Þriðjudagur, 30. apríl 2019
Til varnar einnota
Einnota vörur hafa marga kosti. Við eigum ekki að dæma þær úr leik - þvert á móti!
Í fyrsta lagi geta þær sparað okkur hreinsiefni. Það þarf ekki að þvo upp einnota vörur með sápu og heitu vatni sem endar í niðurfalli og að lokum í sjónum. Einnota vörur fara einfaldlega í ruslið og eru brenndar eða urðaðar eða jafnvel endurnýttar (þótt endurnýting sé oftar en ekki sóun á orku og felur í sér notkun á hættulegum efnum).
Í öðru lagi geta einnota vörur varið matvæli okkar og ýmsar vörur. Umbúðir koma í veg fyrir skemmdir. Matur endist betur undir plastfilmu. Einnota vörur af ýmsu tagi framlengja líf á ýmsum hlutum.
Í þriðja lagi eru einnota vörur oft handhægari en aðrar og auka sveigjanleika okkar í lífinu. Til dæmis er upplagt að fara með einnota glös og diska í göngutúr á ströndina frekar en að rogast með leirtauið sem um leið er viðkvæmara fyrir hnjaski. Einnota rör eru heppileg fyrir krakka sem sulla á sig þegar þau drekka úr glasi. Að halda barnaafmæli er leikur einn þegar það er einfaldlega hægt að henda öllum glösunum og diskunum að partýi loknu frekar en að þurfa bograst yfir vaskinum og þvo upp.
Í fjórða lagi geta einnota vörur sparað hráefni, orku og auðlindir. Magnið af plasti sem þarf til að búa til eitt plastglas er svo lítið að það er nánast ósýnilegt. Hinn möguleikinn er að nota sápu og heitt vatn til að þvo upp. Plastfilman kemur í veg fyrir matarsóun. Plasthanskinn hlífir okkur við óhreinindum og eiturefnum. Öndunargríman ver lungu okkar.
Við heyrum reglulega að sjórinn sé að fyllast af plasti og rusli. Það er að hluta til rétt en er ekki okkur að kenna. Megnið af ruslinu sem rennur til sjávar rennur úr nokkrum stórfljótum í vanþróaðri ríkjum. Lausnin er sú að styrkja stoðir eignaréttsins þannig að sá sem mengar þurfi líka að sæta afleiðingum.
Er einnota óþarfi? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:10 | Facebook
Athugasemdir
Ekkert er einnota og oft má sleppa sápu með því að skola úr með sjóðandi vatni.
Ageirssonðalsteinn (IP-tala skráð) 30.4.2019 kl. 22:41
Einnota er skilgreiningin á sóun.
Vitið er ekki mikið að þvælast fyrir þér Geir.
Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 1.5.2019 kl. 16:18
Ekki vil ég vita hvernig þú skeinir þér eða snýtir með þetta orðaval á lofti.
Geir Ágústsson, 1.5.2019 kl. 17:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.