Mánudagur, 7. nóvember 2022
Helstu afrekin í loftslagsbaráttunni
Ríkir hlutar mannkyns berjast nú eins og óðir gegn hamfarahlýnun, losun á koltvísýringi í andrúmsloftið og orkuskiptum frá olíu og gasi yfir í vind og sól.
Margt hefur unnist í þeirri baráttu. Tökum nokkur af helstu afrekunum:
Framleiðsla og flutningsleiðir:
Mikið af framleiðslu á því sem Vesturlönd þurfa á að halda hefur verið flæmd með svimandi sköttum og stífum reglum til fjarlægra heimshorna þar sem kostar ekkert að menga og losa (ég greini á milli þessa tvenns). Þeirri framleiðslu þarf svo að sigla yfir hálfan hnöttinn. Það hefur því tekist að auka töluvert losun á koltvísýringi með því að knýja hana með kolum og sigla síðan á olíu yfir langar vegalengdir.
Vel gert!
Orka og verð:
Mikill þrýstingur hefur verið undanfarin ár á að draga úr fjárfestingum í olíu og gasi á meðan eftirspurn eftir þessu tvennu heldur áfram að vaxa, ár frá ári. Vindmyllur og sólarorkuver eru engan veginn nálægt því að brúa bilið sem þarna hefur myndast á milli framboðs og eftirspurnar og minnstu raskanir senda verðlag í himinhæðir. Það hefur því tekist að auka orkuóöryggi og orkuverð og rýra orkuöflun og menn skipta óðum úr gasi og olíu yfir í kol og timbur.
Vel gert!
Færsla á fé til ríkra prinsa:
Í Evrópu væri hægt að auka til muna framleiðslu á olíu og gasi. Bæði má sækja gas með svokölluðu bergbroti ("fracking") en einnig opna hefðbundnari olíu- og gaslindir sem standa óhreyfðar í dag. En þetta gerir Evrópa auðvitað ekki. Nú þegar rússneska gasið er að þorna upp er nauðsynlegt að senda sendinefndir til Miðausturlanda og með betlistafinn í hendi lofa að kaupa meira frá spilltum prinsum sem þar búa. Þetta, samhliða hækkandi verði vegna skorts á framboði vegna þrýstings á að sækja ekki meira af olíu og gasi, er því að leiða til færslu á fé úr vösum almennings og í vasa spilltra prinsa.
Vel gert!
Eggin flutt í kínverska körfu:
Mörg auðug ríki hafa skuldbundið sig til að stórauka notkun sína á vind- og sólarorku. Þetta krefst hráefna sem að miklu leyti eru grafin úr jörðu í Kína. Kína framleiðir líka mikið af dótinu sem skattkerfi Vesturlanda hafa flæmt frá Vesturlöndum. Við flytjum sífellt fleiri af eggjunum okkar í kínverska körfu og gerum okkur gjörsamlega háð Kínverjum. Það er því lítið hægt að segja þegar Kínverjar stúta minnihlutahópum eða kæfa opinbera umræðu. Kínversk stjórnvöld eru með öll trompin.
Vel gert!
Ég gæti eflaust talið upp fleiri afrek en kannski ég bíði með það í nokkra daga á meðan fína fólkið á sólarströndinni í Egyptalandi í boði skattgreiðenda mótar nýjar leiðir til að gera okkur fátækari.
Á hraðri leið til loftslagshelvítis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég vona að einhver taki sig til og telji allar einkaþoturnar sem eru í Eygptalandi vegna COP27
Næsta vor ætla ég að telja hversu margar þær verða á Reykjavíkurflugvelli þegar Evrópuráðið heldur hér fund
Grímur Kjartansson, 7.11.2022 kl. 17:51
Sæll Geir,
Ég sé að þú ert búinn að átta þig á því að stjórnvöld eru langstærsta samsæri sem er í gangi gegn almenningi út um allt. Opinberi geirinn blómstrar á meðan hinn almenni borgari verður minni og minni. Sparifé landsmanna er gert upptækt og látið líta út fyrir að þetta sé lífeyrissjóður sem gagnist þér þegar þú ert orðinn gamall. Samtryggingarsjóður sem hverfur þegar þú deyrð er skattur ekki lífeyrissjóðurl. Almenningur er algjörlega háður ákvörðunum yfirvalda sem seilast alltaf lengra og lengra. En ég átti satt best að segja von á dauða mínum frekar en að verða vitni að því að yfirvöld eitruðu fyrir okkur almenningi.
Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 7.11.2022 kl. 18:01
Grímur,
Á svipuðu grímuballi í Skotlandi í fyrra taldist einhverjum að 118 einkaflugvélar hefðu ferjað gesti á svæðið:
https://www.forbes.com/sites/oliverwilliams1/2021/11/05/118-private-jets-take-leaders-to-cop26-climate-summit-burning-over-1000-tons-of-co2/?sh=1ca4aba853d9
Nú þegar áfangastaðurinn er eftirsótt baðströnd í þægilegu loftslagi þá mun flugvélunum eflaust fjölga, og þar sem flestir þurfa að ferðast lengra þá mun eldsneytisnotkunin einnig enda á að verða mun meiri.
Skotland: 118 flugvélgar og 1000 tonn af CO2
Egyptaland (spá): 200 flugvélar og 2000 tonn af CO2
(blaðamaður segir ranglega að flugvélarnar séu að "brenna" CO2, sem er auðvitað ekki hægt, en ég skil punktinn)
Geir Ágústsson, 7.11.2022 kl. 18:08
Góður og þarfur. Takk.
Haukur Árnason, 8.11.2022 kl. 00:03
Af hverju þarf þetta lið alltaf að hittast á risa-samkomu út í heim? Ef þeir væru samkvæmir sjálfum sér þá myndu þeir ekki vilja fljúga á áfangastað (mikil mengun) - heldur hittast á varpaðri net-ráðstefnu. Enn það væri ekki sexí. Að komast ekki í fría ferð á framandi slóðir og fá ekki að hittast í költ andrúmslofti þar sem allir tilbiðja loftslags-guðinn (var það ekki Zeus í grísku goðafræðinni?), og eflaust upplifa þáttakendur hversu "sérstök" þau eru, að vera handhafar sannleikans sem geta svo farið heim og frætt minnimáttana sem ekki vita betur.
Já, smáeyjan í norðri, Ísland sendir aftur 50 manns á kostnað skattgreiðenda til þess þykjast vera að bjarga heiminum. Aumkunarvert.
Bragi Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.11.2022 kl. 18:01
Ég skrifaði athugasemd við þessu á frettin.is því að þar koma margar færslur um að loftslagsmál eru ekki raunveruleg og ég vildi svara þeim málsflutningi (sem ég tel að sé ekki rétt áhersla, raunveruleiki loftslagsbreytinga skiptir minna máli en trúverðugleiki vísinda almennt og hvatakerfi sem kerfisbundið framleiða á mengun, eitthvað sem hefur verið margoft sannað).
Athugasemdirnar hér eru á annarri línu þannig ég þarf ekki að endurtaka þá athugasemd. Hinsvegar vil ég benda ykkur á uppreisn.is sem er það sem ég er að gera og hefur verið haldið leyndu af hinum ýmsu fréttaveitum á Íslandi.
Það er hægt að samræma hagsmuni og leysa hin ýmsu mál, við þurfum bara vera heiðarleg í nálgun og hætta að treysta miðstýringu sem stjórnarfyrirkomulagi.
ilmu (IP-tala skráð) 9.11.2022 kl. 15:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.