Laugardagur, 7. janúar 2023
Ertu nokkuð rasisti með fitufordóma?
Þeir spáðu engu rétt um fjölda spítalainnlagna og dauðsfalla vegna veiru.
Þeir spá engu rétt um þróun loftslagsins.
Þeir spá engu rétt um hungursneyðir, náttúruhamfarir og útrýmingu dýra.
Frá 2012:
Ég var að horfa á mjög athyglisverðan fyrirlestur á málfundi félagasamtakanna Málfrelsis, sem stendur yfir í þessum rituðu orðum og má fylgjast með í streymi á heimasíðu vefmiðilsins Krossgötur (væntanlega verður upptaka gerð aðgengileg síðar). Í þessum fyrirlestri er talað um vaxandi tilhneigingu okkar til að grípa til viðamikilla aðgerða (yfirleitt takmarkana á frelsi) til að koma í veg fyrir ólíklegan en voveiflegan viðburð.
Þannig leggja ýmis vestræn ríki nú allt kapp á að koma í veg fyrir eða minnka stórkostlega losun manna á koltvísýringi í andrúmsloftið með boðum og bönnum, sköttum og neyslustýringu því ef ólíklegar spár um hörmulegar breytingar á loftslagi Jarðar rætast þá hafa þær miklu alvarlegri afleiðingar í för með sér en allar aðgerðirnar.
Svipuð rök voru fyrir miklum inngripum og skerðingum yfirvalda í nafni veiruvarna.
Fyrirlesarinn bendir á að þetta sé mjög lokkandi hugsjón - að gera ráð fyrir hinu versta og grípa til mikilla aðgerða til að koma í veg fyrir það. Hún lokkar sérstaklega til sín vel stætt og menntað fólk, enda situr það hátt í siðferðislegum fílabeinsturnum sínum og finnur mögulega ekki fyrir sköttunum og skerðingunum.
En fyrirlesarinn bendir einnig á að það eru til margir aðrir ólíklegir en voveiflegir atburðir sem við gerum ekkert til að koma í veg fyrir. Við erum ekki að undirbúa Jörðina fyrir árás geimvera eða að stór loftsteinn lendi á Jörðina. Hvernig veljum við hvaða voveiflegu en ólíklega atburði á að koma í veg fyrir með ærnum tilkostnaði og frelsisskerðingum?
Góða fólkið segir sjálft að við veljum þá atburði sem bitna verst á fátækum og minnihlutahópum. Sértu á móti því vali ertu rasisti eða með fordóma. Hann nefndi sem dæmi samtökin People´s CDC í Bandaríkjunum - félagsskapur ýmissa spekinga sem vilja varanlegar sóttvarnaraðgerðir og ásakar alla andstæðinga sína um kynþáttahatur, fitufordóma og fáfræði. Sé á það bent að aðgerðirnar bitna einmitt verst á fátækum og minnihlutahópum þá er því einfaldlega ekki svarað.
Vinkona mín sagði mér um daginn að það þýddi ekki að lifa lífinu með endalausar áhyggjur og kallaði það heilsufarskvíða þegar maður veldur sér andlegu álagi yfir öllum mögulegum heilsufarsvandræðum. Slíkt gæti jafnvel leitt til líkamlegra vandræða. Þetta er víst vel rannsakað hugarástand. Mætti kannski segja að stefna stjórnvalda sé að stuðla að heilsufarskvíða? Og ætlar þú að taka við og þjást í kjölfarið?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Facebook
Athugasemdir
Ef ég skil hlutina rétt þá er í USA ákveðið ferli sem fer í gang ef lýst er yfir neyðarástandi. Ferli sem losar um fjármuni sem nota á í neyðarástandi. RUV og Co reyndi að setja þrýsting á forsætisráðherra að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum sem væntanega mundi setja venjuleg lög og reglur til hliðar því ekkert er til skriflegt um hvað eigi að gera í neyðarástandi (snjómokstur á Reykjanesbraut?)
En þetta er sennilega álíka og með þjóðarsorg, sum staðar eru til reglur um hvað eigi að gera annars staðar gera ráðmenn bara það sem þeim dettur í hug og kalla þjóðasorg.
Sumir eru þó alltaf verklausir þó svo lögin séu skýr eins og t.d. Dagur borgarstjóri sem segir að ekkert sé hægt að gera (sem betur fer) því reglugerð vanti.
Grímur Kjartansson, 7.1.2023 kl. 18:08
Grímur,
"Neyðarástand" er vissulega nothæfur hamar í höndum yfirvalda. Við munum vonandi hvernig kanadísk yfirvöld beittu neyðarlögum til að níðast á eigin þegnum í hinum svokölluðu trukkamótmælum. "Neyðarástand" loftslagsins gæti dugað til að herða allverulega að lífskjörum almennings, sem er jú draumurinn.
Geir Ágústsson, 8.1.2023 kl. 12:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.