Miðvikudagur, 3. febrúar 2021
Virðisaukaskatturinn er lamandi, letjandi og til leiðinda
Einu sinni sagði fjármálaráðherra nokkur að átakið Allir vinna, sem veitir endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna byggingaframkvæmda, hafi tekist einstaklega vel. Þessi skattaívilnun skilar líklega meiru í ríkissjóð en ella.
Þetta var Steingrímur J. Sigfússon, og árið var 2011.
Hvernig stendur á þessu? Er ekki hlutverk virðisaukaskatts að afla ríkissjóði tekna?
Hvernig getur þá tímabundið afnám hans skilað meiru í ríkissjóð en ella?
Fyrir því eru margar mögulegar ástæður.
Virðisaukaskattur er lamandi: Hann gerir kaup á vörum og þjónustu dýrari en ella, og því selst minna. Iðnaðarmenn fá minni tekjur því fólk tekur að sér vinnu þess - málar veggina sjálft og reynir að tengja uppþvottavélina sjálft. Til að hafa tíma til að sinna störfum iðnaðarmanna tekur fólk sér frí frá eigin vinnu. Lamandi áhrif á verðmætaskapandi vinnu, með öðrum orðum. Læknirinn smíðar verönd á meðan iðnaðarmaðurinn bíður á biðstofu hans eftir viðtali.
Virðisaukaskattur er letjandi: Þegar vinna iðnaðarmannsins er skattlögð upp í rjáfur freistast fólk auðvitað til að spara sér kaup á vinnu hans. Framkvæmdum er frestað eða þær minnkaðar í umfangi. Nema menn hætti einfaldlega alveg við vegna kostnaðar.
Virðisaukaskattur er til leiðinda: Virðisaukaskatti fylgir gjarnan mikil pappírsvinna og ég hef heyrt að yfirvöld fylgist mjög náið með innheimtu hans - jafnvel betur en ýmsu öðru. Iðnaðarmenn finna fyrir þessu. Fyrir utan kostnaðaraukann fylgja skattinum þar með mikil leiðindi og freistingin til að á einhvern hátt losna við þau er stór. Fyrir kaupendur vinnu þýðir endurgreiðsla virðisaukaskatts líka pappírsvinnu.
Væri ekki ráð að afnema þennan skatt og auka þannig tekjur ríkissjóðs með meiri verðmætaskapandi veltu í samfélaginu, ef marka má orð fyrrverandi fjármálaráðherra?
Endurgreiðslur upp á 19,7 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta var mjög góð grein hjá þér. Ég hef talað fyrir því að virðisaukaskattskerfið hér á landi verði einfaldað og tekinn upp svokallaður veltuskattur. Þessi veltu skattur virkar þannig að hvert fyrirtæki greiði visst prósentuhlutfall af veltu sinni, engar undanþágur og engar endurgreiðslur. En virðisaukaskatturinn byggist upp á ÚTSKATTI, sem er þannig að fyrirtækið greiðir 24% eða 11% virðisaukaskatt af sölunni (með mörgum undantekningum) og INNSKATTI, sem er þannig að fyrirtækið fær endurgreidd 19,35% eða 9,91% (eftir því í hvoru virðisaukaskattsþrepinu fyrirtækið er í), eins og áður segir eru undanþágurnar í þessu kerfi MJÖG margar og oft erfitt fyrir leikmenn að átta sig á þeim. Ef þessi veltuskattur yrði tekinn upp og yrði ákveðinn 6% og engar undanþágur, myndu tekjur ríkisins aukast um að lágmarki 20% og ég þori að fullyrða það að mun meiri ánægja yrði hér á landi með þessa skattlagningu........
Jóhann Elíasson, 3.2.2021 kl. 13:47
Allar umbætur á ríkinu er barátta upp brekku í hálku með vindinn í fangið.
Ásgrímur Hartmannsson, 3.2.2021 kl. 17:34
Jóhann,
Ég er sammála því að einföldun skattkerfis er til bóta að öllu leyti, fyrir alla. En um leið er flókið skattkerfið ákveðin fóðurstöð fyrir embættismannakerfið. Ég hef aldrei heyrt um opinbera stofnun kvarta yfir vinnuálagi við að greiða úr flóknum undanþágufrumskógi.
Ásgrímur,
Það er rétt - en hlustaðu nú á viðtalið við Steingrím:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/01/05/skattalaekkun_eykur_umsvif/
Ef þú skiptir út orðavali hans, "skattaívilnun", fyrir orðið "varanlega skattalækkun", þá ertu kominn 95% áleiðis í að framkalla ákveðinn skilning á áhrifum hárra skatta á atvinnulíf, hegðun og framleiðni. Er ekki von?
Geir Ágústsson, 3.2.2021 kl. 18:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.