Sápuþvottur á plasti

Það getur verið athyglisverð æfing að bera saman hvernig ríki í Evrópusambandinu innleiðir ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins og hvernig ríki utan Evrópusambandsins innleiðir ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins. 

Til dæmis Danmörk og Ísland.

Ég bý í fjölbýlishúsi í Danmörku, nánar tiltekið í sveitarfélagi sunnan við Kaupmannahöfn, og er núna staddur á Íslandi þar sem ég dvel einnig í fjölbýlishúsi. 

Í Danmörku set ég þurrt plast, þurran pappír og annað slíkt í poka og ber svo á 2-4 vikna fresti út í skúr við bílastæðið sem er tæmdur nokkrum sinnum á ári. Þangað rata gömul húsgögn, stórir pappakassar, leikföng og ýmislegt. Allt annað rusl set ég í poka undir eldhúsvaskinum og treð svo í lúgu á veggnum á ganginum, þar sem ruslið fellur niður í einhvern gám sem ég kem aldrei nálægt. 

Fagmenn taka við öllu þessu rusli og flokka það eins vel og hægt er, nýta sumt og brenna afganginum (og framleiða í leiðinni rafmagn og hita).

Nokkuð þægilegt, satt að segja. Ég þvæ ekki ruslið mitt. Ég þarf ekki að nýta annað rými en skápinn undir eldhúsvaskinum (fyrir báðar tegundir), og ég þarf ekki að fara í bíltúra með ruslið mitt.

Auðvitað svífa yfir vötnum hótanir um að frekari flokkun sé handan við hornið en þegar er búið að takast svo ágætlega að gera bíla óaðgengilega venjulegu launafólki (eins og í Danmörku) þá er erfitt að ætlast til að fólk geti komið ruslinu lengra í burtu en nokkra metra frá heimili sínu.

Færum okkur nú til Íslands. Ég sé að fólk er hérna byrjað að þrífa ruslið sitt með heitu vatni og sápu og setja svo tandurhreint í sérstaka poka sem fara í sérstakar tunnur eða gáma. Ruslalúgunum á að loka. Fernur eru pappír einn daginn en ekki þann næsta. Hvað með box sem eru bæði úr pappír og plasti? Enginn veit. Fólk þarf að eiga bíl til að komast í svokallaða grenndargáma eða móttökustöðvar og ekki boðið upp á að sækja stærri hluti eins og brotin húsgögn eða málningarfötur. Ruslið er því á ferð og flugi um allan bæ, og endar svo jafnvel í skipi sem siglir því til Svíþjóðar til að hjálpa Svíum að halda á sér hita.

Er hægt að kenna Evrópusambandinu um þessa þvælu? Nei, auðvitað ekki. Það sem gerðist er að fámennir ofstækismenn fengu frítt spil og óútfyllta ávísun til að innleiða stórt, dýrt og óskilvirkt klúður.

Sé einhver Evrópusambandstilskipun að baki þessari þvælu þá hefur hún verið túlkuð á strangasta mögulega vegu til að ónáða venjulegt fólk eins mikið og hægt er.

Það ætti að vera lítill vandi að vinda ofan af þessu og það mætti gera án þess að draga í neinu úr endanlegri flokkun og endurnýtingu ýmissa efna með því að leyfa venjulegu fólki að losna við ruslið og fagmönnum og færiböndum um að flokka það og koma í farveg. Að sjálfsögðu eiga Íslendingar að geta brennt því sem þarf að brenna í stað þess að niðurgreiða hitaframleiðslu í Svíþjóð og skipaflutninga þangað. Urðun er víða góð leið til að búa til jarðveg. Þetta á ekki að þurfa vera svona flókið og það er ekki hægt að saka Evrópusambandið um óþægindin. 

Þetta þarf að gerast sem fyrst svo ekki fari að myndast fleiri ólöglegir ruslahaugar á bak við tómar byggingar og í skurðum við þjóðveginn.

Hugleiddu þetta, næst þegar þú stendur þig að því að þvo tómt salatbox með heitu vatni og sápu á eigin reikning áður en þú kemur því fyrir í upphituðu húsrými sem ætti í raun að nýtast fólki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband