Mánudagur, 19. desember 2022
Heimilisbókhald 101
Hvað gerir venjulegur maður þegar tekjur hans lækka eða útgjöldin hækka umfram tekjur?
Sækir hann um nýtt greiðslukort? Bætir við sig sólarlandaferðum? Endurnýjar jakkafötin?
Nei, hann selur væntanlega eignir upp í skuldir, minnkar við sig útgjöld og lætur gömlu jakkafötin endast aðeins lengur.
Hvað gerir hið opinbera þegar endar ná ekki saman og áætlanir sýna að það muni ekki takast í nokkur ár? Þegar opinber umsvif leiða til skuldasöfnunar?
Selur eignir? Minnkar útgjöld? Fækkar gæluverkefnum? Nei, þvert á móti.
Rafbílar eru ágætir að mörgu leyti en ekki öðru. Þeir eru leikföng hinna efnameiri. Þeir eru þungir og slíta vegum. Hljóðlátir, vissulega, og þægilegt að keyra þá, vissulega, en leikföng.
Það er því með öllu algjörlega óskiljanlegt að hið opinbera er að safna skuldum til að niðurgreiða rafmagnsbíla þeirra efnameiri á meðan venjulegu fólki er gert sífellt erfiðara fyrir að eignast ódýrari og hagkvæmari bifreiðar, knúnar bensíni og olíu.
Skattaafslættir eru góðir auðvitað en þeim mætti beina í aðra hluti, eins og að gera kaup á glænýjum og hagkvæmum bensínbílum ódýrari og stuðla þannig að betri nýtingu eldsneytis. Einnig mætti spara töluvert fé með því að fella niður kröfur um íblöndun á lífolíum í eldsneytið, og kannski hlífa einhverjum regnskógum í leiðinni við að verða breytt í pálmatré.
Ónefnd er svo tregða hins opinbera að heimila fleiri virkjanir til að knýja leikföngin. Er takmarkið að búa til rafmagnsleysi? Þvinga fiskvinnsluna til að snúa sér aftur að olíu? Moka álverunum úr landinu?
Hið opinbera spyr sig: Hvernig gengur að ná endum saman?
Svarið er: Nú illa, auðvitað, á meðan það heldur áfram að hegða sér eins og unglingur með greiðslukort foreldra sinna sem kaupir sér nýjar græjur fyrir lánsfé!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill.
Það hefur gjarnan verið auðvelt að sóa annarra manna fé. Hinu opinbera er treyst fyrir sameign okkar. Því miður velst þar til starfa sem ekki er traustsins vert. Þar er ekki hægt að undanskilja neinn stjórnmálaflokk, því miður.
Gunnar Heiðarsson, 19.12.2022 kl. 14:55
Geir, ég er ekki sammála þér með rafmagnsbílana að þeir séu leikfang þeirra efnameiri. Það þarf ekkert að vera með neina afslætti hvorki á rafmagnsbílum né bensínbílum. Dýrari rafmagnsbíll borgar sig fljótt upp og þó það væri borgað fullt verð fyrir rafmb. þá er sparnaðurinn það mikill að keyra á innlendri orku að hann væri ódýrari þegar upp er staðið.
Meðferð ráðamanna á almannafé er svo vítaverð að varla er hægt annað en jafna því við glæpamennsku. Ná eins miklu fé af almenningi eins og hann þolir að þeirra mati og gerir líf hins venjulega þjóðfélagsþegns lífið erfitt og sturta því svo niður. Almenningur er fangi yfirvalda og sé enga útgönguleið. Almenningur kýs alltaf það sama aftur og aftur alveg sama hvernig þeir standa sig.
Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 19.12.2022 kl. 17:09
Kristinn,
Ég tek kannski óþarflega sterkt til orða. Það er vissulega kostur að geta sett orku á bíl sinn með hagkvæmum og innlendum orkugjöfum sem krefjast ekki peningagreiðslna til spilltra prinsa og pálmatrjáaræktenda á fyrrum frumskógarsvæðum Borneó, hinum megin á hnettinum.
Gefið auðvitað, að menn haldi áfram að útvega þennan orkugjafa í takt við aukna eftirspurn, fólksfjölgun og breytt neyslumynstur. Það virðist því miður ekki ætla að verða raunin.
Gunnar,
Ég er með ágæta þumalputtareglu fyrir þá sem nenna ennþá að kjósa: Að kjósa bara einstaklinga sem hafa efni á því að láta kjósa sig út eftir að hafa tekið margar óvinsælar ákvarðanir. Margir þingmenn í dag voru í illa launuðum störfum fyrir kjör og sjá fram á að lækka töluvert í tekjum ef þeim tekst ekki að halda sér á þingi. Svona þingmenn fylgja ekki sannfæringu sinni heldur tískustraumum, og þeir straumar eru sterklega mótaðir af hagsmunasamtökum og blaðamönnum.
En til vara að lækka laun þingmanna verulega, kannski að meðallaunum landsmanna allra.
Geir Ágústsson, 20.12.2022 kl. 07:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.