Föstudagur, 10. mars 2023
Orkuskiptin, eða eitthvað?
Þessi orkuskipti og þetta kolefnishlutleysi er flókið mál. Sennilega óyfirstíganlegt án gríðarlegrar uppbyggingar í kjarnorkuverum (fyrir utan örfáar undantekningar þar sem vatnsföll og jarðhiti leggja sitt af mörkum). En menn eru að reyna að gera eitthvað hér og eitthvað þar. Kostnaðurinn er svimandi og bitnar á orkureikningum venjulegs fólks, en menn hafa fundið sína trú og láta kostnaðinn ekki vefjast fyrir sér. Ekki frekar en pílagrímsfarar miðalda í sínum krossferðum.
Ein hugmynd er sú að byggja rosalega mikið af vindmyllum og framleiða rafmagn sem má nota til að hlaða batterí. Batterí í bíla, meðal annars. Bílar með batteríum geta þá leyst af bíla með sprengihreyflum. Einnig má reyna að fanga orku sólarinnar með sama markmiði. Höldum því til haga að framleiðsla þessara battería er gríðarlega orkufrek og mengandi iðja, en gleymum því um leið.
En vindurinn blæs ekki alltaf og sólin skín ekki alltaf og stundum vantar bæði sól og vind, og þá segja Þjóðverjar Dunkelflaute. Hvað er þá til ráða? Jú, segja sumir: Nota tímabil rafmagnsframleiðslu umfram rafmagnsnotkunar til að kljúfa vatn í frumeindir sínar, súrefni og vetni, og nýta síðan vetnið sem orkugjafa eða hráefni til að framleiða aðra orkugjafa, eins og metanól. Þetta kalla menn á ensku electric-fuels, eða e-fuels, og yfirleitt kallað rafeldsneyti á íslensku. Dýrt, óhagkvæmt, en mögulegt. Þetta er stundum sett undir heitið Power-to-X - rafmagninu eru breytt i eitthvað annað - eða Power-to-Gas - rafmagnið er notað til að framleiða orkuríkar gastegundir sem má geyma til síðari tíma, ólíkt rafmagninu sem kemur þegar vindur blæs eða sólin skín, bókstaflega.
Eins furðulegt og allt þetta tal er þá er hægt að gera það furðulegra með því að bjóða Evrópusambandinu og RÚV að koma að umræðunni.
RÚV vill meina að rafeldsneyti sé gervieldsneyti. Af hverju? Ég veit það ekki. Metanól er metanól, hvort sem það er framleitt í þörmum belju, stígur úr olíu neðanjarðar eða búið til í flóknum verksmiðjum.
Evrópusambandið vill banna sprengjuhreyfla í bílum þótt slíka hreyfla megi knýja með öðru en afurðum olíu. Til dæmis gervieldsneyti RÚV.
Úr frétt RÚV:
Gagnrýnendur benda á að framleiðslan á gervieldsneyti sé afar orkufrek - og erfitt að ímynda sér að hægt verði að framleiða nóg af því með umhverfisvænu rafmagni, sem er væntanlega forsendan fyrir því að réttlæta framleiðsluna. Einnig er bent á að rafmagnið nýtist mun betur í rafmagnsbílum en til þess að framleiða eldsneyti af þessu tagi.
Hérna er skautað svo snyrtilega framhjá hvatanum á bak við að sóa fullt af orku til að framleiða rafmagnseldsneyti að annað eins hefur varla sést. Má bara hlaða bíla þegar sólin skín eða vindurinn blæs? Hafa allar rafmagnslínurnar sem þarf til að koma raforkunni til notanda engin áhrif á umhverfið? Eru hráefnin í þær óendanleg? Og svona mætti lengi telja. Rafeldsneyti eru rædd af alvöru af því vandamálin við að nota sveiflukennt rafmagnið beint eru stór. Risastór.
Eða má byggja nægjanlega mikið af kjarnorkuverum til að tryggja stöðugt rafmagn og leyfa svo vindinum og sólinni að bæta við þegar það er hægt og lækka aðeins rafmagnsreikninga fólks?
Ég er ekki að segja að kolefnishlutleysi sé góð hugmynd en þeir sem trúa því að það sé góð hugmynd þurfa alvarlega að hugsa sig um: Er mikilvægara að hugsa í lausnum eða sparka í Þjóðverja við hvert tækifæri? Eins og þeir sparki ekki nóg í sjálfa sig nú þegar?
Leyfum fréttamönnum RÚV að hugleiða það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.