Sunnudagur, 12. mars 2023
Tæknin auðveldar yfirvöldum að loka okkur inni
Veirutímar voru alveg einstök tilraun í samfélagsverkfræði. Þeir snérust að nafninu til um veiru en voru í raun eitthvað annað og meira. Jú, veiran var markmiðið og ég held ekki neinu öðru fram. En þeir sem fengu borgað fyrir að fækka veirum fengu í hendurnar verkfæri sem aldrei hafði sést áður: Það, að geta bókstaflega bannað fólki að yfirgefa heimili sín en - og hér er nýbreytnin - um leið ætlast til að það gæti unnið vinnuna sína!
Að hugsa sér!
Í þróuðum hagkerfum, þar sem mjög margir vinna megnið af vinnu sinni í tölvum og geta sótt fundi í gegnum þær, þá gafst þetta í raun ágætlega ef menn einblína á hagtölur og rekstratölur fyrirtækja (vanlíðan, brottföll úr skóla, álagsvandamál og ýmislegt annað kemur ekki endilega fram þar). Fyrir suma var þetta yndislegur bræðingur af vinnu og samverustundum með börnunum, fyrir aðra hrein martröð þar sem bæði börn og vinna voru vanrækt. En þetta gekk, einhvern veginn. Ferðatölvustéttin (e. laptop class) var varin. Sóttvarnalæknar og flestir fjölmiðlafulltrúar (stundum kallaðir blaðamenn) eru meðal annarra í ferðatölvustéttinni, svo því sé haldið til haga.
Þetta verkfæri yfirvalda - að geta bannað fólki að mæta í vinnuna en um leið ætlast til að það vinni vinnuna - er frekar nýtt, en það verður nýtt! Til hvers að fara út úr húsi ef þú þarft þess ekki ef það minnkar ferðalag veiru? Til hvers að standa upp? Til hvers að hitta fólk? Sóttvararráðstafanir eru farnar að hljóma eins og lífsheimspeki atvinnulausra tölvuleikjafíkla.
En gott og vel.
Ég horfði á kvikmynd um daginn sem var tekin upp á 8. áratug 20. aldar. Þar sitja menn við símann, sem er rækilega bundinn við snúru. Tónlist er spiluð á vinylplötum. Fólk þarf að veifa höndum úti á götu til að fá leigubíl eða finna síma og hringja og bíða. Ekki saklausir tímar en einfaldari að mörgu leyti. Ég er með blendnar tilfinningar sjálfur: Ólst upp nánast án raftækja en er núna með tvær og stundum þrjár tölvur á borðinu mínu, auk síma. Ég á ung börn sem kunna á raftæki og það hefur kosti og galla.
En það sem ég vildi segja hér er að tímar án raftækja, fjarvinnu, fjarfunda, snjalltækja og ferðatölva voru tímar þar sem hefði aldrei verið hægt að taka upp glæný kínversk veiruvísindi fram yfir þau aldagömlu vestrænu. Þau vestrænu (kortleggja áhættuhópa og verja þá, beita svæðisbundnum úrræðum frekar en allsherjarúrræðum og annað slíkt) þyrftu að duga.
Og ættu að duga áfram, enda duga þau betur en kínversku vísindin.
Freistingin er samt sú að loka okkur inni aftur, og gera það af sífellt minni ástæðu, af því það er hægt! Það er hægt án þess að ferðatölvustéttin verði atvinnulaus, því miður! Í innilokuninni er svo hægt að beita allskyns úrræðum til að halda fréttastreyminu að þér einhæfu, röngu og yfirþyrmandi.
Ég gæti skrifað langa ritgerð um kosti tækninnar - hvernig hún hjálpar okkur að tengjast fólki, varðveita tengsl og komast í fróðleik og upplýsingar sem voru áður óaðgengilegar venjulegu fólki - en tel það vera óþarfi. Tæknin er að mínu mati frábær. En hún er orðin vopn í höndum yfirvalda og því vopni verður beitt aftur. Það er hægt að draga úr biti vopnsins (gott tengslanet sem notar miðla sem verða ekki ritskoðaðir er meðal aðferða) en nægilega margir trúa ennþá á upplýsingaóreiðu yfirvalda svo það er á brattann á sækja.
En leyfum þeim að prófa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.