Laugardagur, 15. júlí 2023
Maíspokavitleysan
Eins og ég benti á í seinustu færslu er nú verið að segja fólki að fleygja ekki maíspokum í körfu með matarleifum því þeir brotna ekki niður. Þetta eru ákveðin vörusvik enda eru þessi pokar merktir sem niðurbrjótanlegir og gefið til kynna að þeir séu eins og hvert annað grænmeti - umhverfisvænir og grænir og allt það.
Þetta stingur líka í stúf við fræðsluefni Umhverfisstofnunar en á heimasíðu hennar segir (áhersla mín):
Síðastliðin ár hafa mikið af vörum komið á markað sem gerðar eru úr lífplasti (PLA-plast) og merkt eru "compostable" eða jarðgeranleg. Þetta eru til að mynda maíspokar, kaffihylki, hnífapör, djúsglös og annarskonar einnota vörur. Þrátt fyrir merkinguna er lífplast ekki niðurbrjótanlegt í heimajarðgerð af neinu tagi heldur einungis í miðlægri iðnaðarjarðgerð. Í sumum tilfellum eru þó þunnir maíspokar (eða aðrir sterkjupokar) notaðir utan um lífræn hráefni og geta þeir í vissum tilfellum brotnað niður.
Hvað er moltugerð Sorpu annað en iðnaðarjarðgerð? Af hverju getur hún ekki tekið við maíspokunum og fengið þá til að brotna niður? Þegar leitað er á heimasíðu Sorpu eftir upplýsingum um maíspokana og í hvaða tunnu það á að fara í kemur ekkert fram nema leitað sé að lífplasti eða LPA, og þá bent á blandaðan úrgang.
Vörusvik. Rangar upplýsingar. Blekkingar.
Það er verið að hafa fólk að algjörum fíflum þegar því er boðið að kaupa poka, kaffihylki og annað úr svokölluðu lífplasti sem, samkvæmt heimasíðu Sorpu, er urðað á Álsnesi á meðan plastið er sent til Svíþjóðar í frekari endurvinnslu (meðal annars framleiðslu á baneitruðum leikföngum) eða nýtt sem eldsneyti til orkuvinnslu ef hún er ekki möguleg.
Viltu maíspoka? Þá verður þeim mun meira urðað á Álsnesi.
Viltu plastpoka? Þá ertu að leggja til hráefni í endurvinnslu eða orkuvinnslu (í Svíþjóð).
Auðvitað var alveg hægt að reikna með því að sorphirða hins opinbera yrði að einni stjarnfræðilegri vitleysu sem kostar fúlgur fjár og bætir í engu umhverfi okkar. Fyrirkomulagið í dag fer samt vel fram úr mínum svartsýnustu væntingum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Facebook
Athugasemdir
Mín reynsla af þessum svokölluðu maíspokum er reyndar sú að þeir séu einmitt niðurbrjótanlegir. Ég setti einn slíkan í tunnuna sem er ætluð matarleifum en vegna anna fórst fyrir um nokkurra daga skeið að tæma hana. Fyrir vikið voru matarleifarnar byrjaðar að mygla, en myglan gerði engan greinarmun á matarleifunum og maíspokanum. Hún var beinlínis byrjuð að næra sig á pokanum og búin að melta sig í gegnum hann, svo að þegar ég ætlaði að taka pokann úr tunnunni kom í ljós að það var komið gat á hann og hluti af innihaldinu datt út um gatið. Jafnframt hafði mygluskánin breitt úr sér innan á tunnunni úr eldhúsinu og þar sem ég vildi ekki bera þann ófögnuð aftur inn í hús útheimti þetta allsherjar þrif á öllu saman. Síðan þá hef ég gætt þess að setja plastpoka utan um maíspokann áður en ég set þá í tunnuna svo að þetta gerist ekki aftur. Fyrir vikið þarf ég núna tvo poka í stað eins og á erfitt með að sjá hvað öll þessi fyrirhöfn eigi að spara.
Guðmundur Ásgeirsson, 15.7.2023 kl. 14:22
Mín reynzla er sú að ef það er ekki bakelít, þá brotnar það niður.
Maður geymir eitthvern plasthlut úti í glugga og hann verður að mylsnu á 5 árum.
Ásgrímur Hartmannsson, 15.7.2023 kl. 20:57
Flestir fara sem betur fer oftar út með ruslið en á 5 ára fresti. :)
Guðmundur Ásgeirsson, 15.7.2023 kl. 21:10
Guðmundur,
Þetta er alveg einstaklega skemmtileg frásögn þótt ég hafi samúð fyrir þjáningum þínum og aukinni plastnotkun vegna flokkunarinnar.
Eitthvað finnst mér spennandi að matarleifar eigi að fara í bréfpoka. Ég vona að lesendur hér segi frá reynslu sinni með það. Er hægt að sturta kartöflumús niður?
Geir Ágústsson, 15.7.2023 kl. 21:17
Mitt plastrusl er fallegt og listrænt og vel þess vert að vera til sýnis úti í glugga til margra ára.
Ásgrímur Hartmannsson, 15.7.2023 kl. 23:18
Ráðleggingar umhverifsinna hafa oftar en ekki
ekki staðist tímans tönn
Minnir mig á áróðurinn gegn fosfati í þvottarefni hér um árið
þegar auglýst var grimmt að umhverfisvænu þvottarefnin væru fosfatfrí
Fosfatið var talið auka þörungavöxt í ám og vötnum - erlendis
Náttúran á Íslandi er fosfat snauð og það væri bara til bóta að fá meira fosfat
Grímur Kjartansson, 16.7.2023 kl. 07:12
Fróðleg færsla og ekki síður skemmtilega upplýsandi umræða í athugasemdum. Lærdómurinn er auðvita að þessar ráðleggjandi stofnanir eru vita gagnslausar og ætti að leggja niður. Ekki bara þessi umbúðastofnun. Gleymum ekki lyfjastofnun sem hefur það hlutverk að þýða erlendar leiðbeiningar með lyfjaglösum. Taka á móti tilkynningum um lyfjaskaða sem síðan er stungið ofan í skúffu og sér aldrei aftur dagsins ljós. Þessar stofnanir virðast hafa það eitt hlutverk að taka á móti "sérfræðingum" frá atvinnumiðlun forsætisráðherra. Við sem borgum fyrir herlegheitin höldum svo að verið sé að verja líf okkar og heilsu.
Ragnhildur Kolka, 16.7.2023 kl. 09:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.