Bitlausir niðurskurðarhnífar

rvk_kynjadurNiðurskurður í opinberum rekstri er vonlaus aðgerð. Óháð því hvert niðurskurðarhnífnum er beint er honum mætt af varnarmúr af opinberum starfsmönnum sem sjá fram á að missa vinnuna, dagpeningana eða stuttu vinnudagana. Þessir starfsmenn hafa að auki sér til aðstoðar ýmis hagsmunasamtök, verkalýðsfélög og fjölmiðlamenn. Stjórnmálamennirnir sjálfir hafa jafnvel takmarkaðan áhuga á að takast á við erfið vandamál og hætta á að næstu kosningar verði þeim óhagstæðar. Þeir eru unglingar með greiðslukort og vita þannig séð aldrei hvenær heimildin er búin en eyða auðvitað eins mikið og þeir geta á meðan kortið virkar. 

Einkafyrirtæki stunda aðeins öðruvísi aðferðafræði, a.m.k. þau sem ég hef starfað hjá í gegnum upp- og niðursveiflur. Þau skoða mjög nákvæmlega hvernig þau afla tekna og hvaða útgjöld þarf að stunda til að styrkja þá tekjuöflun. Þetta getur vissulega leitt til skammtímahugsunar ef næsta ársfjórðungsuppgjöf er það eina sem kemst að: Þróunarvinnu slegið á frest eða góðir starfsmenn í tímabundinni verkefnalægð látnir fjúka. En niðurskurðurinn er tekinn föstum tökum. Deildir eru stundum lagðar niður og verkefni þeirra blásin af eða færð til annarra, allskyns stoðdeildir skornar niður að beini og samið upp á nýtt við birgja. Stundum er andrúmsloftið gert óþægilega þrúgandi á meðan hagræðingaraðgerðir eiga sér stað.

Niðurstaðan er samt sú að fitan hefur verið fjarlægð. Mögulega eitthvað af vöðvamassa líka, en það er stundum óhjákvæmilegt þegar hnífurinn þarf að fara djúpt. Í staðinn fyrir fituna má nú byggja upp vöðva. 

Ég man vel eftir því þegar bólan árið 2008 sprakk og pantanabókin hjá þáverandi atvinnurekanda mínum fraus. Fyrirtækið fækkaði starfsfólki um fimmtung, verksmiðjan fór á dagvaktir og leitað í hverjum krók og kima eftir útgjöldum til að lækka. Við sem eftir urðu drukknuðum í álagi enda var þannig séð nóg að gera til skamms tíma. Þetta borgaði sig. Þegar pantanir tóku að berast var ennþá nægur grunnur til að byggja á en vissulega eftirsjá af mörgum sem var sagt upp.

Þegar olíuverð hrundi nokkrum árum seinna af öðrum ástæðum hófst annað eins ferli en jafnvel enn fleirum sagt upp.

Svona lýsingar eru víðsfjarri öllu tali um niðurskurð hjá hinu opinbera, og er Reykjavík alveg einstakt dæmi í því samhengi. Enn stendur til hjá borginni að ráða verkefnastjóra kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Ekki stendur til að spóla til baka á gæluverkefnum sem búið er að sjósetja. Svigrúmið er ekkert þótt skattstofnar séu í botni, fyrirtæki í eigu borgarinnar mjólkuð um hvern dropa, mikilvæg grunnþjónusta vanrækt, mötuneyti skólanna og leikskólanna kalla lítinn bananabita banana og fjölmennar sendinefndir á vegum borgarinnar láti sér almenn farþegarými duga þegar þær fara í kokteila erlendis.

Greiðslukortið virkar ennþá og unglingurinn sáttur.


mbl.is „Vildum ekki fara í flatan niðurskurð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Vandmálið hjá Reykjavíkurborg eru ekki almennir starfsmenn
heldur lélegir stjórnendur og stjórnmálelítan með gífurlegan fjölda gæluverkefna
sem lýsir sér meðal annars í hundruð "stefna" sem allar þurfa fjármagn.

Vanhæfir stjórnendur fara svo í "sparnaðar" aðgerðir með að reka starfsfólk 
en í staðinn er farið í útboð eða keypt rándýr verktakavinna 
sem ráða þarf svo "sérfræðinga" til að fylgjast með og samþykkja reiknainga sem oftar en ekki eru margfalt hærri en það sem borgað var í laun fyrir upphaflega starfsmanninn sem sinnti þessu starfi samviskulega

Grímur Kjartansson, 3.12.2022 kl. 12:08

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Grímur,

Sammála að það er ekki við starfsfólkið að sakast. Ég þekki eina góðu konu sem er á fullu að vinna að þessu stafræna verkefni þar sem borgin stofnar eitt stærsta hugbúnaðarhús landsins. Vinnur að þessu af samviskusemi og elju. 

En sumt starfsfólk hlýtur að vita að það er efst á listanum þegar borgin fær raunverulegan framkvæmdastjóra í stól borgarstjóra. Það getur ekki verið þægilegt. 

Geir Ágústsson, 3.12.2022 kl. 12:30

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ríkið er eins og  krabbamein.
Lífvera með svona mikið krabbamein væri dauð.

Ásgrímur Hartmannsson, 3.12.2022 kl. 13:48

4 Smámynd: Grímur Kjartansson

Það má líka benda á að þrátt fyrir gífulegan fjölda af stefnum um allt og ekkert þá er engin sameiginleg gæðastefna til fyrir Reykjavíkurborg
og ekkert miðlægt kerfi fyrir gæðaskjöl þar sem  útgáfu er stýrt

Stefnum er bara hent út á vefinn, óundirritaðar og ódagsettar
ef það síðan passar einhverjum þá er það mikilvægast í heimi að fara eftir stefnunni

Grímur Kjartansson, 3.12.2022 kl. 14:30

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Grímur,

Stefnur eru yndislegar. Þær eru eins og mikil löggjöf og margar reglugerðir - einhvers staðar þarna er hægt að finna eitthvað á alla. Handahófskenndar stefnur jafnvel enn betri til slíks en það sem þarf að standast lýðræðislegt fyrirkomuleg (hvað sem það nú er, mætti spyrja sig). Er að lesa yndislega ritgerð um það, en geri það að færslu seinna.

Geir Ágústsson, 3.12.2022 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband