Föstudagur, 15. febrúar 2019
Auðvitað eru skattalækkanir kjarabót
Verkalýðsfélagið Efling leggur til að skattar á launafólk lækki til að bæta kjör þess.
Þetta er að mörgu leyti undarleg tillaga frá blóðrauðu verkalýðsfélagi en hagfræði tillögunnar stenst fullkomlega. Skattar eru kjaraskerðing og því lægri sem þeir eru, því betra.
(Að vísu er líka lagt til að skattar á þá launahæstu hækki eitthvað en þeir peningar munu ekki skila sér í ríkiskassann og hið opinbera ætti því að semja fjárlög sem miðast við lækkandi skattheimtu á laun.)
Það má svo bæta kjör launafólks enn meira með eftirfarandi skattalækkunum:
- Virðisaukaskatta ætti að afnema
- Tolla ætti að afnema
- Eldsneytis- og bifreiðaskatta ætti að afnema
Um leið þarf ríkið auðvitað að fækka verkefnum sínum til að koma til móts við minnkandi skattheimtu. Það gæti hætt að reka heilbrigðis- og menntakerfi, hætt að styrkja landbúnað og hætt að styrkja hitt og þetta. Það gæti selt vegakerfið og lagt niður velferðarkerfið. Góðhjartað fólk kæmi í stað opinberra möppudýra. Einkaaðilar í samkeppnisrekstri kæmu í staðinn fyrir miðstýrt einokunarbatterí.
Ætlar Efling að taka kjarabætur launafólks alla leið?
Efling leggur fram gagntilboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það myndi stórbæta hag fólks á lægri launum að geta fengið húsnæði á betri kjörum. Víða á norðurlöndunum er hægt að fá langtíma leigu á 3 herbergja íbúð á röskan 100-110 þúsund kall.
Hörður (IP-tala skráð) 15.2.2019 kl. 12:01
Þá úti í sveit býst ég við? Ég leigði, frá leigufélagi (almen bolig), 110 fm raðhús í úthverfi í Álaborg á um 150 þús/mánuði, ekkert innifalið.
Það sem gerir húsnæði dýrt er þrennt:
1 - Verðið á landinu undir því
2 - Lagakröfurnar sem þurfti að uppfylla umfram að byggja bara steypukassa með lögnum (t.d. ákvæði um geymslur, stærð svefnherbergisglugga osfrv.)
3 - Eftirspurnin
Í Reykjavík hefur
1 - Land verið naumt skammtað, og verð á því þar með snarhækkað
2 - Lagakröfurnar eru margar og íþyngjandi
3 - Eftirspurnin er gríðarleg
Hvernig á að lækka húsnæðisverð?
1 - Fjölga lóðum, líka í úthverfum
2 - Fækka skilyrðum og lagakröfum (t.d. um lyftur í fjölbýlishúsum)
3 - Mæta eftirspurnininni
Geir Ágústsson, 15.2.2019 kl. 13:30
Það sem gerir húsnæði fyrst og fremst dýrt er ekki neitt af þessu þrennu sem er talið upp hér á undan.
Stærsti kostnaðarliður húsnæðis er fjármagnskostnaður. Hann er mjög hár á Íslandi og þess vegna er húsnæði dýrt.
Þess vegna væri lækkun fjármagnskostnaðar besta kjarabótin fyrir almenning og skilvirkasta mögulega aðgerðin í húsnæðismálum.
Stærstur hluti fjármagnskostnaðar á Íslandi er til kominn af völdum verðtryggingar, þess vegna er mjög rökrétt að afnám hennar sé efst á lista yfir kröfur launþega í yfirstandandi kjaraviðræðum.
Guðmundur Ásgeirsson, 16.2.2019 kl. 16:37
Allt af þessu hefur áhrif á verð.
Fjármagnskostaður hér er kannski 2X hærri en í næsta landi við hliðina - þið vitið, einu af þessum útlöndum sem þykja hér víti til varnaðar.
Allar þessar kröfur um stærð herbergja, lyftur og hvaðeina er svo að bæta auðveldlega 10% við verð húsnæðisins. Framleiðzlukostnaðinn, meina ég. Þetta bætist bara við fjármagnskostnaðinn, svo þða eru þá 20% auka miðað við næsta útland.
Lóðirnar hækkuðu í verði úr ~2 milljónum í 15 milljónir uppúr 2004. Það er 7X, minnst. Gert viljandi. Af Sveitarfélögunum. Það er frá þriðjung og uppí helming af verði. Þetta fer líka í fjármagnskostnað.
Svo það er ekkert skrítið að fólk skuli leigja á 300K á mánuði, á meðan Norsarinn leigir á 150.
Þú gætir haldið sama fjármagnskostnaði, en lækkað verð á húsnæði með því að halda sama lóðaverði og fyrir 2004, og hætta að gera kröfur um lyftur og allskyns sem .5% af þýðinu þarf kannski. Bara það myndi lækka íbúðarverð afar gleðilega.
Ásgrímur Hartmannsson, 16.2.2019 kl. 17:14
Fjármagnskostnaðurinn leggst einmitt líka á þann aukakostnað sem fylgir þeim þáttum sem nefndir eru til sögunnar, svo sem kröfur stærð herbergja, lyftur, bílastæðafjölda, þvottahús og hvaðeina. Lækkun fjármagnskostnaðar myndi því lækka allan þennan kostnað en ekki bara suma undirþætti hans.
Fjármagnskostnaður er stærsti einstaki kostnaðarliðurinn, ekki aðeins í húsnæði heldur beinlínis öllu sem venjulegir neytendur þurfa að borga á lífsleiðinni. Þess vegna væri klækkun og jafnvel afnám fjármagnskostnaðar skilvirkasta og mesta kjarabótin sem völ er á.
Guðmundur Ásgeirsson, 16.2.2019 kl. 17:22
Í "gamla daga" var fjármagnskostnaður lækkaður með því að gera það aðlaðandi að leggja fyrir - að spara! Þetta hafði margt í för með sér:
- Sjóðir sem mátti lána út á hagstæðum vöxtum urðu til
- Fólk dró úr neyslu - fé leitaði úr neyslu og í fjárfestingar
- Fólk átti sparnað sem það gat notað seinna til að kaupa þær fjárfestingar sem sparifé þess fór í að búa til (með öðrum orðum; hafði efni á fjárfestingunum)
En núna sparar enginn og seðla- og viðskiptabankar þurfa að búa til nýja peninga til að lána út til fjárfestinga, sem enginn hefur efni á að kaupa.
Geir Ágústsson, 17.2.2019 kl. 12:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.