Myglan og reykingar

Hvernig stendur á því að mygla sé nú að breiða úr sér eins og sinueldur og valda veikindum, kostnaði, töfum, röskunum og óþægindum?

Er það vegna þess að menn eru meira vakandi? Fylgjast betur með? Grípa í taumana í tæka tíð? Það sýnist mér ekki. Ég hef lesið viðtöl við foreldra sem hrópa og góla svo mánuðum skiptir yfir veikum börnum og ekkert á þá hlustað fyrr en allt er komið í óefni.

Er það vegna þess að menn kunna ekki lengur að byggja hús og innrétta? Skella gólfefnum á blauta steypu og annað slíkt? Mögulega skýrir það eitthvað af myglumálunum en varla þau í byggingum sem voru reistar þegar menn kunnu að byggja.

Ég heyrði frumlega skýringu um daginn sem ég stenst ekki að viðra.

Síðan menn hættu að reykja sígarettur innandyra þá eru menn ekki eins duglegir að lofta út og hleypa nýju lofti inn og raka út. Núna eru gluggarnir lokaðir til að spara kyndingu, loftræstikerfum er treyst fyrir loftskiptunum og raki sem þau ná ekki til fær að liggja svo mánuðum skiptir.

Nú er ég ekki að mæla með því að menn taki á ný upp tóbaksreykingar innandyra, en menn gætu kannski hegðað sér eins og kennarinn sé reykjandi í kennslustund og þurfi að tryggja nemendum eitthvað ferskt loft.

Og auðvitað á spítölum og öðru húsnæði þar sem mikið af fólki sendir rakt loft úr líkama sínum.

Talandi um reykingar, nú á tímum orkuskipta (orkuskorts): Einn vinnufélagi minn sagði mér frá ástandinu í Danmörku á 8. áratugnum þegar mikill orkuskortur plagaði samfélagið. Fólk átti helst ekki að baða sig oftar en einu sinni í viku og öll orkunotkun skorin við nögl. Þá kom sígarettan til bjargar með sinni lykt og tjöru sem faldi lyktina af súrum sokkum og sveittum handakrikum. 

Nú er ég ekki að mæla með því að menn taki á ný upp tóbaksreykingar innandyra, en kannski margir muni neyðast til þess þegar orkuskiptin (orkuskorturinn) ná hámarki og baðvatnið skammtað.


mbl.is Mygla hefur áhrif á skólastarf víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mælingar voru gerðar í skólahúsnæðinu sem ég vinn í, m.a. kennslustofunni sem ég hafði til umráða. Fyrir utan gluggana, sem voru opnaðir oft, er gróður. Að mælingum loknum spyr ég mælingarmanninn hvernig staðan sé í ,,minni" stofu. Hann tjáði mér að of mikill koltvísýringur hefði mælst yfir mælingatímann.

Samkvæmt raddsérfræðingi hefur koltvísýringur slæm áhrif á raddbönd og rödd kennarans. Nemendur komu og fóru og því ekki eins mikil áhrif á þau. Á upphafsdögum skólastarfsins mun mælingarmaðurinn gefa okkur betri innsýn í mælingarnar.

Hefur þannig séð ekkert með myglu að gera en víða má finna myglu í skólahúsnæði og hefur haft langvarnandi áhrif á rödd kennara. Því miður sváfu menn á verðinum, ekki hlustað á það og ekki síður læknar tóku ekki mark á þessu. En nú er öldin önnur. Víða á heilsugæslustöðinni má finna myglu og starfsmenn þar hafa veikst. 

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 13.8.2023 kl. 10:29

2 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Það er rétt hjá þér að öflugasta ráðið gegn myglu er að lofta út, koma hreyfingu á loftið. Það er einnig hægt með viftum. Jafnvel eftir að mygla uppgötvast þá getur verið frekar einfalt að losna við hana með því að laga svæðið og lofta vel út.

Það má líka kenna öryggiskerfum um myglu þar sem ekki má hafa opna glugga eftir að kveikt er á kerfinu. Getum einnig bætt við blómum þar sem allt sem gefur raka í lokuðu umhverfi ýtir undir myglu. Þá eru loftræstikerfin verst því þau koma ekki hreyfingu á loftið.

Rúnar Már Bragason, 13.8.2023 kl. 11:15

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Hér áður voru húsverðir alls staðar sem sinntu viðhaldinu daglega
það er liðin tíð.
Minning um húsvörðin í mínum barnaskóla er samt helst tengd strákúst sem hann tók á móti okkur með á tröppunum og notaði til að bursta af okkur snjóinn eftir frímínúturnar

Grímur Kjartansson, 13.8.2023 kl. 19:45

4 identicon

Margt réttilega athugað í pistlinu.  Mig langar að bæta einu atriði við og það er að með tilkomu útboða ræstinga, þar sem ræstingar urðu bissness ræstifyrirtækja, þá hrakaði mjög alvöru hreingerningum.  Allsherjar hreingerningu a.m.k. vor og haust, þar sem öll skúmaskot voru þrifin.

Auk þess hefur almennu viðhaldi, að dytta að jafnóðum, hrakað þar til í óefni er komið.

En náttúruleg loftræsing, um opnanleg fög, skiptir þó líkast til mestu til betrumbóta, svo sem áður þótti sjálfsagt og eðlilegt.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 13.8.2023 kl. 20:41

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Margt gott sem kemur hérna fram. Kannski er ráð að senda þennan athugasemdaþráð á viðhaldsdeildir sveitarfélaga til umhugsunar?

Geir Ágústsson, 14.8.2023 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband