Sunnudagur, 6. nóvember 2022
Traustið og hvar á að setja það
Sá lifir sem lærir. Eða, svona yfirleitt.
Maður fer í banka og spyr um fasteignamarkaðinn, fær himinhátt greiðslumat og er sendur út í fasteignabólu sem springur nokkrum mánuðum seinna. Sá maður lærir að skoða slíka hluti upp á nýtt.
Foreldri lætur sprauta barn sitt með efni sem endar á að gefa barninu einhverfu eða drepur það jafnvel. Sú manneskja á öðruvísi samtöl við heimilislækni sinn í framhaldinu. Og vonandi allt hennar tengsla- og félagsnet.
Manneskja finnur fyrir óþægindum og einhverju óvenjulegu og lætur skoða sig af lækni. Ekkert finnst og allt skrifað á álag og hreyfingu (eða skorti á henni). Einkennin versna. Manneskjan leitar þá til grasalæknis eða jafnvel einhvers á jútjúb og finnur aðferðir sem duga. Kannski hljóðbylgjunudd eða rauðljósameðferð. Einkennin hverfa. Þessi manneskja er sömuleiðis að fara túlka orð heimilislæknis síns öðruvísi framvegis.
Hverjum á að treysta? Fyrir heilsunni? Fyrir peningunum? Fyrir ráðgjöf um mataræði? Fyrir velferð barnanna?
Engum? Sérfræðingunum? Vinum sínum? Einhverjum með álhatt á samfélagsmiðlum?
Ekkert eitt svar á við um allt fyrir alla. Möguleikar okkar til að vantreysta hafa aldrei verið meiri. Framboð mótsagnakenndra skoðana hefur aldrei verið meira en upplýsingaflæðið sömuleiðis.
Það tæki mann mannsævi að lesa hagfræðikenningar, skoða gagnasöfn, kynna sér starfsemi seðlabanka og lesa í vísbendingar um framtíðina til að vita með sæmilegri vissu hvort fasteignakaup séu hættulegt veðmál eða skynsöm fjárfesting, og meira að segja þá er engin vissa í neinu (mögulega minni óvissa samt). Enginn myndi kaupa fasteign ef allir legðu í slíka vinnu. Stundum þarf bara að stökkva á ákvörðun, og til vara að hafa eitthvað svigrúm ef þjónustufulltrúi bankans fór með fleipur.
Venjuleg manneskja á heldur enga raunhæfa möguleika á að túlka, greina og skilja lyfjaiðnaðinn þegar hann sendir her sinn af stað til að segja okkur hvað læknar okkur eða fyrirbyggir sjúkdóma. Hvað grípa margir n=8 í fyrirlestraglærum lyfjafyrirtækis og skilja að úrtak fyrir prófanir á næstu sprautu - fyrir þig - eru átta mýs? Eða hvernig hitt og þetta efni í næstu pillu hefur verið prófað og hversu lengi og á hverjum og hvað það kemur þér við? Stundum þarf bara að velja og hafna byggt á tilfinningu og takmarkaðri vitneskju, og reyna eins og hægt er að vega kosti lyfs eða sóttvarnaúrræða á móti áhættu af veikindum. Svona eins og við féllumst flest á það vorið 2020 að hanga heima í nokkrar vikur á meðan ný veira var kortlögð (og sumir hættu að hanga heima eftir það, enda var þá búið að kortleggja veiruna nægilega vel til að taka upp eðlilegt líf á ný).
Ég hef engin góð svör. Ég treysti sumum fyrir sumu og öðrum fyrir öðru en einhvern veginn þarf maður að færast áfram í lífinu og láta ekki allar litlar efasemdir halda aftur af sér. Að hafna kóvít-sprautunum var tiltölulega auðveld ákvörðun þótt ég hafi þurfti að dansa nokkra dansa oftar en aðrir til að fá að sinna vinnu og taka þátt í samfélaginu. En hvað með barnasprautur fyrir börn mín? Þar slaka ég aðeins á varfærninni þótt sú varfærni hafi vissulega vaxið margfalt eftir veiruárin, samhliða auknu vantrausti á fjölmiðlum og sóttvarnaryfirvöldum, innlendum sem og erlendum.
En aðalatriðið hlýtur að vera mátuleg tortryggni, alltaf. Ef ákveðinn boðskapur heyrist aðeins of oft úr aðeins of mörgum áttum þá má gera ráð fyrir að menn séu að lesa sama handritið, og um leið má spyrja sig hver skrifaði það. Stundum er þögnin um eitthvað stórt mál ærandi og gefur tilefni til að staldra við.
Mátuleg tortryggni. Ekki algjör. Ekki engin. Mátuleg. Mátulega mikil til að láta ekki eitra fyrir sér (t.d. með sprautu), en mátulega lítil til að maður haldi samt áfram að lifa og starfa í samfélagi manna, kaupa sér fasteign og setja ofan í sig matvæli stórmarkaðanna.
Ég held að því miður sé þetta samt ekki útbreitt viðhorf. Margir segjast treysta ákveðnum aðilum vegna titils þeirra eða fornrar frægðar, eða af því þeir fengu fálkaorðu. Annað sé að vera samsæriskenningasmiður, orð sem fer að hljóma sífellt meira eins og hrós. Fólk kveikir á fréttatímunum og telur að þeir séu góð leið til að setja sig inn í mál dagsins og að útvaldir viðmælendur fréttamanna með sinn einhliða boðskap séu að vega og meta og segja frá á sanngjarnan hátt.
Hverjum er hægt að treysta? Þeim sem þú vilt. Af hverju treystir þú þeim sem þú treystir? Því þú valdir það. Hvernig valdir þú þá sem þú treystir? Það er undir þér komið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:29 | Facebook
Athugasemdir
Ef það á að neyða þig til einhvers, þvinga,hóta,refsa,skylda og jafnvel verðlauna þá held ég að það sé hægt að ganga út frá sem vísu að þetta er ekki í þína þágu. Sprautuherferðin var eins óeðlileg eins og hægt er að ímynda sér. Notum rökin. Það var algjörlega ljóst í lok árs 2020 rétt áður en byrjað var að sprauta að vírusinn væri ekki hættulegur venjulegu fólki, hvers vegna að láta þá sprauta sig með hráu tilraunaefni sem hafði drepið öll dýr sem voru prófuð? Það fjölgar á miklum hraða skyndilegum dauðsföllum, krabbameinum og allskyns sjúkdómum síðan byrjað var að sprauta. Þetta lá ljóst fyrir í upphafi að myndi gerast. Er bara hægt að kæfa þetta niður og láta eins og þetta sé að koma fagfólkinu á óvart.
Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 7.11.2022 kl. 12:39
Kristinn,
Því miður þurfti hvorki að þvinga né lokka Íslendinga í sprautuhallirnar. Þeir mættu bara þegar þeim var sagt að gera það. Enda Íslendingar mikið fyrir allskyns "æði" og taka tískusveiflur alla leið, ef svo má segja.
En tek annars undir að það á ekki að láta sprautuliðið komast upp með það sem þeir kalla "pandemic amnesty", að láta bara eins og engir glæpir hafi verið framkvæmdir og er jafnvel ennþá verið að framkvæma.
Geir Ágústsson, 7.11.2022 kl. 13:47
Þetta er lykilvandamál nútímans. Sjá https://sr.ht/~ilmu/tala.saman/ fyrir hugmynd um hvernig við byggjum efnahagskerfi heimsins á trausti. Matskerfið virkar þannig að trúverðugar upplýsingar bæta öryggi hópsins og þessvegna verðlaunum við þá sem leggja þær til. Þetta er ekki einfalt eða fullkomið en þetta er hægt (virðist vera) og borðliggjandi betrumbæting á stjórnarfyrirkomulagi.
Ég hef reynt að koma orðum að þessu á Íslensku þannig að venjulegt fólk geti áttað sig nokkurnveginn á því hvernig þetta mun virka, getur séð það á uppreisn.is.
ilmu (IP-tala skráð) 9.11.2022 kl. 15:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.