Miðvikudagur, 2. ágúst 2023
Labbað í grenndargáminn
Sum ummæli eru furðulegri en önnur. Tökum sem dæmi þessi, frá blaðamannafulltrúa Sorpu (sem hefur verið mjög upptekinn undanfarna mánuði):
En [endurvinnslustöðvarnar] eru bara sex, bara opnar ákveðin tíma dagsins og þær eru í það mikilli fjarlægð að fólk þarf oft að keyra, á meðan grenndargámarnir eru hugsaðir til þess að vera í nærumhverfi, svo maður geti labbað.
Já, í stað þess að sækja sorpið heim til fólks þá getur fólk bara labbað í næsta grenndargám.
Þetta hljómar auðvitað mjög vel. Margir eru eflaust fegnir að þurfa ekki að nota bílinn til að losna við sorpið. Að þurfa ekki í langa bíltúra með sorp í farþegasætinu. Að þurfa ekki að borga fyrir bensín ofan á sorphirðugjaldið.
Skoðum til dæmis Breiðholtið.
Bíddu nú við! Hérna fara ekki saman hljóð og mynd. Grenndargámarnir eru ekki nálægt íbúum heldur stærri götum. Þeir virðast vera staðsettir þannig að það sé sem auðveldast að tæma þá, ekki fylla.
Þetta sést alveg sérstaklega vel í tilviki Stekkjahverfisins. Þar eru grenndargámarnir fjarri íbúum en nálægt fjölfarinni umferðargötu. Í raun er varla hægt að komast fjarri íbúunum á þessu annars þéttbýla svæði (nema með því að staðsetja gámana í skógi Elliðaárdals).
Svo nei, það er enginn að fara labba í grenndargámana. Hafi það verið hugsunum þá fór framkvæmdin í klessu.
Grenndargámarnir eru einfaldlega leið til að spara sér að sækja ruslið heim til fólks. Skert þjónusta. Ónæði. Óþrifnaður.
Við lifum á tímum þar sem tungumálinu hefur verið snúið á haus. Grennd er fjarri, sorphirða er að skilja sorp eftir og þjónusta er engin þjónusta. Hvergi sést þetta betur en í sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu, og áform eru uppi um að láta hana versna.
Skallablettur á ruslamálunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:46 | Facebook
Athugasemdir
Ef þú heldur svona áfram endar með því að öskuhaugarnir verða að ráða sér fleiri blaðafulltrúa til að svara þér.
Þorsteinn Siglaugsson, 2.8.2023 kl. 19:32
Það er enginn að spyrja þá sem eiga erfitt með gang hvernig þeir eiga að koma glerkrukkunum og áldollunum í grendargáma. Algerlega óskiljanlegt af hverju má ekki vera ein tunna undir það.
Rúnar Már Bragason, 2.8.2023 kl. 21:16
Það getur verið snúið þegar krafan er "við viljum grenndargáma, en bara ekki í okkar götu".
Vagn (IP-tala skráð) 3.8.2023 kl. 10:49
Heimurinn var svo miklu einfaldari þegar sorphirðugjaldið stóð undir nafni.
Kerfið í dag ætti miklu frekar að kalla sorpferðalagið en sorphirða.
Geir Ágústsson, 3.8.2023 kl. 13:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.