Mánudagur, 21. nóvember 2022
Rafeldsneyti þarf rafmagn
Mikið er rætt um orkuskipti í Evrópu og Bandaríkjunum (flestir aðrir heimshlutar eru einfaldlega að tala um að fá einhverja orku - t.d. að skipta úr engri orku í einhverja orku eða lítilli orku í meiri orku). Gott og vel, möguleikarnir eru til staðar. Tæknilega er hægt að búa til eldsneyti fyrir bíla, flugvélar og orkuver án jarðefnaeldsneytis eða kjarnorku. Vetni má framleiða með rafgreiningu vatns og binda við koltvísýring eða köfnunarefni og búa til metanól eða ammoníak eða eitthvað annað.
En til þess að framleiða rafeldsneyti þarf rafmagn og menn vanmeta held ég hversu mikið rafmagn ef menn ætla í raun og veru að losna við jarðefnaeldsneytið.
Landsvirkjun, Samorka, Efla og Samtök iðnaðarins gerðu nokkuð um daginn sem mér fannst mjög upplýsandi: Þessir aðilar tóku saman orkuna sem jarðefnaeldsneytið sér Íslendingum fyrir í dag og settu í samhengi við þá orku sem íslensk orkuver framleiða. Niðurstaðan var sú að til að leysa af olíuna þurfi að virkja nokkurn veginn jafnmikið og búið er að virkja í dag. Það þarf með öðrum orðum alveg rosalega mikið rafmagn til að búa til nóg rafeldsneyti til að leysa olíuna af (nema það takist að flæma álverin úr landi, og allan afleiddan iðnað tengdum þeim).
Þetta samhengi er sjaldnast veitt, a.m.k. í evrópskri umræðu. Menn tala um að setja upp svo og svo mikið af vindmyllum - gígavatt hér og gígavatt þar - og tölurnar eru stórar og áætlanirnar kostnaðarsamar. En sjaldan er boðið upp á neitt samhengi - t.d. nefna að gangi allar framkvæmdir eftir þá megi minnka olíunotkun um svo og svo mörg prósent eða hvaðeina. Ástæðan er einfaldlega sú að meira að segja ævintýralegustu áætlanir um vindmyllur og sólarorku rispa varla yfirborðið á orkuþörfinni sem jarðefnaeldsneytið sér okkur fyrir í dag, og það er vandræðalegt að réttlæta svimandi fjárfestingar þegar heildarmyndin er nánast óbreytt.
Orkuskiptin fara fram í sífellu. Í Indlandi reisa menn kolaorkuver til að framleiða rafmagn þar sem áður voru greinar og sprek á báli. Í Afríku er víða engin orka og engin lausn í sjónmáli. Í Brasilíu eru menn að byggja upp inniviði fyrir vaxandi gasnotkun. Í Kína er orkuþörfin nánast óseðjandi og þegar Rússar hafa byggt nýtt gasrör til þeirra árið 2030 þá fá þeir allt það gas sem Evrópumenn fá í dag, og meira til.
En það er allt í lagi að huga að valkostum við olíu og gas. Rafeldsneyti svarar til þess að rekast á olíu- eða gaslind í bakgarði sínum og gerast óháður flóknum aðfangakeðjum og óvissuþáttum. Fé hættir að streyma í sama mæli til spilltra prinsa. Losun allskyns agna í andrúmsloftið, svo sem úr Dísil-vélum, minnkar. En raunsæi er engin synd, og samhengi alltaf vel þegið.
Vilja selja og dreifa rafeldsneyti á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:45 | Facebook
Athugasemdir
Allt þetta tal um orkuskifti á heima í einhverjum fantasíuheimi þar sem hlutir eru bara galdraðir fram eins og í enhverjum tölvuleik, úr peningum einum saman.
Það er engin eðlisfræði á bakvið neitt af þessu deleríi, ekki sem ég hef skynjað.
En... þetta gengur í fólk. Svo er þrautinþyngri að útskýra fyrir öllum hvers vegna allt verður sífellt dýrara.
Fólk, ekki skynugar skepnur.
Ásgrímur Hartmannsson, 21.11.2022 kl. 17:56
Ásgrímur,
Menn hafa búið til metanól og ammóníak og rafgreint vetni í áratugi. Ammoníakframleiðsla er ferli sem fer fram í háum hita og undir háum þrýstingi þar sem vetni og köfnunarefni er splæst saman (synthesis). Svo það er ekkert nýtt undir sólinni hérna.
Það sem er nýtt er að ef menn ætla að búa til ammoníak og metanól úr "grænum" orkugjöfum þá hækkar þetta mikið í verði miðað við iðnaðarferlana sem eru notaðir í dag. Ódýrt rafmagn er því algjört lykilatriði. En þá þarf að framleiða það.
Geir Ágústsson, 21.11.2022 kl. 20:19
Við gætum byrjað á að koma Elliðaárvirkjuninni í gang ekki seinna en strax! (Bara að laga inntaksrörið, hífa upp lokurnar á stíflu og byrja að framleiða rafmagn á ný!
Þeir sem stoppuðu þessa fyrstu hagkvæmu virkjun og streitast á móti því að koma henni í gang aftur sem snarast, eru klárlega afar óþjóðhollt fólk, sem stendur á móti mikilvægum framförum og sjálfsögðum grænum orkuskiptum.
Það er svo miklu skemmtilegra að kaupa meiri olíu en að nota þá orku sem er tiltæk núna.
Kolbeinn Pálsson, 21.11.2022 kl. 21:25
Ég veit nú ekki betur en að ammóníak hafi áratugum saman verið framleitt úr köfnunarefni og vetni í áburðarverksmiðjunni í Gufunesi.
Nú er fullyrt að með nýrri tækni sé hægt að framleiða vetni með rafgreiningu, með 98% nýtni. En vandinn er að geyma vetnið.
Nú er verið að prófa aðferð sem byggist á því að binda vetni við magnesíum málm, þá myndast magnesíumhydrið (MgH2) sem mun vera e.k. deig eða "krem". Sé vatni blandað við deigið myndast aftur vetni. Það má geyma í hylkjum eða túpum eins og tannkrem. En þessi aðferð mun enn þá vera á tilraunastigi.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 21.11.2022 kl. 23:39
Hörður,
Framleiðendur rafgreina eru með alveg hreint ævintýralegar yfirlýsingar þessa dagana.
Geymsla á vetni er vandamál já. Sumir vilja meina að vetnið megi geyma í holrýmum eða vatnslindum neðanjarðar, alveg eins og jarðgasið í dag. Það má geyma í rörunum. Það má þjappa í tanka, jafnvel á hafsbotni.
Sumir vilja ekki geyma vetni heldur binda vetnið við aðrar sameindir og búa til eitthvað fljótandi. Mér skilst að það sé áætlunin í græna orkugarðinum á Austfjörðum.
En sjáum hvað setur. Ekki vantar milljarðana í rannsóknarfé, velvilja stjórnmálamanna og þátttöku stórra fyrirtækja með mikinn fjölda sérfræðinga á sínum snærum. Það sem vantar kannski helst er markaðinn!
Geir Ágústsson, 22.11.2022 kl. 10:48
"Nýtt um vetnispasta". Ég mæli með "Breaking Lab", fróðlegir og áreiðanlegir pistlar um tækni og vísindi. Hægt er að ná í þýskan eða tölvuþýddan texta. Update zur Wasserstoffpaste - Revolution in der Wasserstoffspeicherung
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 22.11.2022 kl. 15:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.