Mánudagur, 29. apríl 2019
Kröfuharðir viðskiptavinir!
Vínbúðin á Eiðistorgi er að margra mati orðin nokkuð lúin í samanburði við þær sem endurnýjaðar hafa verið síðustu ár. Kröfuharðir viðskiptavinir hafa til að mynda kvartað undan því að ekki er kælir í versluninni eins og víðast annars staðar.
Já, þeir eru kröfuharðir þessir viðskiptavinir ríkiseinokunarverslunarinnar! En núna stendur til að setja upp kæli og það ratar í fyrirsagnir frétta.
En slaka þá þessir kröfuhörðu viðskiptavinir á kröfum sínum? Eða geta þeir haldið áfram að krefjast? Hver er að hlusta? Hver bregst við, og hvenær? Ekki er um að ræða neitt markaðsaðhald svo hver ákveður hvað á að gera og hvar og hvenær?
Það er ekki hægt að kalla viðskiptavini ÁTVR kröfuharða því það þarf enginn að bregðast við kröfum þeirra og þeir hafa enga aðra valkosti. ÁTVR gerir bara það sem ÁTVR telur að nægi til að bæla niður óánægjuraddir með fyrirkomulag ríkiseinokunar. Sá sem hefur labbað í gegnum stórmarkað í Danmörku eða Þýskaland brosir að nægjusemi Íslendinga með sínar ÁTVR-verslanir - sumar með kæli og aðrar ekki. Kröfur viðskiptavina ÁTVR heyrast ekki nema vísbendingar séu að myndast um að Íslendingar hugleiði frjálsara fyrirkomulag áfengissölu. Og núna er sem sagt kominn kælir á Eiðistorgi, eins og Morgunblaðið hefur hér sagt svo vel frá. Kannski það fái þessa bevítans Seltirninga til að halda kjafti.
Fá loks kæli í Vínbúðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er reyndar spurning hvort það eigi að kalla okkur viðskiptavini. Er ekki réttara að kalla okkur fórnarlömb?
Þorsteinn Siglaugsson, 29.4.2019 kl. 13:52
Auðvitað vilja íslenskir viðskiptavinir kaupa vínið kælt, miðað við verðlagninguna. Ekki eins og við spörum neitt á því að kæla það heima hjá okkur.
Kolbrún Hilmars, 29.4.2019 kl. 15:51
Mætti biðja um að brennivínið sé í frysti?
Geir Ágústsson, 29.4.2019 kl. 16:11
Það er sitthvað að kæla og frysta. Lítið varið í brennivín sem frýs...
Kolbrún Hilmars, 29.4.2019 kl. 17:47
Hugsaðu þér hvað lífð væri einfalt ef það væri ekkert ÁTVR, heldur bara hilla í bónus og jafnvel kælir frá söluaðila einhvers áfengis þar sem áfengið væri kælt. Hvað myndum við spara marga miljarða á ári?
Ekki má gleyma hvað við hefðum minna til að tuða um :)
Emil (IP-tala skráð) 29.4.2019 kl. 22:34
Emil,
Það sem þú ert að lýsa er: Löglegur neysluvarningur seldur í venjulegum verslunum.
Þetta er fyrirkomulag Dana og Þjóðverja, svo dæmi séu nefnd. Þetta er fyrirkomulagið þar sem yfirvöld treysta fullorðnu fólki. Í Danmörku geta ungmenni frá 16 ára aldri keypt áfengi undir 18% styrkleika og þurfa því ekki að leita á náðir landasala og heimabruggara eða ræna vínskáp foreldra sinna.
Auðvitað á að selja löglegan neysluvarning í hefðbundnum verslunum.
Geir Ágústsson, 30.4.2019 kl. 06:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.