Hvað með að gefast upp?

Ég legg það til í fúlustu alvöru að ríkisvaldið og sveitarfélögin hreinlega gefist upp á því að reka sómasamlegt samgöngukerfi. Þetta á við um vegi, gatnamót og almenningssamgöngur.

Það er sama hvað hið opinbera hamast: Fólk virðist aldrei geta fallist á að opinberar samgönguáætlanir séu hin rétta lausn. Traffíkin er lamandi, strætóarnir tómir utan álagstíma og hafsjór af himinháum sköttum á bíla og bensín, niðurgreiðslur á almenningssamgöngum og umbunanir fyrir ákveðnar, óhagkvæmar gerðir bíla bíta ekki, eða illa og seint.

Eða hvenær er nóg komið? Hvenær má lýsa yfir uppgjöf og halda reisn sinni?

Ríkið reyndi að halda úti farsímakerfi en það var ekki fyrr en einkaaðilar komu til sögunnar að það fór á flug.

Ríkið reynir að reka sjónvarps- og útvarpsstöðvar en gerir það núna fyrst og fremst með því að apa eftir einkaaðilunum.

Ríkið þráaðist við að halda opinni sementsverksmiðju á Íslandi og þegar hún var seld kom í ljós að innlend framleiðsla var ekki samkeppnishæf við þá erlendu.

Hið opinbera ætti að gefa út yfirlýsingu sem gæti hljómað svona:

Kæru landsmenn,

Við gefumst upp! Það virðist ekkert bíta á ykkur, sama hvað við ályktum mikið og óháð því hvað við kreistum mikið fé út úr ykkur til að koma ykkur úr einu faratæki í annað. Vegirnir eru að molna undan ykkur, þeir eru stíflaðir og þið eruð enn að kaupa bensínbíla. En núna gefumst við upp og ætlum að einbeita okkur að einhverju öðru. Þið munuð í frjálsu samstarfi finna lausnir sem duga eins og í öðru sem við höfum gefist upp á og við óskum ykkur velgengni í því. Nú er hins vegar kominn tími til að taka tæknileg úrlausnarefni af dagskrá stjórnmálamanna svo þeir geti einbeitt sér að einhverju öðru og áður en okkar ágætu fulltrúar fara að sóa ræðutíma Alþingis í að tala um eldsneytistegundir og brúarsmíði.

Heillaóskir,

Íslenskir stjórnmálamenn á öllum stjórnsýslustigum


mbl.is Verður stóra umræðan í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varst þú í alvöru að bíða eftir að allir yrðu sammála?

Í frjálsu samstarfi fundum við lausn sem við flest erum sammála um. Hún er að á fjögurra ára fresti kjósum við fólk til að sjá um þessa hluti. Það verður þeirra vinna. Og vegna þess að aðeins þeir sem vilja vinna vinnuna bjóða sig fram verður hægt að velja þá áhugasömu sem við teljum hæfasta til að vinna verkið og uppgjöf verður fáheyrð. Við látum það í hendur landflótta verkfræðinga að gefast upp þegar verkefnin verða erfið.        Heillaóskir,      Íslenskur almenningur.

Vagn (IP-tala skráð) 30.9.2019 kl. 21:53

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Á Íslandi er stjórnarskrá sem vissulega ríkir almenn sátt um og kveður á um lýðræði, en í henni stendur ekkert um að ríkisvaldið eigi að vasast í allskyns tæknilega flóknum rekstri eins og farsímaþjónustu, sementsframleiðslu og rekstri vegakerfis (og af þessum lista hefur ríkið svo sem betur fer gefist upp á tvennu af þrennu). Og setja svo þennan rekstur í hendur sprenglærðra bókmenntafræðinga, heimspekinga og lögfræðinga á Alþingi.

Ekki viltu að Katrín Jakobsdóttir, með alla sína hæfileika, skipuleggi framtíð gagnaflutninga á heimili þitt, eða samsetningu húsgangna þinna í stofunni þinni. En um leið viltu kannski að hún, eða álíka einstaklingur, kjósi um það hvort mislæg gatnamót, hringtorg eða umferðarljós séu besta lausnin fyrir gatnamót Miklubrautar og Bústaðarvegs. Það má svo sannarlega kalla blinda hugsjón og oftrú á ríkismiðstýringu en slíkt hugarfar er svo sem ekkert nýtt á nálinni.

En að öðru:

Ég er ekki landflótta og flúði ekki úr erfiðleikum í þægilega bómull. En það er efni í annan pistil sem fjallar um mig en ekki stjórnmál. Af öllum sem hér hafa skrifað athugasemd hef ég aldrei upplifað annan eins áhuga á mér og minni persónu og ég mun svala forvitni þinni við tækifæri. Engar áhyggjur.

Geir Ágústsson, 1.10.2019 kl. 06:37

3 identicon

Ríkisrekstur á sementsverksmiðju, síma o.fl. er til komið vegna þess að þörf var á þessum rekstri en kostnaður kom í veg fyrir að innlendir aðilar gætu hafið þannig rekstur. Það var ekki samstaða með að láta erlenda aðila byggja upp og reka útvarps og símakerfi, þó það stæði til boða. Og níska á að nota takmarkaðan gjaldeyri í steypu og áburðarkaup gerði þær verksmiðjur nauðsynlegar. Síðan breytast tímar, tæknin, gjaldeyrisstaðan og efnahagur þjóðarinnar. Þá opnast fyrir það að selja einkaaðilum reksturinn og opna fyrir innflutning.

Sumt viljum við svo sem þjóðfélag setja í hendur bókmenntafræðinga, heimspekinga og lögfræðinga á Alþingi frekar en fjárglæframanna og lukkuriddara.

Áhuginn á þinni persónu er ekkert meiri en á öðrum Dönum. En hvers vegna Dani, sem ekki deilir kjörum með Íslenskri þjóð og sést hér aðeins sem gestur, er að skipta sér af málefnum Íslendinga er áhugavert. 

Vagn (IP-tala skráð) 1.10.2019 kl. 13:24

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Allt sem þú segir um þarfleysi ríkisins á ýmsum sviðum gildir um vegi líka.

Geir Ágústsson, 1.10.2019 kl. 17:06

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Aðeins meira vegna vegakerfisins:

Það er engin knýjandi þörf að halda því í höndum opinberra aðila. Eina raunverulega ástæðan fyrir því að hið opinbera rígheldur í sokkið verkefni eru milljarðarnir sem fylgja skattheimtunni og má nota í framkvæmdir sem geta keypt atkvæði. 

Víða í þróuðum samfélögum reka einkaaðilar vegi með góðum árangri. Þar með eru þeir ekki á könnu stjórnmálamanna sem geta þá einbeitt sér að einhverju öðru.

Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að fólk komist ekki á milli staða. Það má raunar víða heita svo að það sé raunin í dag og hér má bæði nefna Miklubraut og Motorring 3 umhverfis Kaupmannahöfn, svo ég taki nærtæk dæmi.

Tæknin er á fljúgandi ferð og langt komin í raunheimaprófunum og mun láta strætóa (bæði þá gulu og þá sem heita "Borgarlína") líta út eins og risaeðlur á malbiki.

Það hefur ekki dugað að skrúfa skatta á sumt í botn og dæla í niðurgreiðslur í annað. 

Holurnar á vegunum víða eru orðnar fræg kennileiti.

Það sem stendur eftir er, sem sagt, að stjórnmálamennirnir vilja ekki sleppa milljörðunum.

Geir Ágústsson, 1.10.2019 kl. 17:17

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Aðeins vegna þess að búa í einu landi og skrifa um annað:

Það er hvorki skrýtið né einstakt að hafa áhuga á upprunalandi sínu og því landi þar sem flestir vinir manns búa og öll fjölskyldan.

Þetta á ekki bara við um mig.

Daninn Lars Tvede skrifar metsölubækur, oft með mörgum tilvísunum í upprunaland hans, frá skrifborði sínu í Sviss.

Vinstrimaðurinn Stefán Snævarr, heimspekiprófessor, býr í Noregi og skrifar heilu bækurnar um íslenskt samfélag. 

Í stað þess að amast við þessu má kannski skoða frekar boðskapinn en landakortið. Og sama gildir um menntun þeirra sem skrifa - er hún afgerandi fyrir boðskapinn? Í fótbolta tala menn um að fara í boltann, ekki manninn. 

Geir Ágústsson, 1.10.2019 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband