Föstudagur, 12. febrúar 2021
Leið til að létta álag á fangelsum
Nú eru fangelsi landsins nánast fullnýtt og að auki er stór hópur einstaklinga að afplána refsingu með samfélagsþjónustu. Öllu þessu fylgir talsvert umstang og auðvitað kostnaður. Fyrir fanga er lífið líka orðið erfiðara með blettótta sakaskrá sem útilokar þá frá mörgum störfum.
Er engin leið að leysa þetta vandamál?
Jú auðvitað, og leiðin er auðveld í framkvæmd og virkar strax: Fækka því sem er ólöglegt að gera.
Af handahófi (úr hegningarlögum) mætti t.d. afnema eftirfarandi ákvæði:
"Hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skal sæta fangelsi allt að [12 árum]." (úr 173. gr.)
"Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru." (úr 183. gr.)
"Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári." (úr 206. gr.)
Hvað ætli losni um mörg fangelsispláss við að afnema þessi lög? Hvað ætli lögreglan fái mikið meiri tíma til að eltast við raunverulega glæpi, svo sem innbrot, ofbeldi og skemmdarverk? Hvað ætli álagið á dómskerfið myndi minnka mikið? Hvað ætli margir einstaklingar geti endurheimt líf sitt með hreina sakaskrá?
Glæpir eru auðvitað alvarlegt og raunverulegt vandamál en annað vandamál er hvað margt er talið vera glæpsamlegt, og það er heimatilbúið vandamál.
Fangelsin nánast fullnýtt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.