrátt fyrir stjórnarskrár, ekki vegna þeirra.
Af því þegar ríkisvaldið skilgreinir einhverja hagsmuni rétthærri okkar sjálfselska einstaklingafrelsi þá er það orðið stjórnarfarið. Fasismi í raun, en af því hann er stundaður í stjórnarskrárbundnum lýðveldum: Nýfasismi.
Ég mun mögulega halda áfram að gæla við þessa hugleiðingu og þetta hugtak í skrifum, en er ekki alveg viss. Þetta er jú svo augljóst í raun að það væri eins og að benda á hið augljósa ítrekað. Kannski ætti ég frekar að fjalla um leiðir til að vinda ofan af nýfasismanum og mögulega koma góð tækifæri til þess í vetur þegar menn blása í nýja veirutíma.
Sjáum hvað setur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.