Þriðjudagur, 3. maí 2022
En hver á að leggja vegina?
Fræg spurning til frjálshyggjumanna þegar þeir leggja til að afnema ríkisafskipti og -rekstur af og á hinu og þessu er:
En hver á að leggja vegina?
Því ef ríkið gerir það ekki þá gerir það enginn, er það nokkuð?
Segjum það, og höldum áfram að spyrja:
En hver á að sinna landhelgisgæslunni?
Jú, Landhelgisgæslan auðvitað! Hún rekur skip og þyrlur og passar að enginn bíræfinn Rússi eða Spánverju steli íslenskum fiskum.
Standi hún einhvern Færeying eða Norðmann að verki getur hún beint fallbyssu að skipi viðkomandi. Hótað valdi. Beitt styrk. Fælt frá. Mætt ögrun með ógn. Einskonar lögregla hafsins með sína lögreglukylfu og handjárn.
Á siglingum sínum um landhelgina getur hún fylgst með miðunum og tilkynnt brot á landhelgi. Varið ykkur, sjóræningjar!
Bara tveir gallar:
- Engin fallbyssa
- Ekkert eldsneyti
En þetta fer örugglega einhvern veginn.
Ekki sér fyrir endann á fallbyssuleysi Freyju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:59 | Facebook
Athugasemdir
Frjálshyggjumaðurinn myndi segja: ríkisvaldið sér um að skipuleggja vegakerfið, en lætur undirstofnun sína, Vegagerðina bjóða út verk til verktaka eins og gert er í dag! Það varð raunin þegar Vegagerðin vann verkin of dýrt áður fyrr.
Varðandi Landhelgisgæsluna, og lögregluna ef út í það er farið, þá er hægt að bjóða það út. Minni á að lögreglan og löggælsan áður fyrr var í höndum sveitarfélaga. Lögreglan í höndum ríkissins er svo illa rekin og sinnir ekki hlutverki sínu nógu vel, að fyrirtækjaeigendur kaupa þjónustu öryggisfyrirtækja eins og Securitas. Landhelgisgæslan þurfti á sínum tíma að gerast verktaki og taka að sér landamæragæslu Evrópusambandsins, svo aðþrengd var hún. Nú sitja bæði varðskipin við hafnarbakka, því ekki er hægt að kaupa olíu.....
Birgir Loftsson, 4.5.2022 kl. 08:28
Birgir,
Ég þekki aðeins til starfsemi Vegagerðarinnar og sé ekki hvernig hún er að tryggja hagkvæma uppbyggingu og viðhald vegakerfisins. Hún setur allskyns kröfur til dæmis sem leiða til nýstárlegra malbiksuppskrifta. Sumar þeirra þýða spegilslétt og banvænt malbik. Sumar þýða malbik með lýsisbragði sem laðar að sér máva og önnur dýr.
Yfirvöld standa svo í vegi fyrir nauðsynlegum samgöngubótum eða láta þær sofna í skúffu og æða svo út í margmilljarðakróna undirgöng sem örfáir kjósendur eins þingmanns vilja fyrir örfáa daga á ári.
En ótrúlegt en satt sennilega mikil framför frá fyrri tímum, eins og þú rekur.
Má ekki hringja í Eimskip og biðja þá um að taka við rekstri varðskipanna gegn þjónustusamningi?
Geir Ágústsson, 4.5.2022 kl. 10:18
Þegar ég var á varðskipi hér forðum, var mér sagt að það væri hættulegra að standa fyrir aftan fallbyssuna en fyrir framan, svo það er kannski hið besta mál að sleppa fallbyssunni.
Þessar byssur voru að vísu frá 1800 og eitthvað og hvert skot sérsmíðað. Það var hægt að kaupa glænýja fallbyssu fyrir andvirði 10 skota. En þetta er jú ríkið. Mottóið þar er: É áidda og é máidda."
Jón Steinar Ragnarsson, 6.5.2022 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.