Engar áhyggjur! Rússneska olíuleiðslan verður löguð

Okkur er sagt svo margt um sumt og svo fátt um annað. Skiljanlega, kannski. Þótt eitthvað sé, eða sé að gerast, þá telst það ekki alltaf fréttnæmt. Ég tala nú ekki um ef eitthvað er á réttri leið, svo sem dauðsföll vegna loftslagstengdra fyrirbæra, en það er önnur saga.

Um daginn kom upp leki í einni af olíuleiðslunum sem flytja rússneska olíu til Evrópu. En engar áhyggjur! Það er verið að lagfæra hana og engar grunsemdir eru um skemmdarverk. Olía étur sig í gegnum stál og lekar geta komið upp, en menn fylgjast vel með og bregðast við.

En hvernig stendur á því að rússnesk olía flæði til Evrópu í gegnum rör? Jú, á slíkum innflutningi er undanþága. En rennur þá ekki stórfé úr evrópskum vösum í rússneskar hirslur og þær hirslur svo nýttar til að fjármagna hernað í Úkraínu? Jú, væntanlega. 

Olíu er tiltölulega auðvelt að flytja í skipum. Gas er dýrt og erfitt að flytja í skipum. Samt er hamast við að finna valkosti við rússneska gasið á meðan olían streymir óhindruð í rörum.

Rússum er víst bannað að flytja olíu til Evrópu í skipum, en þau skip sigla bara eitthvert annað í staðinn og olían berst til Evrópu í gegnum indverskar olíuhreinsunarstöðvar: Made in India!

Nú er ég ekki að leita að réttlætingu og ekki einu sinni útskýringu. Stjórnmál innan Evrópusambandsins eru flókin og einhverjir hafa sennilega bent á að án rússneskrar olíu frjósi fátækt fólk í Austur-Evrópu til dauða, og á það hlustað í bili.

Góðu fréttirnar eru þá kannski þær að rússneska olían mun streyma áfram sem áður og á fullu eftir að viðgerðum er lokið. Og á meðan fuðra vestræn stríðstól upp á sléttum Úkraínu eftir að hafa hvorki komist lönd né strönd.

Allt samkvæmt áætlun einhvers, mögulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband