Hreyfanleiki er mikilvægari en jöfnuður

Margir sem tjá sig um stjórnmál hafa mjög mikinn áhuga á jöfnuði. Þeir telja að jöfnuður sé mikilvægur - að ljósmynd af samfélaginu í dag eiga að sýna lítið bil á milli þeirra fátækustu og ríkustu. Að Ísland sér þar með þriðja besta ríki í heimi á eftir Slóvakíu og Slóveníu.

Þetta er af mörgum ástæðum misskilin góðmennska.

Í fyrsta lagi tekur jöfnuður ekki til hreyfanleika. Fátæki námsmaðurinn á námslánum eða ungi búðarstarfsmaðurinn sem vinnur með námi eru kannski ekki efnaðir í dag en þeir eru að vinna, afla sér reynslu og þekkingar og munu rísa í tekjum og verða efnaðir seinna. Það þarf ekki að vorkenna fátæka læknanemanum því hann mun spjara sig. Það þarf ekki að missa svefn yfir auði fjárfestisins því hann fer upp og niður í tekjum og eignum eftir því hvernig vindar blása á markaðinum.

Í öðru lagi leiðir mikil áhersla á jöfnuð til of mikillar áherslu á að dæla fé í þá sem eru tímabundið tekjulágir. Það þýðir hærri skatta sem um leið hamla viðkomandi frá því að hækka í ráðstöfunartekjum því skattheimtan étur upp alla tekjuaukningu hans, og hirðir auðvitað stóran bita af tekjum lágt launaðra. Jöfnunartækin verða því einskonar frysting á núverandi aðstæðum þeirra sem hafa alla burði til að afla aukinna tekna en geta það ekki vegna jöfnunaráhrifa skattkerfisins.

Í þriðja lagi eru menn oftar en ekki að slá sig til riddara. Þeir sem hæst góla um jöfnuð eru yfirleitt tekjuháir spekingar - þingmenn, lögfræðingar og prófessorar - sem hafa komið sér svo vel fyrir að þeir munu aldrei finna mikið fyrir hærri álögum vegna stækkandi velferðarkerfis. Hræsnin í þessu kemur ágætlega fram í því að jafnaðarmenn svokallaðir hrópa alltaf á hærri skatta á aðra en leggja aldrei til að þeir lækki sjálfir í tekjum, og hvað þá að tekjum þeirra fátækustu í vanþróuðum ríkjum (heimsjöfnuður).

Það versta sem kemur fyrir samfélag er að fólk festist í sama farinu - að það verði háð bótum, geti ekki hækkað ráðstöfunartekjur sínar og geti ekki gengið að fjörugu atvinnulífi með mörgum tækifærum því skattkerfið hefur lamað allt til að jafna út lífskjörin. Þá er jöfnuðurinn orðinn að kerfi örvæntingar og örvæntingarfullt fólk gerir margt misjafnt til að reyna bæta stöðu sína í lífinu.

Hreyfanleikinn er mikilvægastur, þ.e. að fólk geti þefað uppi ný tækifæri til að bæta stöðu sína í lífinu innan öflugs hagkerfis þar sem menn geta efnast vel en þurfa líka að éta tapið ef áhættufjárfestingin mistekst.

Jöfnuður er ekki slæmur í sjálfu sér ef hann kemur til af eðlilegum ástæðum: Allir að verða ríkari og þeir fátækustu að efnast hraðar en þeir tekjuhæstu (sögulega alls ekki fjarstæð þróun í frjálsum hagkerfum). En að þvinga fram jöfnuð getur orðið banabiti sérhvers samfélags.


mbl.is Ójöfnuður lágur í evrópskum samanburði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Samanburður milli Íslands og annarra landa varðandi jöfnuð er ekki marktækur vegna gífurlegrar spillingar á Íslandi. Lélegar varnir gegn peningaþvætti stuðla að þessari spillingu með velþóknun stjórnvalda. Önnur lönd sem sýna mikinn jöfnuð búa við miklu minni spillingu en Ísland. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.12.2019 kl. 13:49

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Menn geta auðvitað talið suma mælikvarða vera mikilvægari en aðra. Ísland er í 14. sæti yfir minnstu spillingu í heiminum skv. Corruption Perception Index (https://www.transparency.org/cpi2018) og þætti þá sumum ágætlega staðið miðað við smæð samfélagsins og óhjákvæmilega náin tengslanet. Það er þá helst að stjórnsýslan í Reykjavík ætti að vekja upp áhyggjur þótt auðvitað sé alltaf hætta á spillingu þar sem opinberir embættismenn sýsla með eigur almennings. 

Geir Ágústsson, 21.12.2019 kl. 10:08

3 identicon

Er ekki fjórtánda sætið neðsta sætið í Vestur- og Norðurevrópu? Skv. World Happiness Report er Ísland langspillasta land Evrópu ef flest Suðurevrópulönd og fyrrum austantjaldslönd eru undanskilin.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.12.2019 kl. 18:54

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Belgía, Írland og Frakkland eru neðar. Austurríki á pari. Ríki ofar, svo sem Þýskaland, Svíþjóð og Danmörku, eru þó líka að eiga við spillingarmál og auðvitað ESB í heild sinni líka. Með stóru ríkisvaldi fylgja mikil völd og völd spilla.

Geir Ágústsson, 22.12.2019 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband