Stóra uppstokkunin

Ein af mörgum neikvæðum afleiðingum yfirgengilegra sóttvarnaraðgerða er stórkostleg uppstokkun á auði. Efnað fólk sem getur unnið að heiman í gegnum tölvu hefur varla séð nein áhrif á efnahag sinn og er jafnvel búið að safna í stóra sjóði á meðan ekki er hægt að flakka um heiminn að vild og eyða fé í skíðalyftupassa í Ölpunum og margarítur á spænskri strönd. 

Á hinum endanum er fólk sem vinnur með höndunum, ef svo má að orði komast: Fólk í ferðaþjónustu, veitingageira, við ræstingar og þjónustu almennt. Þegar því er sagt að fara heim þá fer það heim með skertar tekjur - jafnvel mjög skertar tekjur. Reikningarnir koma engu að síður. Margir hafa og eru að lenda á götunni. Ungt fólk fær ekki tækifæri og missir vonina. Innflytjendur eru látnir fjúka. 

Nú þegar samfélög fara að opnast aftur (vegna bóluefna, árstíðabreytinga og hvaðeina) þá munu efstu lögin - heimavinnandi miðstéttin og efnaða fólkið - fljótlega taka upp fyrri siði. En á botninum er fólk sem nær ekki að spyrna sér úr skuldafeninu.

Ekki bætir úr skák að ýmsar björgunaraðgerðir yfirvalda eru að gagnast þeim sem höfðu mest á milli handanna til að byrja með. Á heimsvísu eru milljarðamæringar að verða ríkari en þeir fátækari - og fátækustu - að verða fátækari.

Þetta eru menn að kalla "K-laga efnahagsbata" og má lesa nánar um hér, meðal annars þetta:

Economic performance of different sectors, industries, and groups within an economy always differ to some extent, but in a K-shaped recovery some parts of the economy may see strong growth while others continue to decline.

Þetta útskýrir auðvitað mismunandi viðhorf mismunandi þjóðfélagshópa við lokunum vegna veiru. Fólk sem er búið að missa lífsviðurværið og jafnvel aleiguna vill eðlilega frekar fá veiru en vera svangt, einmana og húsnæðislaust. Heimavinnandi fólkið telur sig vera að gera öllum góðverk með því að vinna að heiman og panta mat á netinu. En raunveruleikinn blasir mismunandi við okkur og fer eftir því hvar við erum stödd í lífinu og hvernig framtíðin virðist ætla að þróast.

Það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart, en gerir það samt. Eða eins og einn ágætur prófessor skrifaði nýlega (feitletrun mín):

Við búum svo vel að eiga heima á strjál­býl­asta landi Evr­ópu og að vera eyja lengst norður í hafi. Við erum líka vel upp­lýst þjóð og lítið og sam­heldið sam­fé­lag. Það hef­ur því gengið nokkuð vel að tak­ast á við far­ald­ur­inn hér, þ.e.a.s. að því leyti að tak­marka smit og af­leiðing­ar þeirra. Hins veg­ar hafa af­leiðing­ar af aðgerðum gegn far­aldr­in­um verið al­var­leg­ar og þær eru senni­lega ekki komn­ar að fullu fram enn. Þar má nefna seink­un nauðsyn­legra skurðaðgerða og skimun­ar við krabba­mein­um, aukið of­beldi gegn börn­um, aukið heim­il­isof­beldi og aukna drykkju áfeng­is og vanda­mál því tengd. Ísland er háðara ferðamanna­straumi en lönd­in í kring­um okk­ur og nú er svo komið að við erum með mesta at­vinnu­leysi á Norður­lönd­um. Það er vel þekkt að at­vinnu­leysi leiðir af sér dauðsföll og fleiri hörm­ung­ar. Rík­is­sjóður starfar í ósjálf­bæru um­hverfi og safn­ar skuld­um, sem mun koma niður á nauðsyn­legri þjón­ustu og vel­ferð á kom­andi árum. Þetta al­var­lega ástand á Íslandi skap­ast að mestu vegna aðgerða gegn Covid-19 en leggst mis­jafn­lega illa á sam­fé­lagið. Þeir sem eru í fíla­beinst­urni aka­demí­unn­ar og eða í þægi­legu starfi hjá rík­inu hafa það bara nokkuð gott. Það eru þess­ir aðilar sem hafa mest­an aðgang að fjöl­miðlum og stýra því umræðunni.

Það er víða ójafnt gefið af ýmsum ástæðum, en nú hefur verið bætt töluvert í þann ójöfnuð: Fílabeinsturninn hefur stækkað og holan í jörðinni fyrir marga aðra hefur dýpkað.

En það liggur ekkert á, er það nokkuð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Höfundar aðgerðanna skipta fólki í nauðsynlegt og ónauðsynlegt eftir því hvaða störfum það gegnir. Nauðsynin ræðst af þörfum efri laga samfélagsins. Hinir ónauðsynlegu mega missa sín, þeir eru ekki aðeins ónauðsynlegir, heldur einnig hættulegir, því störf þeirra valda áhættu fyrir efri stéttirnar. Þetta eru hinir óhreinu.

Og þegar útgáfu bólusetningavegabréfanna vindur fram bætist í hóp hinna óhreinu. Það verður fólkið sem treystir ekki bóluefnunum, og fólkið sem hefur ekki aðgang að þeim. Þessu fólki verður meinað að ferðast, meinað að koma saman, jafnvel að sækja sér aðra vöru og þjónustu en þá sem er nauðsynleg til að geta dregið fram lífið.

Hinir óhreinu hafa ekki rétt til að lifa lífinu. Aðeins rétt til að draga fram lífið.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.3.2021 kl. 15:50

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Í útlöndum eru mótmæli úti á götu útaf þessu.  Í Dublin núna seinast.

Kóvitleysan er nú þegar búin að valda svo miklum búsifjum að það verður ekkert aftur snúið.  Og það er meira. 

Það er kraftaverk ef það verður ekki meiriháttar hrun á árinu.

Ásgrímur Hartmannsson, 2.3.2021 kl. 22:03

3 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Sæll Geir, þetta er góð grein hjá þér.

Það sem veldur mér áhyggjum er útdeiling fjármuna úr ríkissjóði. Mig bíður í grun að það séu þeir sem ekki þurfa á þeim fjármunum að halda sem fái þá, en þeir sem þurfa nauðsynlega á hjálp að handa fái hana ekki, þeir sitji eftir.

Hverjir verða síðan þeir sem þurfa að borga brúsann? eru það ekki einmitt þeir sem sitja eftir og fá ekki þá aðstoð sem þeir nauðsynlega þurfa á að halda?

Aðgerðir stjórnvalda koma verst niður á þeim sem síst skyldi.

Tómas Ibsen Halldórsson, 2.3.2021 kl. 22:08

4 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Texas ætlar að opna allt og afnema allar sóttvarnarreglur. Spennandi að fylgjast með þessu:

https://www.zerohedge.com/medical/texas-governor-ends-mask-mandate-lifts-anti-virus-restrictions

Rúnar Már Bragason, 3.3.2021 kl. 12:47

5 Smámynd: Geir Ágústsson

 Líka Mississippi:

https://www.msn.com/en-us/news/us/mississippi-will-allow-restaurants-parks-to-re-open-thursday/ar-BB13AOsl

Athugaðu samt að hér er verið að tala um "state-imposed" fyrirmæli. Sýslurnar (counties) og borgirnar geta eftir sem áður fyrirskipað lokanir, takmarkanir, grímuskyldur eða hvaðeina. Í Flórída er t.d. grímuskylda í sumum sýslum en ekki öðrum, en að vísu nákvæmlega sömu smitkúrvur:

https://twitter.com/ianmSC/status/1362829949439074307

Þetta er líka skemmtilegt:

https://twitter.com/yinonw/status/1366908358003986432

https://twitter.com/ianmSC/status/1365439296866377735

Geir Ágústsson, 3.3.2021 kl. 13:44

6 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Athyglisverðar myndir enda enga einustu trú á grímum.

Þótt verði ekki víðtækt þá er þetta samt hænuskref þar sem farið er á móti straumnum. Örstutt skref í rétta átt.

Rúnar Már Bragason, 3.3.2021 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband