Arðbær ríkisstyrkt ráðgjafaþjónusta

Hagsmunasamtök nokkur auglýsa eftirfarandi verðskrá fyrir aðgang að sérþekkingu sinni (sem ég kalla hér ráðgjöf):

Nemendafræðslur: 26.900 kr. klst.
Starfsfólk sem vinnur með börnum: 32.900 kr. klst.
Stofnanir í velferðarþjónustu: 42.900 kr. klst.
Aðrar stofnanir: 59.900 kr. klst.
Fyrirtæki (undir 50 starfsmenn): 84.900 kr. klst.
Fyrirtæki (yfir 50 starfsmenn): 104.900 kr. klst.
Félagasamtök: Eftir samkomulagi
Yfirlestur skjala og gagna: 18.900 kr. klst.
Erindi á ráðstefnum: 49.900 kr. klst.
Akstursgjald: 111 kr. pr. km

Ekkert afbrigðilegt á ferðinni hérna, held ég. Að fá góðan ráðgjafa er gulls ígildi. Ég veit um ráðgjafa sem rukkar 100 þús kr. klst. og er bókaður alla daga frá morgni til kvölds. 

En hvað ef ráðgjafinn nýtur ríkisstyrkja? Er þannig séð að miklu leyti á opinberu framfæri? Og er svo að selja ráðgjöf sína fyrst og fremst til opinberra aðila? Skattgreiðendur borga þá þrisvar: Fyrir ríkisstyrkinn, fyrir þóknunina sem er send á opinbera aðilann sem keypti þjónustuna og að auki fyrir hinn opinbera rekstur sem gefur engan afslátt þótt hann sé að borga utanaðkomandi aðilum til að leysa af eigið starfsfólk eða sitja námskeið í stað þess að vinna vinnuna sína.

Ráðgjafinn sem er búinn að koma sér svona rækilega fyrir á þrjá spena skattgreiðenda eru Samtökin 78.

Samtökin 78 selja ráðgjöf, eru með samninga við sveitarfélög og ýmsar opinberar stofnanir (t.d. lögregluna) og eru að reyna selja þjónustu sína til fyrirtækja, meðal annars svokallaða Hinsegin vottun (sjá t.d. hér bls. 24), sem er væntanlega eitthvað annað en Regnbogavottun Reykjavíkur. Félagið hefur bætt við sig um 100 milljónum af rekstrarfé, eða nálægt því fjórfaldað það, á 5 árum. Og að miklu leyti er þetta fé skattgreiðenda (einstaklingsframlög nema um 30% af rekstrarfé sýnist mér).

En er eitthvað að þessu? Er ekki verið að berjast fyrir góðum málstað? Málstað sem þarf að fjármagna vel? Það má vel vera þótt ég sé ekki sannfærður persónulega. En það kemur mér á óvart hvað peningastraumurinn er orðinn mikill og hvað skattgreiðendur standa undir miklu af honum. Mikil áhersla virðist líka vera á að ná til barna, helst án vitundar foreldra og jafnvel sveitastjórnarmanna (a.m.k. þegar kemur að innihaldi þess efnis sem ráðgjöfin felur í sér). 

Mögulega sér einhver ástæðu til að staldra við, taka umræðuna og endurmeta þörfina á ráðgjöf sem er seld á markaðskjörum til hins opinbera, greidd (beint og óbeint) þrisvar af skattgreiðendum og framreidd í barnaskólum, án þess að rækileg yfirferð hafi farið fram á innihaldinu og kostum og göllum þess að fórna hefðbundnu námi í staðinn.

Hófsöm uppástunga að mínu mati. Og ég segi þetta sem maður sem var fyrir 30 árum staddur í íslensku grunnskólakerfi sem kenndi umburðarlyndi, virðingu fyrir mismunandi lífsstíl og það að við erum öll mismunandi. Í skólatíma, af kennara. Og það tókst alveg ljómandi vel þótt ég segi sjálfur frá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mun einhvern næstu daga fá samning Akureyrarbæjar við Samtökin 78 í hendurnar. Verður fróðlegt lesning. Bærinn á fullt af frambærilegum og góðum kennurum sem geta kennt efnið sem Samtökin 78 bjóða upp á. Sama með eigin fræðslu, kennarar geta leitað að henni annars staðar en hjá Samtökum 78. Bærinn virðist ekki gefa kennurum val. Vona samt að mætin verði valkvæð.

Peningasóun að mínu mati hjá bæjarfélagi sem þarf á hverri millu að halda.

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 7.5.2023 kl. 15:58

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Helga,

Takk fyrir athugasemdina og eigin innlegg í umræðuna og vonandi stendur þú af þér skítkastið sem þú hefur hlotið fyrir vikið.

Þú rekst á góðan punkt með kennarana. Þeir ættu að fá mikið faglegt svigrúm en virðast nota það til að hoppa á hvað það nú er sem er í tísku hverju sinni. Það er ekki víst að margir þeirra kvarti yfir því að þurfa dansa í takt. Af hverju? Það veit ég ekki. Óttast þeir um starf sitt? Eru þeir sammála? Hafa þeir enga skoðun? Huga þeir að aldri barnanna eða bara fyrirmælunum að ofan? 

Nema vandamálið sé í rótinni: Kennarakennslunni. Les t.d. á einum stað að markmið lestrarkennslu í yngri bekkjum sé ekki að kenna börnum að lesa heldur hreinlega tileinka sér menningu, aðdáun á fjölmenningu og finna einhver tengsl við þjóðlegan og alþjóðlegan sagnasjóð. Er þetta önnur leið til að segja kennurum að láta börnin lesa um bæði Mjallhvíti og dvergana sjö, og Djáknann á Myrká?

Geir Ágústsson, 7.5.2023 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband