Einkavæðum heilbrigðiskerfið

Ég veit. Þegar menn tala um að einkavæða eitthvað á Íslandi sjá menn strax fyrir sér að útvaldir vinir helstu fjármagnseigenda og valdamikilla stjórnmálamanna eignist ríkiseigur á tombóluverði og mjólki þær svo til dauða áður en beinagrindin hrynur og er afhent skattgreiðendum.

Eða eitthvað álíka.

En einkavæðing getur verið ýmislegt annað en sala ríkisvaldsins á rekstri sem keppir við einkafyrirtæki. Eins sjálfsögð og sú sala er, auðvitað.

Ríkisvaldið getur fundið spegil, litið í hann og játað fyrir sjálfu sér að það er fullkomlega óhæft í tilteknum rekstri. Mögulega getur það rekið smásölu með áfengi, hellt malbiki á jörðina eða sent fólk á milli stofnana í ýmsum tilgangi til að afla sér pappíra. En þegar kemur að flóknum rekstri þá má ríkisvaldið alveg játa hið augljósa og gefast upp. 

Sem alveg einstaklega gott dæmi um rekstur sem hið opinbera getur einfaldlega ekki sinnt, af mörgum ástæðum, er rekstur heilbrigðiskerfis. Það er einfaldlega of erfitt að reka heilbrigðiskerfi innan ramma opinbers reksturs. Slíkur rekstur á erfitt með að aðlagast, boðleiðir eru of langar, sveigjanleiki í ráðningum of lítill og engin leið að koma upp raunverulegum hvatakerfum fyrir starfsfólk.

Þar með er ekki sagt að ríkisvaldið þurfi að lækka skatta og gera heilbrigðistryggingar að einkamáli hvers og eins, eins og í Sviss, eða vinna í flókinni og afskræmdri blöndu einkaframtaks og opinberra afskipta, eins og í Bandaríkjunum. Nei, ef almenningur er ennþá á þeim buxunum að hið opinbera fjármagni heilbrigðisþjónustu en að einkaaðilar veiti hana þá er fordæmið auðsótt til Svíþjóðar, Danmerkur, og víðar.

Þeir sem vilja geta svo auðvitað borgað meira en sem nemur skattgreiðslunum og fengið meiri heilbrigðisþjónustu í staðinn. Það geri ég í Danmörku og það gerir samstarfsfólk mitt í Póllandi (sem er jafnvel með betra kerfi en Danmörk).

Fjármögnun? Hver borgar? Óbreytt ástand, ef menn vilja.

Rekstur? Veitandi þjónustu? Gjörólíkt ástand.

Kæra ríkisvald, rekstur heilbrigðiskerfis er eitthvað sem þú ræður ekki við. Of flókið. Of erfitt. Þú kannt að innheimta skatta. Jafnvel of vel. Viltu ekki bara halda þig við það og láta sérfræðingunum eftir að stunda reksturinn?


mbl.is Allir að tala og vinna þvers og kruss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það ætti þá að fara alla leið, ekki bara að gefa einhverjum tækifærissinnum sem telja sig geta þvingað ríkið til uppgjafar óútfyllta tékka. Einkarekið heilbrigðiskerfi krefst í dag samninga við ríkið sem tryggir þeim ókeypis neyðarþjónustu frá ríkisspítölum þegar illa tekst til, tryggðan rekstur til nokkurra ára, tekjur vel umfram gjöld og enga samkeppni. Belti, axlabönd og ríkisábyrgð. Setjum samkeppnina inn í dæmið og látum peningamennina borga fyrir þá þjónustu sem ríkið veitir þeim. Horfum svo á þá slást um hver getur veitt bestu og ódýrustu þjónustuna. Finnir þú Skoskt sjúkrahús eða Pólskan lækni sem er tilbúinn til að annast þig fyrir minna þá borgar ríkið. Svíar geta skipt um liði og Frakkar stundað hjartaþræðingar. Geti hálaunalæknar með hjúkrunarfólk á kaupaukum og sporslum með flottustu tól og tæki í dýrustu leigu með miklar arðgreiðslur ekki keppt í verðum þá kemur ríkið þeim ekki til bjargar. Það gæti reyndar kostað það að ríkissjúkrahúsin fylltust af læknum og hjúkkum sem ekki telja sig geta haft það betra með því að vinna í einkageiranum og kostnaður við heilbrigðiskerfið lækkaði um einhverja tugi prósenta.

Það vill svo til að ríkisvaldið er sennilega með færari sérfræðinga í rekstri en einkageirinn sem margir hverjir eru bara læknar sem vilja meiri pening en hafa enga þekkingu á rekstri. Sem gæti verið ein ástæða þess að einkageirinn þarf að innheimta helmingi hærra verð, fyrir minni þjónustu, en þessir sem þú telur óhæfa til að reka heilbrigðisstofnanir og þurfa svo að skaffa einkageiranum ókeypis neyðarbakvakt.

Vagn (IP-tala skráð) 9.1.2023 kl. 02:47

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Hvað kostar liðskiptiaðgerð á Landspítalanum? Ég þekki mann sem reyndi ýmislegt til að komast að því og niðurstaða hans var: Spítalinn veit það ekki sjálfur.

Geir Ágústsson, 9.1.2023 kl. 08:57

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Menn átta sig ekki á að þegar þeir fara á heilsugæslu eða spítala, er það tryggingakerfi sem greiðir kostnaðinn. Munurinn á einkareknu og opinberu heilbrigðiskerfi er að tryggingakerfið er ósýnilegt í öðru tilfellinu.

Held að skynsamlegast væri að hið opinbera sæi áfram um tryggingakerfis hlutann og yrði þannig þriðji aðili að viðskiptunum. En að ríkið sjái bæði um tryggingahlutann og þjónustuhlutann, sé bara ávísun á sóun og spillingu.

Guðjón E. Hreinberg, 9.1.2023 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband