Mánudagur, 4. september 2023
Algengur hausverkur endurnýjanlegu orkugjafanna
Ókeypis rafmagn til skiptis við ógnardýrt rafmagn er algengur veruleiki víða í Evrópu. Þegar sólin skín í köldu veðri og vindur blæs þá er rafmagn gjarnan ókeypis á Suður-Jótlandi í Danmörku, svo dæmi sé tekið. Þegar er skýjað og logn er rafmagnið ógnardýrt og keyrt út úr þýskum kolaorkuverum, meðal annars. Þjóðverjar kalla slíkt ástand Dunkelflaute, sem er skemmtilegt að segja upphátt.
Þetta er hausverkur fyrir þá sem framleiða rafmagn enda er slit alveg jafnmikið í vindmyllu sem framleiðir ókeypis rafmagn og þeirri sem framleiðir dýrt rafmagn. En það er lítið hægt að gera í veðrinu og menn því með allskyns hugmyndir á sveimi, svo sem að nota ódýrara rafmagnið til að framleiða gas eða eldsneyti sem má geyma og nýta þegar orkuverð er hærra. Í þessu felst mikið tap, en það mætti kannski bara segja að töpuðu fé sé skipt út fyrir tapaða orku.
Suður-Jótland er nágranni Þýskalands. Í Þýskalandi er bannað að slökkva á vindmyllum, eða því fylgir a.m.k. háar sektir. Vindmyllueigendur í Norður-Þýskalandi hafa því stundum brugðið á það ráð að borga dönsku vindmyllueigendum til að slökkva á þeirra vindmyllum til að ofkeyra ekki rafmagnsnetið. Finnst þá mörgum nóg um.
Stöðugt og áreiðanlegt rafmagn er alls ekki sjálfsagður hlutur. Nú þegar Evrópumenn þykjast vera að skipta úr olíu, gasi og kolum yfir í vind- og sólarorku fer stöðugleikinn líka minnkandi - bæði í framboði og verðlagi.
En þetta á jú að vera svo gott fyrir plánetuna, segja sumir (en ekki aðrir).
Ókeypis rafmagn í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.