Ein skoðun sem stjórnar öllum

Fræg eru eftirfarandi orð úr Hringadróttinssögu (Lord of the Rings), í lélegri þýðingu minni:

One Ring to rule them all, One Ring to find them,
One Ring to bring them all and in the darkness bind them

**********

Einn hringur sem ræður hinum, Einn hringur finnur þá
Einn hringur sækir hina og í myrkrinu bindir þá

eye2Í dag mætti kannski segja að menn í svörtum turnum (með augu á þakinu) séu að boða eina skoðun sem stjórnar öðrum. Hin ýmsu augu eru samfélagsmiðlar og stór tæknifyrirtæki sem sækja hinar ýmsu skoðanir og binda í hina einu sönnu skoðun.

Of myrk sviðsmynd, kannski?

Í mjög athyglisverðri greinFjölmiðlar sem bergmálshellir stjórnvalda?, sem má lesa á vefritinu Krossgötum, er eftirfarandi skrifað:

Í ársskýrslu Fjölmiðlanefndar kemur fram að árið 2019 var skrifað undir starfsreglur (e. Code of Practice on Disinformation) milli Evrópusambandsins og alþjóðlegu tæknifyrirtækjanna Facebook, Google, Twitter, Mozilla, Microsoft og TikTok þar sem „fyrirtækin skuldbundu sig til að sporna gegn dreifingu rangra og villandi upplýsinga í ríkjum Evrópu”. Samráðshópur evrópskra fjölmiðlanefnda, sem Fjölmiðlanefnd situr í fyrir hönd Íslands, átti síðan að fylgjast með því hvort farið væri eftir reglunum. Með samstilltu átaki Fjölmiðlanefndar og samráðshópsins, ásamt aðstoð mennta- og menningarmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, var stórfyrirtækjum gert skylt að framfylgja reglunum á Íslandi fyrir kosningar til Alþingis haustið 2021.

Af hálfu yfirvalda var staðhæft án fyrirvara um margvísleg boð og bönn, sem sögð voru vísindaleg og því óumdeilanleg(!), gagnleg, góð og heilsusamleg, allt í nafni lýðheilsu. Þegar þetta er ritað hefur komið í ljós að margar þessara fullyrðinga voru misvísandi og rangar, auk þess sem þær báru einkenni áróðurs. Sem dæmi var ekki greint frá fyrirhuguðum bólusetningum barna gegn kórónuveirunni með spurningunni „hvort“, heldur „hvenær“, þrátt fyrir að þá þegar væri  ljóst að bóluefnin höfðu í besta falli takmarkaða virkni og í versta falli skaðleg áhrif vegna aukaverkana. Framsetningin miðaði að því að drepa niður málefnalega rökræðu, því efanum var sjaldan mætt með öðru en háði. Orðræðan í fréttaflutningi varð sömuleiðis snemma fullmótuð og einhliða. Með vísan til kennivalds og útbreiðslu tiltekinna skoðana voru önnur sjónarmið kæfð. Í anda áróðursmanna fyrri tíðar voru efasemdir um hina opinberu stefnumörkun stimplaðar sem samsæriskenningar; heilbrigður efi bældur niður og andmæli hædd sem merki um fávisku, þekkingarleysi og jafnvel vænisýki.

Já, það fór ýmislegt fram á bak við tjöldin. Kerfisbundin þöggun í samstarfi yfirvalds og tæknifyrirtækja. Ein skoðun sem átti að stjórna öllum. Á yfirborðinu sáum við virðulega fjölmiðlamenn lesa upp vel skrifaðan texta. Kannski voru þetta bara leikarar að lesa handrit.

Menn velta því stundum fyrir sér hvernig Evrópa gat á sínum tíma orðið slík gróðastía hugmynda, tækniþróunar og trúarbragða að heimsálfan - þessi litli skiki Jarðar - gat hreinlega lagt afganginn af heiminum undir sig sem nýlendur. Hvaðan kom allt þetta afl? Öll þessi tækni? Öll þessi yfirburðarþekking á raunvísindunum? Afl og þekking sem var auðvitað misnotað í nafni útvíkkunar ríkisvaldsins til að fóðra misheppnaðar hagfræðikenningar, en það er önnur saga.

Mögulega er svarið fólgið í því hvað yfirvöld voru í raun vanmáttug að kæfa niður gagnrýna hugsun, tilraunastarfsemi og frjáls skoðanaskipti. Evrópa var á þessum tíma sundruð í mörg hundruð smá og stór ríki og þegar menn eins og Martin Lúther stigu á tær kaþólsku kirkjunnar þá gátu þeir stundum fundið skjóla hjá fursta eða keisara án þess að ferðast yfir hálfan hnöttinn. 

Yfirvöld í samstarfi við eða með þrýstingi á tæknifyrirtækin gengu langt á veirutímum, jafnvel of langt. Svo langt að sjónarspilið var afhjúpað fyrir nógu marga til að eitthvað slíkt geti aldrei endurtekið sig. 

En sjáum hvað setur. Prófsteinninn er handan við hornið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Góðan daginn.

Ótrúlegt að forseti Frakklands, Macron skuli telja sig skylt að ræða við Musk um málfrelsi á Twitter um daginn! Að forsetar Bandaríkjanna, Frakklands og forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins skuli setja út á málfrelsis stefnun samfélagsmiðilsins Twitter! Ef þetta væru leiðtogar einræðisríkis myndi maður skilja það en leiðtogar lýðræðisríkja! Frjálsar umræður hafa alltaf leitt til þess að sía út vitleysis umræðu og hún hefur alltaf hvort sem er dæmt sjálfa sig úr leik. Óvinsælar eða "rangar" skoðanir hafa alltaf fylgt málfrelsinu og er það gjald sem frelsið kostar.

Ég held að lýðræðisríkin séu á rangri braut og Von der Leyen ætti að halda kj....því hún er ekki kjörinn leiðtogi eins eða neins borgara ríkis. Við borgarar vestræns ríkis ættum að hafa áhyggjur af leiðtogum okkar, því hvaða vegferð eru þeir á?

Birgir Loftsson, 3.12.2022 kl. 16:20

2 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Merkilegt er að meginstraumsfjölmiðlar fjalla ekkert um hvernig málfrelsið var heft á Twitter þrátt fyrir játningar þaðan. Einnig að það skiptir engu hvort hægri eða vinstri, báðir vildu ritskoðun. Vinstri fékk vinninginn af því starfsmenn voru meira til vinstri.

Það mætti ætla að við fall Berlínarmúsins þá fékk kommúnisminn frítt útspil til vesturs en opnaði ekki í hina áttina eins og okkur er alltaf gefið til kynna.

Rúnar Már Bragason, 3.12.2022 kl. 17:27

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Það sem Rúnar og Birgir furða sig á passar ágætlega við það sem Guðmundur bendir á, og í öllu þessu samhengi: Það er ekkert samsæri lengur og fjölmiðlar steinþegja. Fyrirsjáanlega, að ég tel. 

Geir Ágústsson, 3.12.2022 kl. 22:30

5 Smámynd: Birgir Loftsson

Takk fyrir annars mjög áhugaverðar greinar. Alltaf gaman að lesa.

Birgir Loftsson, 4.12.2022 kl. 00:13

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Birgir,

Takk fyrir endurgjöfina. Hún blæs vind í segl mín.

Geir Ágústsson, 4.12.2022 kl. 08:26

7 Smámynd: Jón Þórhallsson

Mynduð þið vilja eiga TÖFRA-HRINGINN sem að hann Fróði fann?

Jón Þórhallsson, 4.12.2022 kl. 08:29

8 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Kannski, ef við hefðum verið opnari fyrir fjølbreytileikanum þegar múrinn féll og boðið Rússum inngöngu í klúbbinn hefði hinn ósýnilegi múr aldrei risið. En í sigurvímunni datt okkur það aldrei í hug. Við stigum á háls hins fallna og hertum að. Töldum að hið góða hefði sigrað.

Við erum að uppskera núna. 

Ragnhildur Kolka, 4.12.2022 kl. 09:46

9 identicon

Minnist þér ekki þess, að ég sagði yður þetta, meðan ég enn þá var hjá yður? Og þér vitið, hvað aftrar honum (Antikristi) nú, til þess að hann opinberist á sínum tíma. Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af. Þá mun lögleysinginn opinberast, og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína. Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir. Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni. Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu. 2. Þessakóníkubréf 5-12

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 4.12.2022 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband