Formenn og fylgi flokka

Línuritið hér að neðan sýnir fylgi flokka eins langt aftur í tímann og hægt er að skoða á heimasíðu Gallup. Ég veit ekki hvort það er athyglisvert en tel þó hægt að draga af því ákveðinn lærdóm.

fylgiflokka23

Augljóslega sést áfallið í hinu alþjóðlega fjármálakerfi skýrt þarna í hruni á fylgi Sjálfstæðisflokksins niður í rétt rúmlega 20%. Í kjölfarið tók við vinstristjórn sem gekk svo illa að fylgi Sjálfstæðisflokksins var fljótlega komið vel yfir 30% nokkrum misserum síðar. Flokkurinn missir svo 10% á augabragði vorið 2013 en á sama tíma bætir Framsóknarflokkurinn við sig svipuðu fylgi sem hverfur samt hratt og á meðan eru Píratar allt í einu komnir fram á sjónarsviðið. Eftir það tekur við ákveðin flatneskja (með skammvinnu skoti upp og niður hjá Pírötum sem undantekning, og án þess að spá í kraðakið í undir 10% línunni) þar til nýlega, að Samfylkingin er komin á flug.

Nú er kannski ekki við hæfi að tengja þessar miklu sveiflur við það hver er formaður hvaða flokks og hvað þessir formenn segja, en kannski samt. Skipta þeir meira máli en allt það flokkastarf og grasrótarstarf og hugmyndavinnustarf og hvað það nú heitir allt saman sem flokkarnir þykjast vera að stunda? Skiptir stefnuskrá flokks minna máli en það hver er formaður flokks?

Skítt er það ef svo er. Það þýðir að allir landsfundir, flokkráðsfundir og félagsfundir soðna niður í að vera klúbbastarf, eins og að hittast til að spila borðspil í Skeifunni. Allar samþykktir, ályktanir funda og stefnuskrár fá sama vægi og stjórnarskrá Íslands: Fínn pappír, og þá aðallega ef klósettpappírinn klárast.

Einu sinni bjó Sjálfstæðisflokkurinn að óformlegu fyrirbæri sem kallaðist iðulega samviska flokksins: Ungliðahreyfingarnar sem veittu flokksstjórninni beitt og bítandi aðhald í gegnum virka starfsemi, skrif og háværa þátttöku á landsþingum. Sú samviska er vægast sagt þögnuð og ekkert komið í staðinn.

Hvað með aðra flokka? Er ennþá til eitthvað sem heitir Ung Vinstri-græn og annað slíkt, sem hamast í flokksforystunni fyrir að hafa svikið öll stefnumál flokks síns? 

En gott og vel. Ef það eina sem skiptir máli er hver er formaður og hvað sá formaður segir þá hljóta allir flokkar að vera hugsa sinn gang. Sumir eru betur settir en aðrir í dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það var smá val fyrir svons kannski 20 árum, milli einhverra fasista sem létu mann misömikið í friði, og  kommúnista.

Nú sýnist mér þetta mest vera glóbalista sokkabrúður og nytsamir fávitar fyrir slíka.

Svona eins og að spyrja: hvað er uppáhalds krabbameinið þitt?

Ásgrímur Hartmannsson, 3.9.2023 kl. 20:36

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Takk fyrir þessa knöppu en sennilega kórréttu lýsingu á ekki bara íslenskum heldur vestrænum stjórnmálum eins og leggja sig.

Geir Ágústsson, 4.9.2023 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband