Laugardagur, 15. ágúst 2020
2021
Nú líður að seinni helmingi ársins 2020 og því ekki úr vegi að byrja að spá fyrir um atburði ársins 2021. Það er hægur vandi því oft er fortíðin góð vísbending um framtíðina og úr nægu að moða þar.
Árið 2021 er kosningaár. Það þýðir að stjórnmálaflokkar munu keppast við að lofa kjósendum gulli og grænum skógum. Ríkisstjórnarflokkarnir munu að sjálfsögðu taka þátt í þeim leik. Skiljanlega. Kjósendur hafa ítrekað sýnt það og sannað að þeir verðlauna stjórnmálaflokka fyrir að lofa, og þá helst meiru en þeir geta nokkurn tímann staðið við, á kostnað skattgreiðenda. Það þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að finna kosningasigur flokks sem lofaði því af fullri alvöru að lækka skatta svo einhverju nemi, greiða upp opinberar skuldir, vinda ofan af opinberri framfærslu, fækka opinberum starfsmönnum og draga úr ríkisafskiptum og -umsvifum. Munu kjósendur verðlauna slíkt í dag? Sennilega ekki.
Árið 2021 verður líka veiruár eins og það sem nú gengur yfir. Ofan á kóróna-veiru á eftir að bætast við inflúensu-veira, að ónefndum öllum kvefpestunum. Veiruárið 2021 verður samt ekki ár samstöðu og sáttar um að takmarkanir þurfi að gera til að minnka útbreiðslu og verja ákveðna þjóðfélagshópa. Nei, veiran verður orðin rammpólitísk og enginn skortur verður á nýjum hugmyndum til að umbylta samfélaginu í nafni hennar. Hið opinbera hefur sjaldan látið gott neyðarástand fara til spillis og upp munu spretta tillögur að alls kyns ríkisstofnunum og bólgnum útgjaldahugmyndum sem á yfirborðinu eiga að renna til veiruvarna en eru í raun bara hendur að grípa það sem þær geta á meðan almenningur situr skelkaður við sjónvarpsfréttirnar.
Árið 2021 verður svo að öllum líkindum kreppuár. Góðæri undanfarinna ára hefur verið vel nýtt til að halda uppi gríðarlegri skattheimtu til að byggja undir gríðarlega stórt opinbert bákn. Það mátti ekki skella á veira og hallarekstur ríkisins hljóp upp í þriggja stafa milljarðatölu, rétt eins og hendi væri veifað, og nákvæmlega ekkert svigrúm til að hækka skatta og borga þann reikning, né pólitískur vilji til að selja eigur upp í skuldir eins og venjulegt fólk gerir í hallæri. Sveitarfélögin hafa mörg hver heldur ekkert gert til að búa sig undir niðursveiflu. Menn geta auðvitað kennt veirunni um en almennt má segja að allar áætlanir hafi gert ráð fyrir endalausu góðæri, og engin áætlun B til staðar. Áfallið hefði hæglega geta verið gjóskugos, nýtt bankahrun, hrun bandaríska dollarans, léleg veiði eða tískubylgjubreytingar meðal ferðamanna, sem vildu allt í einu frekar fljúga til Istanbúl en Íslands. Með skatta í himinhæðum og skuldir upp fyrir háls, eftir blússandi góðæri undanfarinna ára, blasir því við að kreppuár sé framundan.
Að þessu sögðu má því segja að árið 2021 verði fyrirsjáanlegt. Kjósendur munu kjósa þá sem lofa mestum ríkisafskiptum. Stjórnmálamenn og hið opinbera mun ekki láta veiruástandið fara til spillis og nota tækifærið til að taka yfir enn stærri hluta samfélagsins. Með skatta og víða skuldir í himinhæðum verður síðan ekkert andrými til að hleypa hagkerfinu af stað á ný.
En vonandi skjátlast mér, að öllu leyti.
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu, 15. ágúst 2020, og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:01 | Facebook
Athugasemdir
En Geir gleymir þú ekki að það eru litlu dægurmálin sem fá alltaf mesta athygli?
Las eitt sinn í fyrndinni bók sem hét Parkinson Law og samkvæmt henni þá verða
heitari umræður um litlu málin en stóru - sbr hvað kaffivél á að kaupa tekur marga daga en fjárhagsáætlunin fyrtækisins er afgreidd á 0,5
Hvernig kjörnir fulltrúar snúa stólum sínum er rætt í þaula núna hjá Borginni en fjárhagáætlun Borgarlínu samþykkt umsvifalaust.
Þetta er ekkert séríslenskt vandmál t.d. fóru margir mánuðir í að ræða hvernig lögun samningaborðs USA og Vítetnams skyldi vera.
Fischer vildi líka ekki samþykkja hvaða skákborð sem var - hvar er það skákborð annars?
Grímur Kjartansson, 15.8.2020 kl. 20:14
Enn hefur ekki fundist hér flokkur sem lofaði því af fullri alvöru að lækka skatta (sem eru í sögulegu lágmarki) svo einhverju nemi og greiða upp opinberar skuldir (það litla sem eftir er af þeim fyrr en þörf er á)
vinda ofan af opinberri framfærslu (lækka elli og örorkubætur, sjúkradagpeninga og atvinnuleysisbætur, framfærsluviðmið og persónuafslátt. Hver bjargi sér sjálfur. "Sam" í "Samfélag" stendur þá fyrir að vera sama en ekki saman.)
fækka opinberum starfsmönnum (læknum, kennurum, hjúkrunarfræðingum, lögregluþjónum)
og draga úr ríkisafskiptum og -umsvifum (vegagerð, heilsugæslu, menntun --þeir borgi sem nota og hinir meiga éta það sem úti frýs. Börn einstæðra mæðra þurfa enga menntun, einhverjir verða að grafa skurðina).
Munu kjósendur verðlauna slíkt í dag? Ekki þeir sem búa hérna.
Sjaldan hafa lýðskrumarar, populistar og niðurrifsöflin látið gott neyðarástand fara til spillis og upp munu spretta tillögur sem miða að óstöðugleika, skertri vörn almennings, hámarks skaða og upplausn. Með blekkjandi nöfn eins og "draga úr ríkisafskiptum", "fækka opinberum starfsmönnum" og "vinda ofan af opinberri framfærslu" og auðvitað til hagsbóta fyrir almenning.
Vagn (IP-tala skráð) 15.8.2020 kl. 21:18
Skuldir íslenska ríkisins, fyrirtækja og heimila stórjukust einmitt vegna frjálshyggjunnar hér á Íslandi á árunum fyrir 2009, meðal annars vegna þess að frjálshyggjumaður var forstjóri Fjármálaeftirlitsins og því lítið eftirlit með íslensku viðskiptabönkunum.
Þar að auki átti Seðlabanki Íslands lítinn gjaldeyrisforða og aðalbankastjórinn fyrir Hrunið hér á Íslandi haustið 2008 var Davíð Oddsson, sem hefur ekki vit á peningum frekar en aðrir mörlenskir hægrimenn, enda urðu bæði íslensku viðskiptabankarnir og Seðlabankinn gjaldþrota og var bjargað af ríkjum í Evrópusambandinu, til að mynda Danmörku.
Skuldir íslenska ríkisins voru að mestu leyti greiddar upp vegna stóraukinnar ferðaþjónustu hér á Íslandi síðastliðin ár en þær eru nú að aukast aftur vegna Covid-19.
Og vegna stóraukinnar ferðaþjónustu hér hafa skuldir íslenskra fyrirtækja og heimila einnig lækkað mikið undanfarin ár, svo og stýrivextir Seðlabanka Íslands og kaupmáttur aukist um tugi prósenta.
Mörlenskir hægrimenn hafa hins vegar fundið ferðaþjónustunni hér allt til foráttu, eins og mýmörg dæmi sanna, til að mynda hér á Moggablogginu allt frá árinu 2007.
Skattar í Danmörku eru með þeim hæstu í heiminum og harla einkennilegt að mörlenskur frjálshyggjumaður, sem hefur valið að búa í Danmörku, skuli sífellt kvarta undan háum sköttum hér á Íslandi.
1.6.2017:
"Í doktorsritgerð sinni gerir hagfræðingurinn Axel Hall býsna ýtarlegan samanburð á formi skattlagningar á launatekjum á Norðurlöndum og á Íslandi."
"Meginniðurstaða Axels er að meðalskattur (skattgreiðslur sem hlutfall launatekna) sé lægstur á Íslandi."
"Fjármagnstekjuskattur einstaklinga í Noregi og Svíþjóð er svipaður og í Bandaríkjunum en í Danmörku er hann talsvert hærri (fer hæst í um 30% í Svíþjóð, Noregi og Bandaríkjunum en er um 47% í Danmörku)."
"Tekjuskattur fyrirtækja á hinum Norðurlöndunum er svipaður og í öðrum OECD-löndum, á bilinu 22 til 27%, umtalsvert lægri en í Bandaríkjunum.
Á Íslandi er hann 20% eins og fjármagnstekjuskatturinn."
Og þegar íslenska ríkið greiðir starfsmönnum sínum laun fær það launin að miklu leyti til baka með til að mynda skatti af launagreiðslunum og virðisaukaskatti af vörum og þjónustu sem starfsmennirnir kaupa hér á Íslandi.
Þorsteinn Briem, 15.8.2020 kl. 21:39
1.6.2017:
"Virðisaukaskattur er á svipuðu róli á Norðurlöndunum, 25% í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og 24% í Finnlandi.
Að þessu leyti er skattbyrðin svipuð á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum.
Þegar kemur að skattlagningu náttúruauðlinda sker Noregur sig nokkuð úr en auk 27% tekjuskatts fyrirtækja greiða félög sem vinna olíu auðlindaskatt sem nemur 51% af reiknuðum hagnaði.
Á Íslandi er renta af náttúruauðlindum ekki skattlögð sérstaklega ef frá eru talin veiðigjöld sem reikna má með að séu um 10% af rentu í sjávarútvegi."
Þorsteinn Briem, 15.8.2020 kl. 22:04
Eru Vagn og Þorsteinn Briem sama manneskjan með tvískiptan ritstíl?
Hvað um það.
Á tímabili rak ríkið mjólkurverslanir og sementsverksmiðju, var einrátt um bifreiðaskoðanir og tók afstöðu til þess hvort sjónvarp væri svarthvítt eða í lit. En ekki lengur. Af hverju rekur ríkið áfengisverslanir? Ónei, ríkið ætlar að reka alla kennara eins og það rak bifreiðaskoðunarmenn! Eða hvað? Skoðar ekki einhver bíla í dag? Hætta krakkar að læra lesa ef kennarinn er ekki opinber starfsmaður?
Einu sinni var nóg að opna búllu og sitja undir eftirliti. Núna þarf að sanna fyrirfram að öllum reglum sé fylgt, og fá leyfi. Af hverju?
Einu sinni sagði sveitarstjórnarframbjóðandi nokkur í Reykjavík að það mætti fækka borgarfulltrúum. Hann stóð við það. Hvar er slíkt hugarfar í dag?
Svigrúmið er endalaust, en það krefst ákveðins hugarfars að sjá það, sem er: Að eitthvað sé eins og það sé í dag þýðir ekki að það þurfi að vera þannig að eilífu.
Geir Ágústsson, 15.8.2020 kl. 22:22
Sem betur fer þá erum við Þorsteinn Briem ekki sami maður. Ég skrifa eins og mér finnst í hvert skipti en Þorsteinn Briem ákvað sig og festist fyrir mörgum árum síðan. Hann er ekki að segja neitt sem ekki hefur verið peistað á öðrum síðum ítrekað í nokkur ár. Hann gæti þess vegna hafa verið dauður síðan í hruninu. En ég gæti verið í mótsögn við það sem ég sagði í gær... Það er samt bráðfyndið að þú, fastur í klisjum og copy paste frá einhverjum ruglukollum án nokkurrar frumlegar hugsunar, skulir vera kominn með Þorsteinn Briem, copy paste klisjukónginn, á bakið.
Ríkið hefur í gegnum tíðina haft með höndum rekstur sem aðrir hafa ekki haft bolmagn til að reka á sanngjörnum verðum. Bifreiðaskoðun hefur hækkað í verði eftir að ríkið gaf það frá sér. Ekki mikið, en það sem er alvarlegra er að samkeppnin hefur orðið til þess að bílar sem ekki eiga að vera á götunum fá fulla skoðun. Einkaaðilarnir vilja frekar halda í kúnnan en umferðaröryggið. Þeir sem eiga, eða hafa átt, druslur kannast við það hvert best er að fara til að fá skoðun.
Einu sinni var nóg að opna búllu og sitja undir eftirliti. Núna þarf að sanna fyrirfram að öllum reglum sé fylgt, og fá leyfi. Af hverju? Af því að það virðist vera innbyggt í búllur að svíkja viðskiptavinina og brjóta lög og reglur. Lofa klósettum og réttum mælum frekar en að skaffa klósett og rétta mæla.
Einu sinni sagði sveitarstjórnarframbjóðandi nokkur í Reykjavík að það mætti fækka borgarfulltrúum. Hann stóð við það. Hvar er slíkt hugarfar í dag? Árangurinn var sá að fækkun bæjarfulltrúa skapaði stjórnkerfi það sem þröngur hópur fór með öll völd og skaraði eld að eigin köku. Valdið réði og önnur sjónarmið voru útilokuð. Reynslan hefur einfaldlega útilokað það hugarfar.
Margir krakkar hætta ekki að læra að lesa ef kennarinn er ekki opinber starfsmaður, bara mikið fleiri en ef hann er opinber starfsmaður. Hvort allir hafi aðgang að menntun eða bara þeir sem geta borgað skiptir marga máli, ekki þig, en marga aðra.
Svigrúmið er vissulega endalaust, en það krefst ákveðins hugarfars að sjá það, sem er: Að þó eitthvað sé eins og það sé í dag þýðir ekki að það þurfi að vera þannig að eilífu( fæst er óbreytt að eilífu), en það þýðir ekki að þó einhver bloggari sé ósáttur og vilji annan stjórnmálaflokk í stjórn þá skuli skipta. Það sem virkar þannig að flestir eru sáttir kallar ekki á breytingar til að þóknast minnihluta, ekki einu sinni þó sá litli minnihluti búi í Danmörku og telji sig því tilheyra herraþjóðinni og vilji segja aumum þegnunum fyrir verkum.
Að breyta bara til að breyta þó engin ástæða sé til að breyta er leikur heimskingja.
Vagn (IP-tala skráð) 16.8.2020 kl. 01:23
Vagn,
Hefur þér aldrei dottið í hug að ríkiseinokunarstarfsemi vindi stundum upp á sig án raunverulega aðkallandi ástæðna? Af því það getur það?
Geir Ágústsson, 16.8.2020 kl. 16:38
Nei, og ekki fundið þess dæmi. Nema þegar breyta þurfti lögum svo RUV gæti undið upp á sig og haldið úti vefsíðu.
Hefur þér aldrei dottið í hug að svín fljúgi án raunverulegrar aðkallandi ástæðu? Af því það getur það?
Fyrir ríkiseinokunarstarfsemi að vinda upp á sig er ekki mikið auðveldara en fyrir svín að fljúga.
Vagn (IP-tala skráð) 16.8.2020 kl. 19:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.