Skólakerfið kallar á einsleitni, ekki fjölbreytileika

Ég er fyrrum nemandi í íslenska grunnskólakerfinu. Ég sat í bekk með meira og minna sama fólkinu frá 6 ára til 13-14 ára aldurs (þar til fólk gat valið að fara í hægferð, miðferð og hraðferð í kjarnafögunum). Bekkurinn minn var mjög fjölbreyttur. Sumir nenntu engu og trufluðu kennslu og urðu svo að mjög færum tónlistarmönnum, sölumönnum og frumkvöðlum. Sumir voru mjög samviskusamir og báru saman einkunnir - stefndu á 10 í öllum fögum. Örfáir voru í sérkennslu vegna lesblindu. Við vorum nördar, íþróttafólk, tónlistarmenn og einstaklingar á jaðri þess að gerast glæpamenn, öll í sama bekk í fjölda ára. Rík og fátæk, grönn og feit, rauðhærð og dökkhærð. Öll undir styrkri stjórn konu yfir miðjum aldri sem lést nýlega - kona sem á stóran hlut í uppeldi okkar hreinlega. 

Svona bekkur gæti aldrei gengið í dag. Stórt hlutfall strákanna væri á lyfjum. Búið væri að sannfæra nokkra veikgeðja einstaklinga í bekknum um að þeir væru í röngum líkama - ruglingur sem hrjáir vissulega sum börn áður en þau komast á kynþroskaaldur en greiðist svo úr í langflestum tilfellum þegar strákar verða skotnir í stelpum og öfugt, eða strákar verða skotnir í strákum og stelpur í stelpum eins og líkamar þeirra eru. Minnkandi áhersla á lestur hefði tekið frekara nám þeirra eirðarlausustu úr sambandi til lífstíðar. Við sem lögðum mikið á okkur til að fá góðar einkunnir værum skömmuð fyrir að vilja monta okkur og níðast á þeim með námsörðugleika. 

Við værum undir stanslausum þrýstingi að hafa skoðanir á einhverju sem krakkar hafa engan áhuga á og vitaskuld sömu skoðanir. 

Fjölbreytileikinn væri einfaldlega minni sem og umburðarlyndi fyrir mismunandi eiginleikum og hvötum okkar sem einstaklinga.

Foreldrar þora auðvitað ekki öðru en að spila með. Þeir vilja jafnvel ekki vita hvað fer fram innan veggja skólanna (nema hugsanlega hvort þar séu að vaxa myglusveppir í öllum áróðrinum). Þeim er sagt að setja börn sín á lyf og fagna því þegar ung börn koma heim með styttur af typpum og píkum.

Einsleitni, ekki fjölbreytileiki, er krafan í dag. Þeir sem halda öðru fram eru að slá ryki í augun á þér. Þá er stundum gott að ganga með gleraugu, eins og ég geri gjarnan.


mbl.is Fordæma viðhorf Helgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband