Þriðjudagur, 13. október 2020
Jólagjöfin í ár (í eintölu)
Í ljósi þess að yfirvöld eru að fletja út veiru, hagkerfi og samfélag blasir við að jólahaldið verður mörgum mjög erfitt í ár, jafnvel óbærilegt. Jól á bótum, atvinnuleysi, félagsleg einangrun og ekkert framundan. Skelfilegt, satt að segja.
Ég er því með hugmynd sem ég hef þannig séð ætlað mér að stinga upp á við mitt fólk (og hef lengi langað til):
Að fólk lýsi því yfir að það vilji bara eina jólagjöf. Og að hún sé þá eitthvað almennilegt.
Ef þú ert vanur eða vön að fá gjafir frá þremur einstaklingum, eða tíu, eða hvað það nú er, þá segir þú einfaldlega við þetta fólk: Þetta er gjöfin sem ég vil, eða þetta er óskalisti minn þar sem má bara velja einn hlut, og það verður þessi aðili sem kaupir gjöfina og pakkar inn fyrir mig, svo einföld millifærsla - frjálst framlag - á viðkomandi, og gleðileg jól.
Kannski einhver forritari geti búið til lítið app sem miðlar málum? Svona eins og "box"-lausn MobilePay í Danmörku?
Viljir þú enga hluti þá er auðvitað hægt að setja framlögin í eitthvað annað, svo sem góðgerðarmál. Nú eða bara að afþakka gjafir með öllu. Vantar þig eitthvað hvort eð er? Enn einn blómavasann, kannski? Eða ný heyrnatól í ræktina sem er búið að knésetja með sóttvarnaraðgerðum? Kannski ekki.
Ég er jafnvel á því að börn muni taka þátt í svona löguðu þótt auðvitað sé gaman að fá marga pakka. Betra er eitt gott reiðhjól eða voldugur fjarstýrður bíll en mýgrútur af ódýrum og eitruðum plastleikföngum.
Er þetta eitthvað sem gæti gert lífið léttara og um leið tryggt gleðileg jól án fjárútláta í allskonar húfur og hanska og plastglingur sem enda ofan í skúffu á jóladag?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.