Þriðjudagur, 26. júlí 2022
Gæs sem engu verpir drepin áður en hún klekst út
Í svolítilli blaðagrein eftir íslenskan vinstrimann segir:
Samfylkingin telur miklu skipta að vindorkukostirnir tveir í nýtingarflokki séu á hendi Landsvirkjunar vegna þess að fyrirtækið er í ríkiseigu og greiðir arð af starfsemi sinni í ríkissjóð. Það er lykilatriði í þessu tilliti að fólkið í landinu njóti ávaxtanna af slíkri orkuvinnslu og því eðlilegt að fyrirtæki í ríkiseigu fari fremst í virkjun vindorku. Einnig liggur fyrir að samspil vatnsafls og vinds getur gert raforkuframleiðslu hagkvæmari og bætt afhendingaröryggi.
Samkvæmt hugmyndunum í 4. áfanga rammaáætlunar bíða einkaaðilar í röðum eftir því að geta virkjað íslenska rokið. Við það er í sjálfu sér ekkert að athuga en staðan setur stjórnmálunum skýrt og afar mikilvægt verkefni; að marka lagaumgjörð um orkuöflun einkaaðila með þeim hætti að auðlindarentan renni í sameiginlega sjóði en ekki í prívatvasa. Þetta er forgangsmál sem jafnaðarmannaflokkur Íslands mun beita sér fyrir á Alþingi í vetur.
Þarna kemur ýmislegt áhugavert fram.
Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að framleiðsla rafmagns með vindorku geti orðið hagkvæm á íslensku landi. Raforkuverð er nú þegar lágt á Íslandi miðað við flest svæði Evrópu og raforkan þarf því að keppa við mun ódýrari keppinauta en t.d. danska raforkan. Að auki þarf ákveðna stærðarhagkvæmni ofan á hátt orkuverðið til að vindorkan sé arðbær.
Í öðru lagi er hér talað fyrir því að Landsvirkjun ein fái leyfi til að reisa vindmyllur. Ef sú forsenda að vindorkan sé arðbær á Íslandi reynist röng er í raun verið að biðja skattgreiðendur um að fjármagna eitthvað grænt ævintýri sem engu skilar nema skuldum og raski. Væri ekki nær að leyfa einkaaðilum að spreyta sig fyrst, og nota til þess eigið fé, en að ota skattgreiðendum fyrstum á völlinn?
Í þriðja lagi bætir vindorka ekki afhendingaöryggi. Vatnsaflið bætir upp fyrir lélegt afhendingaröryggi vindorkunnar. Vatnsaflið hleypur undir bagga þegar vindurinn svíkur. Norska vatnsaflið gerir það fyrir dönsku vindorkuna, svo dæmi sé tekið.
Í fjórða lagi er furðulegt að sjá tal um vindmyllurekstur á Íslandi þegar hápennalínurnar hafa í mörg ár verið talin hið versta lýti sem eigi helst að grafa í jörðu, með ærnum flækjustigum og tilkostnaði. Hefur einhver séð vindorkugarð á landi sem svona talar? Nú fyrir utan að vindmyllur klippa vængi og höfuð af stórum fuglum og skilja þá stundum limlesta og lifandi eftir til að deyja úr hungri og kvölum, en það er önnur saga.
Í fimmta lagi er tungutak pistlahöfundar þess eðlis að ef einhverjum tekst að kreista eitthvað fé úr grjóti þá eigi ríkisvaldið á einhvern hátt tilkall til þess ávinnings. En sé viðkomandi að tapa fé á einhverju brasi með náttúru og dýr þá megi viðkomandi éta tapið og jafnvel þiggja niðurgreiðslu úr vösum skattgreiðenda. Þannig greiðir íslensk útgerð mikið fé í ríkissjóð, enda orðin arðbær, en íslenskur landbúnaður er styrkþegi, enda múlbundinn í kerfi sem heldur honum vesælum og fátækum. Allt tal um auðlindarentu ætti auðvitað að gilda jafnt um alla - að þessi aukaskattlagning leggist á bæði bændur og veiðimenn, eða hvoruga. En kannski er hér markmiðið að fæla alla fjárfesta frá tilraunum með vindorku á Íslandi því ef þær takast vel er viðbúið að ofurskattheimta bíði handan við hornið. En að öðrum kosti má kannski búast við styrkjum.
Auðvitað á að hugleiða allar tegundir orkuframleiðslu enda er orkuframleiðsla jákvæð því hún gagnast mannkyninu og bætir lífskjör. En stundum sést um leið að menn eru ekki að hugsa um almenning heldur atkvæðin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:46 | Facebook
Athugasemdir
Vindmillur eru orkunotendur allstaðar þar sem þær eru, og virka bara vegna þess að þær eru niðurgreiddar af ríkinu.
Þannig er það allstaðar. Þannig verður það hér.
Ásgrímur Hartmannsson, 26.7.2022 kl. 19:12
Það er oft skondið og mis gáfulegt sem kemur frá pólitíkusum í minnihluta. Og þeir eru einstaklega liðugir að koma með útskýringar og undanskot þegar þeir komast til valda og gera hið þveröfuga. Sjálfur kýs ég að horfa á þetta sem ábyrgðarlausar pælingar valdalauss þingmanns, uppi í sófa á þriðja glasi, heldur en eitthvað sem smá hugsun hefur verið sett í og mark er á takandi.
Vagn (IP-tala skráð) 26.7.2022 kl. 21:22
"Sjálfur kýs ég að horfa á þetta sem ábyrgðarlausar pælingar valdalauss þingmanns, uppi í sófa á þriðja glasi"
Vagn, ég er ekki svo viss um að það hafi farið svona djúp pæling í þetta hjá þingmanninum, þetta hljómar frekar eins og viðkomandi sé að páfagauka eitthvað af blaði sem honum var rétt eða tvíti.
Ómar, ég hef séð bæði sólar og vind orku býli á mínum ferðum um heiminn, þetta tekur rosalegt pláss og skilur eftir sig mjög mikið af rusli þá sérstaklega vindmyllurnar ásamt því að vera rosalega ljót mannvirki.
En þetta er alveg ótrúlegt, að tala um orkuöryggi og hagkvæmni þegar talað er um vind- og sólarorku, þetta eru óöruggustu og langdýrustu orkugjafarnir sem eru í boði þarna úti með núverandi tækni. Mig grunar að það bíði einhverjir vildarvinir eftir því að geta fengið að smíða ferlegheitin.
Halldór (IP-tala skráð) 26.7.2022 kl. 21:52
Ásgrímur,
Niðurgreiddar já, ýmist með beinum styrkjum eða óbeint með því að ofurskattleggja samkeppnina (t.d. með svokölluðu kolefnisgjaldi) að þær "virðast" vera hagkvæmar. Annars geta vissulega verið staðbundnar aðstæður þar sem sókn í orku beint úr vindi eða sól er rökrétt, t.d. einangruð og sólrík svæði sem búa við lélegar tengingar við stærri dreifikerfi.
Vagn,
Ég veit ekki með áfengisdrykkju þingmanns en tek að öðru leyti fullkomlega undir þessa athugasemd.
Halldór,
Eðli málsins samkvæmt já, en menn ætla sér að brúa bilið með annarri dýrri tækni, t.d. rafgreinum, sem breyta rafmagninu í t.d. vetni sem má geyma. Þetta er allt á frumstigi, vægast sagt, en gæti verið möguleiki, t.d. ef menn vilja ekki senda peninga til Miðausturlanda en búa um leið að miklum vindi eða sól. Ein lausn passar ekki fyrir alla, og niðurgreiðslur hjálpa okkur ekki að finna hvað passar fyrir hvern.
Geir Ágústsson, 26.7.2022 kl. 22:10
Sæll Geir.
Samkvæmt fyrirsögn þessa pistils þá getur umrædd gæs tæpast verið til;
líffræðilegur ómöguleiki.
Húsari. (IP-tala skráð) 27.7.2022 kl. 03:28
Húsari,
Ætli arðbær vindorkuframleiðsla á Íslandi sé ekki líka það.
Geir Ágústsson, 27.7.2022 kl. 09:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.