Þriðjudagur, 2. febrúar 2021
Vandamál - leyst!
Nýleg frétt Hringbrautar fjallar um alvarlegt vandamál: Börn eru send svöng í skólann og geta ekki tekið þátt í skólastarfinu vegna hungurs.
Ég dreg ekkert úr því að þetta er vandamál, og jafnvel mjög alvarlegt vandamál. En hver er lausnin? Að foreldrar barna sinna næri börn sín með góðum morgunverði og þungu nestisboxi, troðfullu af orku og næringu? Og auðvitað að bjóða upp á máltíðir heima fyrir?
Nei!
"... tel ég mikilvægt að hafa saðsama máltíð á föstudögum og mánudögum"
"Auðvitað ætti að vera í boði ávextir, skyr, brauð á mornana fyrir börn í skólum og ókeipis skólamatur í hádeginu" (stafsetningavillur frá höfundi texta)
Lausnin er auðvitað sú að börnin fái góðan mötuneytismat í skólatíma. Ókeypis, hvað sem það nú þýðir í þessu samhengi.
Auðvitað er hungur skólabarna vandamál en kannski er enn stærra vandamál það að það er hrópað á skólakerfið að leysa vandamálið. Gefum börnunum saðsama máltíð á föstudögum og mánudögum, málið leyst! Gefið þeim skyr og ávexti á skólatíma!
Hvernig á foreldri að túlka svona kröfugerðir? Að hvítt brauð með sultu sé bara ágæt máltíð alla daga og yfir helgina því á mánudaginn býður saðsöm máltíð?
Persónulega skil ég ekki foreldra sem heyra barn sitt kvarta yfir magaverkjum í lok skóladags því það var ekkert að borða, og gera ekkert í því. Mötuneytið bauð kannski upp á slepjulegan hafragraut og skólamáltíðin er jú "ókeypis" svo engin ástæða til að senda barnið með nesti í skólann.
Kannski er hér búið að aftengja algjörlega ábyrgð foreldra og væntingar til hins opinbera. Nú er hið opinbera orðið að foreldri og foreldrið einfaldlega orðið veski sem borgar skatta og gíróseðla og þarf ekki að spá í barninu meira.
Kannski eru skólamáltíðir í boði skattgreiðenda slæm hugmynd, og nestisboxið betri hugmynd.
Kannski.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.