Jólahugvekja

Þá eru jólin gengin í garð, pakkar hafa verið opnaðir, góður matur borðaður og vinnan sett á ís í nokkra daga. Jólin má kalla uppskeruhátíð kapítalismans af mörgum góðum ástæðum, fyrir utan að vera hátíð ljóss og friðar. Þar sem fólk býr ekki við frið og velmegun eru jólin bara enn eitt drungalegt tímabilið sem veitir lítið svigrúm til að staldra við, klæða sig í sparifötin og gleðja vini og ættingja með gjöfum og kveðjum.

Þetta eru fyrstu jólin síðan árið 2019 þar sem ríkisvaldið takmarkaði ekki möguleika okkar til að fagna hátíðinni á hefðbundinn hátt. Ástæðan? Veira sem var aldrei hægt að stöðva, og sérstaklega ekki með misheppnuðum sprautum, gagnslausum grímum, tilgangslausum sótthreinsunum og handahófskenndum samkomutakmörkunum sem meðal annars náðu til skólabarna. Skuldafjallið var stækkað og það mun líka draga dilk á eftir sér. 

Þegar var loksins búið að koma á eðlilegu fyrirkomulagi veiruvarna tók ekki annað betra við: Rússar réðust inn í Úkraínu og menn létu eins og það væri eitthvað annað en það raunverulega er, skelltu í heimatilbúna orkukreppu og hröðuðu heiminum í átt að nýrri valdadreifingu á heimsvísu þar sem hið vestræna samfélag er fært neðar í áhrifum og mikilvægi. Hvað tekur þá við? Um það er erfitt að spá.

Ekki að Vesturlönd þurfi á aðstoð annarra til að grafa undan sjálfum sér. Eftir að hafa rústað gjaldmiðlum sínum og blásið í svimandi verðbólgu á nú að bæta í við svokölluð orkuskipti til að sigrast á djöflinum í hinum nýju trúarbrögðum: Loftslagsvánni. Evrópa ætlar að skattleggja allan innflutning frá skítugum fátæklingum í nafni kolefnislosunar. Hagkvæmar bifreiðar verða teknar af almennu launafólki með skattlagningu og reglugerðum um útblástur. Vesturlönd eru jafngóð í að byggja sig upp og brjóta sig niður.

Jólin gefa okkur vonandi tíma til að staldra aðeins við. Viljum við halda upp á hátíðleg jól á næsta ári? Hvað getur komið í veg fyrir það? Hvað getur stuðlað að slíku? Ég legg til að við höldum okkur við það uppbyggilega, setjum öll nýju trúarbrögðin ofan í skúffu (þau eru mörg), hættum að espa upp átök og leyfum veirum og ónæmiskerfum að mætast á vígvelli frumustigsins en ekki göngum skólanna.

Gleðilega hátíð, lesendur, og takk fyrir samfylgdina!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skýr og skorinorður pistill.

Kærar þakkir.  Gleðileg jól.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.12.2022 kl. 14:23

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Pétur,

Takk fyrir það og sömuleiðis.

Geir Ágústsson, 26.12.2022 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband