Mánudagur, 24. júlí 2023
Maðkarnir í mysunni
Einhvers konar umhverfisslys ríður nú yfir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Lélegt og ósamræmt skipulag er einfaldlega að leiða til þess að allt er að fyllast af rusli. Þá er tvennt til ráða: Aka langar vegalengdir að einhverri móttökustöð, með illa lyktandi ruslið í bílskottinu, eða fleygja ruslinu á bak við tómar byggingar á fámennum svæðum.
Það þarf ekki að ræða lengi við Reykvíkinga til að fá fúlan smjörþefinn af þessu. Fólk sér maðka skríða upp úr tunnum með matarleifum eftir að hafa gefið þeim drjúgan tíma til að klekjast út og éta sig feita. Bréfpokarnir sem eiga að geyma matarleifarnar blotna í gegn og detta í sundur. Ruslageymslur lykta eins og súrir sokkar og bílarnir sem sækja mygluna sömuleiðis. Pappírsgámar fyllast á augabragði. Grenndargámar eru orðnir að grenndarhrúgum. Enginn veit hvernig á að flokka umbúðir sem eru blanda af bréfi og plasti eða öðrum samsetningum sorpflokka og sennilega endar allt heila klabbið í finnskri sementsverksmiðju hvort sem er.
Fyrir þetta klúður er svo rukkað sífellt meira fyrir sífellt minni þjónustu.
Ég á góðan félaga sem rekur fyrirtæki frá heimili sínu. Hann er því með þar til gerðan gám sem fyrirtækjum er boðið upp á og getur fleygt öllu sorpi í hann og fagmenn sjá svo um að flokka. Kannski menn ættu að bjóða almenningi upp á svipaðan lúxus?
Ég þekki mann sem vinnur við sorphirðu og hann flokkar lítið sem ekkert enda sér hann með eigin augum hvernig sorpið er meðhöndlað á móttökustað: Flokkað á færiböndum, og í rétta flokka.
Ég hef ekkert á móti flokkun á rusli. Ég sé alveg ágæt rök á bak við að safna matarleifum og nýta til að framleiða verðmæti, og kannski mætti skila eitthvað af þeim til framleiðenda hráefnisins í stað þess að rukka þá. Pappakassa og hreint plast má sennilega nýta í annað en landfyllingar. Allt þetta þarf samt að vera auðvelt og skilvirkt fyrir venjulegt fólk ef það á að halda út og nenna þessu í stað þess að troðfylla ruslatunnur við göngustíga eða varpa ruslinu á bak við næsta hól. Ég hef séð mun meiri fagmennsku við meðhöndlun á sorpi í sveitum Íslands, svo það sé nefnt.
Menn eru hérna einfaldlega búnir að rúlla illa skipulögðu kerfi út og ætlast til að fórnarlömbin taki til eftir klúðrið, bókstaflega. Það er dónaskapur og yfirgangur.
Maðkarnir eru skriðnir upp úr mysunni og út á gangstéttar fólks eða eldhúsgólf. Forfeður okkar í moldarkofunum bjuggu ekki einu sinni við slíkan viðbjóð. Þarf ekki að stöðva þessa vitleysu?
Grenndargámar borgarinnar stútfullir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:37 | Facebook
Athugasemdir
Sammála !
Ef þessi meirihluti hefði einhvern sóma í sér myundu þeir segja af sér og fá einhvern til að klára klúðrið.
Þeir eru ekki menn og konur til þess !
Birgir Gudjonsson (IP-tala skráð) 24.7.2023 kl. 18:47
Það er ekki í eðli ríkisstofnana að leysa vandamál, heldur að búa þau til.
Sjá, sannlega segi ég ykkur að þetta mun enda á því að það verður rukkað hærra gjald fyrir enga þjónustu.
Það er framtíðin.
Ásgrímur Hartmannsson, 24.7.2023 kl. 20:13
Menn eru kannski að reyna finna mörkin á því hvað er hægt að leggja af óbærilegum óþægindum á fólk án þess að það bregðist við í raun. Veirutímar sýndu að það er hægt að kvelja almenna borgara töluvert mikið með réttum áróðri og blekkingum.
Geir Ágústsson, 25.7.2023 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.