Mánudagur, 30. janúar 2023
Hughreystingarorð fyrir sunnlenska rafbílaeigendur
Rafmagnslaust er frá Hvolsvelli og austur fyrir Vík í áttina að Klaustri og Vestmannaeyjar með því. Þetta staðfestir bilanavakt Rarik í samtali við mbl.is. Ekki er vitað hvenær rafmagn kemst aftur á.
Þetta skiptir auðvitað litlu máli fyrir flesta. Það er hægt að borða rúgbrauð og kveikja á kerti eða vasaljósi. Kannski eru einhver batterí hlaðin sem má nota fyrir símana. Stundum hefur rafmagnsleysi þýtt auknar barneignir 9 mánuðum síðar. Þegar innviðafyrirtækjum mistekst að takast á við náttúruöflin hefur fólk aðlagast til skemmri tíma.
En í þetta skipti eru afleiðingarnar mögulega verri fyrir svolítinn hóp fólks sem hefur fjárfest i rafmagnsbílum. Hvað gera rafmagnsbílar án rafmagns? Ekkert. Vonandi eru þetta ríkir einstaklingar sem eiga bensín- eða Dísil-bíl fyrir utan rafmagnsbílinn. Gott mál, það kemst þá leiðar sinnar. Vonandi er enginn að treysta eingöngu á innstunguna til að komast í vinnuna, í búðina eða með börnin í félagsskap, félagslíf og nám.
Stærri flutningabílar eru sem betur fer ónæmir fyrir þessu rafmagnsleysi og halda áfram að sækja mjólk, keyra varning og eldsneyti og bera póst, knúnir áfram á fljótandi jarðefnaeldsneyti.
Skipin eru líka óhult og geta jafnvel siglt að rafmagnslausum bæjum og stungið þeim í samband við Dísil-vélar sínar.
En ég vil hérna hughreysta rafmagnsbílaeigendur. Það getur vel verið að það kvikni í bílum ykkar þar sem þeir standa kyrrstæðir í bílskúrum sínum. Þeir eru komnir á hrakvirði eftir 5 ár. Þeir svíkja þig ef hitastigið úti lækkar aðeins. Hráefnin eru grafin upp af börnum í ánauð. En vitið til - þið eruð að bjarga loftslaginu!
Sérstaklega þegar bíllinn stendur kyrr, í rafmagnsleysi.
Það er því engin ástæða til að sjá á eftir fjárfestingunni. Hún er ljómandi góð. Eins og stytta. Listaverk. Klósettbursti.
Verði ykkur að góðu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Flestir rafbílaeigendur hafa bílana hlaðna og geta notað þá nokkra daga í venjulegri notkun. Svipað og bensínbílaeigendur sem geta notað bílana nokkra daga þó ekkert rafmagn sé til að dæla bensíni á bílinn. Því þó ótrúlegt sé þá ganga bensíndælur fyrir rafmagni. Ekkert rafmagn, ekkert bensín.
Hlutfallslega kviknar í fleiri bensínbílum en rafmagnsbílum (samkvæmt tölum frá Norskum tryggingafélögum), það ratar bara síður í fréttir. Þykir ekkert merkilegt og er hversdagslegt og óspennandi.
Hvað sem síðar verður, til dæmis inan áratugar þegar hætt verður að mestu að framleiða bensínbíla, varahlutir verða ófáanlegir og bensínstöðvar loka, þá halda 5 ára rafbílar núna verði betur en 5 ára bensínbílar. Enda framboðið töluvert minna en eftirspurnin meðan allar bílasölur eru fullar af illseljanlegum 5 ára bensínbílum á tilboði.
En það er slæmt þetta með ánauðugu börnin sem aka gröfunum og vörubílunum í námunum, meðan þau sauma ekki á þig skyrtu eða raða tökkum á lyklaborð sem þú síðan notar til að blogga um þau. Umhyggja þín fyrir þeim, raunverulegum eða ímynduðum, er virðingarverð þó hún nái ekki lengra en að blogga um þau í tilraun til að sverta rafbíla.
Vagn (IP-tala skráð) 30.1.2023 kl. 23:25
Það er í sjálfu sér ekki flókið að setja upp little díselrafstöð sem getur séð bensíndælum fyrir orku, enda þurfa þær ekki mikið. Slíkar rafstöðvar er hægt að kaupa í "súpermörkuðum" hér í "Amríkunni" og fjölmargar bensínstöðvar hér hafa slíkan viðbúnað. En hvort að slíkt sé tíðkað á Íslandi veit ég ekki.
En hitt er svo að mínu mati að rafmagnsbílar eru að mínu mati ánægjuleg framþróun, ekki síst vegna þess að orkan er til staðar á heimilum fólks svo dreifikerfið gott og að stóru leiti "óháð".
Rafhlöður munu án efa taka framförum og ég hef fulla trú á að góðar lausnir komi fram. Auðvitað er á rafmagnsbílum ákveðinn byrjendabragur, en það er ekki rík ástæða til þess að óttast það um of, heldur að nota þessa tækni þar sem henni verður við komið.
G. Tómas Gunnarsson, 31.1.2023 kl. 03:27
Vagn og G. Tómas,
Ég er enginn andstæðingur rafmagnsbíla. Þeir eru þægilegir í akstri, fullir af skjám og snjallri tækni, hlífa andrúmslofti borgar við útblæstri (þó ekki svifryki, enda miklu þyngri en hefðbundnir bílar) og er gaman að hraða upp.
En þeir leysa ekki af bensín- og Dísil-bílinn. Núna lítur það kannski þannig út þökk sé skattaafsláttum fyrir ríka fólkið og leyfi rafbílanna til að slíta upp vegakerfinu án þess að greitt sé fyrir. En rafmagnsbíllinn var dæmdur úr leik fyrir löngu síðan og það mun endurtaka sig, nema e.t.v. fyrir litla sendibíla og annað skutl.
Geir Ágústsson, 31.1.2023 kl. 07:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.