Loðdýrabændur af ýmsu tagi

Það tekur andartak að koma á niðurgreiðslu, stuðningi, tollavernd, bótakerfi og skattahlunnindum.

Það tekur augnablik að búa til nýja stöðu opinbers starfsmanns og ráða í hana.

Þessi andartök og augnablik uppskera mikið hrós frá viðeigandi hagsmunasamtökum. Þau hafa hlotið vernd og sérstaka náð fyrir augum ríkisvaldsins. Störf verða til. 

Þegar kemur í ljós að það var óheppilegt að veðsetja skattfé ríkisins í áhættusaman rekstur eða veita sérstök hlunnindi til að halda dauðadæmdum fyrirtækjum á lífi blasir annar veruleiki við.

Það getur tekið mörg ár og jafnvel áratugi að afnema niðurgreiðslu, stuðning, tollavernd, bótakerfi og skattahlunnindi.

Það getur reynst nánast ómögulegt að leggja niður stöðu opinbers starfsmanns og koma verkefnum hans út á hinn frjálsa markað (sé yfirleitt þörf á að vinna þau).

Þessi ár fyllast af kröftugum mótmælum frá viðeigandi hagsmunasamtökum. Þau sjá fram á að gufa upp og lenda á öskuhaugum sögunnar. Mikið er gert úr því að störf hverfa og fólk verður atvinnulaust. Grísirnir svelta til dauða ef gyltan lokar á spenana.

Þessi tregða kerfisins til að minnka, skila aftur eða afnema ætti að vera víti til varnaðar.

Ég hef enga skoðun á loðdýrarækt í sjálfu sér. Ætli stjórnmálamenn sér hins vegar að ausa fé skattgreiðenda í hana óttast ég að það verði að varanlegu fyrirkomulagi, hvað sem líður heimsmarkaðsverði á skinnum. Er þá ekki betra að framleiðendur aðlagist einfaldlega breyttum markaðsaðstæðum strax?


mbl.is Tíminn er að hlaupa frá okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekkert að því að niðurgreiða innlenda matvælaframleiðslu, fyrir innlendan markað, og tolla erlenda, til að vernda þessa innlendu gegn erlendri niðurgreiðslu. Menn verða að éta, og ef enginn er maturinn, af hvaða ástæðu sem það er, þá duga heimsins auðævi ekki til að halda lífi. Svangur maður er tilbúinn til þess að afsala sér öllu sem hann á, fyrir nokkra brauðbita.

Niðurgreiðsla á vörum til útflutnings á þó aldrei að eiga sér stað. Niðurgreiðsla á skinnum til sölu á hrávörumarkaði erlendis er einungis til að greiða niður erlenda fataframleiðslu. Hvers vegna skyldum við greiða niður framleiðslu fataverksmiðju í Kína?

Hilmar (IP-tala skráð) 21.11.2018 kl. 13:51

2 identicon

Erum við Íslendingar ekki að greiða niður póstsendingarkostnað fyrir Kínverja??

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 21.11.2018 kl. 14:43

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Það eru vissulega til þeir sem vilja rándýra íslenska tómata, ræktaða á blússandi niðurgreiðslum, í stað þess að geta fengið ódýra, erlenda og jafnvel lífræna tómata sem hafa fengið sólarljós.

Menn gætu alveg eins sett upp skóverksmiðju sem tjasar saman leðurafgöngum og enda á uppsprengdu verði í búðum þrátt fyrir niðurgreiðslu, í stað þess að kaupa vandaða erlenda skó. Allir þurfa jú að labba!

Geir Ágústsson, 21.11.2018 kl. 14:50

4 identicon

Í fyrsta lagi, s.k. lífræn ræktun er verri umhverfislega en önnur ræktun. Afurðirnar eru smærri og þarfnast meira lands, meira vatns og meiri umhirðu en "venjuleg" ræktun. Umhverfislegir og efnahagslegir kostir eru engir.

Í öðru lagi, ESB, þaðan sem við flytjum megnið af innfluttu grænmeti, tolla inn grænmeti á ESB markað. ESB niðurgreiðir grænmetisframleiðslu á margvíslegan hátt, t.d. með útflutningsbótum. 
Sú niðurgreiðsla skekkir samkeppnisstöðu, og gerir t.d. íslenska grænmetisframleiðslu erfiðara fyrir. Auðvitað eigum við ekki að gefast upp fyrir svona efnahagslegum árásum, jafnvel þó svo að menn geti bent á skammtímahagnað við innflutning.

Við skulum hafa í huga að grænmetisrækt var ekki niðurgreidd á Íslandi, fyrr en tollum var aflétt. Komu niðurgreiðslurnar í stað tollverndar. Það er gott að koma á frjálsu hagkerfi, en hagkerfi er ekki frjálst, ef t.a.m. ESB löndum er gert kleyft að vinna markaði með aðstoð ríkisvaldsins.

Hilmar (IP-tala skráð) 21.11.2018 kl. 15:43

5 identicon

Og eitt í viðbót. Sjávarútvegur á Íslandi er ekki niðurgreiddur, þvert á móti, hann er skattlagður í drep. Þetta er þvert á það sem gerist í OECD löndunum. Sjávarútvegur er niðurgreiddur með gríðarlegum fjármunum. 
Það sem fylgir þessari niðurgreiðslu er sú staðreynd, að íslenskar verslanir selja niðurgreiddar sjávarafurðir, í samkeppni við hina íslensku, sem eru skattlagðar. Við getum ekki tollað innfluttar sjávarafurðir, þar sem tollleysi er skilyrði fyrir aðgang að ESB mörkuðum.

Nú er það svo að íslenskur sjávarútvegur er sá best rekni í víðri veröld. Ef svo væri ekki, allt í volli og í niðurgreiðslum, þá væru náttúrulega sterk rök fyrir því, hjá sumum, að hætta bara niðurgreiðslum og flytja inn fisk. Allt miklu betra.
En hvaðan ættu þjóðartekjur Íslendinga þá að koma?
Við skulum muna að við þurfum að framleiða, til að lifa af. Engin þjóð getur lifað á því að flytja inn vörur.

Hilmar (IP-tala skráð) 21.11.2018 kl. 15:52

6 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Þetta með að það sé næstum því ómögulegt að

leggja niður störf opinberra embættidmanna,

rifjast allat upp fyrir mér, þegar

Hrafn Gunnlaugsson gerði fráveitu á Geysi

og hann fór allt í einu að gjósa aftur við

mikla hrifningu þeirra sem það sáu.

Allt í einu spratt upp eitthvað úr fornöldinni

sem hét "Geysisnefnd".

Gamlir kerfiskallar sem enginn vissi af, en búnir

að vera á nefndarlaunum í fjölda ára.

Hvað heldur þú Geir að margar slíkar nefndir séu 

til á Íslandi..??

Gaman væri að vita svarið við því.

En efast að það sé hægt.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested, 21.11.2018 kl. 18:04

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Af hverju ekki að njóta þess að láta evrópska skattgreiðendur niðurgreiða matvælin sín? Annars legg ég til að við setjum Marel og Össur á opinberan spena. Svona til öryggis. Er viss um að ríkið muni efla nýsköpun og vöruþróun fyrirtækjanna. Ekki nei?

Geir Ágústsson, 21.11.2018 kl. 18:13

8 identicon

Þú getur nú þegar látið evrópska skattgreiðendur greiða niður grænmetið þitt. Þú getur farið í Bónus og Krónuna og keypt þér þriðja og fjórða flokks grænmeti frá Evrópu.
Á sama hátt get ég keypt fyrsta flokks grænmeti framleitt á Íslandi.

Marel og Össur koma niðurgreiðslum ESB á landbúnaðarvörum ekki við á nokkurn hátt, enda vandséð að þessi fyrirtæki þurfi stuðning. 
Hitt er að framleiðsluvörur beggja fyrirtækja eru niðurgreiddar á einn eða annan hátt. Össur framleiðir vörur fyrir heilbrigðisgeirann, og Marel  fyrir sjávarútveg og landbúnað. Framangreint er allt niðurgreitt, nema sjávarútvegur á Íslandi, þar sem sérþekking Marel varð til.

Svo er líka búið um hnúta, að ekki má ríkisstyrkja iðnaðarvöru innan EES, og allir tollasamningar sem ESB og EFTA gera við önnur ríki kveða yfirleitt á um bann við niðurgreiðslu og tollum. 

Em þó svo að Marel og Össur séu dæmi um velheppnuð íslensk fyrirtæki, þá eru þau mun fleiri sem fara á hausinn. Einungis eitt til tvö fyrirtæki af hverjum hundrað plumma sig í hinu vestræna hagkerfi, hin fara á hausinn. 
Nýsköpun er fín og allt það, en að nýsköpun sé eitthvað sem tryggir örugga framleiðslu fyrir framtíðina er algert bull.
Og þegar rætt er um nýsköpunarfyrirtæki sem hlutfall af nýstofnuðum fyrirtækjum, þá eru þau núll komma núll eitthvað af þeim fyrirtækjum sem lifa og dafna.

Hvert einasta hagkerfi þarf á undirstöðugreinum að halda, bæði til að tryggja atvinnu en ekki síður til að tryggja að ekki fari of mikið af gjaldeyri til kaupa á innfluttum vörum.
Orðið matvælaöryggi er síðan eitthvað sem kemur út grænum bólum á alþjóðasinnum (les. ESB sinnum) en engu að síður, þá er matvælaöryggi einn mikilvægasti þáttur hvers þjóðfélags. Hrunið á Íslandi er besta dæmiðum það, þegar við höfðum aðgang að innlendum matvælum en ekki gjaldeyri til að flytja þær vörur inn.

Hilmar (IP-tala skráð) 21.11.2018 kl. 19:18

9 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Hilmar er með þetta.

Þarf að segja eitthvað meira...??

Sigurður Kristján Hjaltested, 21.11.2018 kl. 20:27

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Var til matur áður en hið íslenska ríkisvald var fullmótað?

Geir Ágústsson, 21.11.2018 kl. 21:17

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Íslenskt grænmeti er mestan part drasl. Tómatarnir eru bragðlausir og vatnsósa. Salatið lint og ólystugt og bragðlaust ofan í kaupið. Svona plöntur þurfa nefnilega sól til að vaxa almennilega og hana er oftast ekki að finna hér.

Maður fær einfaldlega kjánahroll þegar farið er að tala um þetta eins og einhverja gæðavöru. Það stenst engan samanburð við það sem fá má erlendis.

Hér er hægt að rækta gulrætur, rófur, kartöflur og annað slíkt sem vex undir yfirborði jarðar. Til þess þarf ekki niðurgreitt hitaveituvatn og niðurgreitt rafmagn.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.11.2018 kl. 22:34

12 identicon

Vá... ég hef ekki séð íslenskt dissað jafn mikið og þegar Ísland átti að vera ónýtt, og eina leiðin til að draga fram lífið hér, væri að ganga í ESB.

En íslenskt grænmeti er jafn fjarri því að vera ónýtt, og að það sé góð hugmynd að ganga í ESB.
Íslenskt grænmeti er mun betra en þetta innflutta, og þess utan, mun heilbrigðara þar sem hér er ekki notuð þessi ósköp af eitri og lyfjum sem notuð eru í risabúum Evrópu.

Vissulega er hægt að fá góða tómata á Ítalíu, en þeir tómatar eru ekki fluttir inn til Íslands. Við fáum einungis þriðja og fjórða flokk, jafnvel þann fimmta, vegna verðsins. 

Leitt að ESB fólk skuli vera með skemmda bragðlauka.

Hilmar (IP-tala skráð) 21.11.2018 kl. 23:52

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Eitthvað hafa frægu jarðaberin í Costco farið framhjá sumum.

En málið er ekki íslenskt vs erlent grænmeti. Málið er að vera ekki að blanda yfirvöldum, lögreglu, skattgreiðendum og embættismönnum í frjáls samskipti og viðskipti neytenda og framleiðenda.

Sá sem getur ekki framleitt á samkeppnishæfu verði (óháð því hvað erlend yfirvöld gera til að halda uppi sínum óhagkvæmu framleiðslugreinum) eiga einfaldlega að finna sér eitthvað annað að gera, eða finna neytendur sem vilja borga meira fyrir sama hlutinn.

Það getur vel verið að menn líti mjög upp til stjórnmálamanna - telja visku þeirra og dómgreind eiga að trompa annað - en ég er ekki í þeim hópi og er frekar tortrygginn þegar stjórnmálamenn handvelja greinar til að dæla fé skattgreiðenda í, hvort sem að er loðdýrarækt, fiskeldi, rækjueldi eða eitthvað annað.

Geir Ágústsson, 22.11.2018 kl. 08:24

14 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

... og tómatarnir í Costco, sem eru svo sannarlega ekkert slor.

Hvernig sumum tekst að tengja alla hluti við Evrópusambandið er svo rannsóknarefni í sjálfu sér, líklega fyrir sálfræðinga. Þetta er farið að minna á einhvers konar trúarbrögð þar sem ESB er djöfullinn og allir sem eru ekki sammála manni, sama um hvað, eru erindrekar hans.

Þorsteinn Siglaugsson, 22.11.2018 kl. 09:02

15 identicon

Jarðarberin í Costco, já. Gæti verið að þau hafi farið framhjá einhverjum, en ég efa það.
Kannski það hafi farið framhjá einhverjum, að allar lágvöruverðsverslanir á Íslandi bjóða og buðu áður en Costco kom til skjalanna, nákvæmlega sömu jarðarber og Costo.
Hafa jarðarberin í Costoco eitthvað með umræðu um grænmeti og niðurgreiðslur á Íslandi að gera?
Nei. 

Reyndar verður að taka fram, að mér skilst að jarðarberin í Costco hafi hækkað um tugi prósenta, og að algengt sé að þau séu meira og minna mygluð, sem er ábending um að grænmeti og ávextir hafa ákveðinn líftíma, og að salan og tíðni innflutnings til Íslands geri það að verkum að varan er nærri enda líftíma þegar hún kemur hingað. Sem þýðir aftur, að gott er að geta keypt íslenska gæðaafurð, ferska frá býli.
Og, að innkoma Costco og meint lægri verðlagning var bara þessi venjulega niðurgreiðsla á vöruverði sem gjarnan fylgir nýrri verslun sem vill skapa sér pláss á markaði. Ekkert nýtt, og gerist aftur með innkomu næstu verslunar, get lofað því

En spurningin sem vaknar við lestur síðustu athugasemda er sú, af hverju að velja jarðarber og verðstríð verslana á innfluttri vöru sem andstöðu við niðurgreiðslu á grænmeti á Íslandi?

Hilmar (IP-tala skráð) 22.11.2018 kl. 15:22

16 Smámynd: Geir Ágústsson

Af hverju mega neytendur ekki bara sjálfir velja hvað þeir niðurgreiða (borga hærra verð fyrir miðað við sambærilegar vörur)?

Geir Ágústsson, 22.11.2018 kl. 15:34

17 identicon

Af hverju skyldu ESB lönd hafa leyfi til þess að eyðileggja íslenska framleiðslu, með óhóflegum niðurgreiðslum?
Það voru nú einu sinni íslenskir garðyrkjubændur sem komu grænmeti á borð Íslendinga, og í raun bjuggu til markaðinn. 

Þess utan, þá eru það ekki neytendur sem ráða vöruúrvali í verslunum. Það eru verslanirnar sjálfar. Ódýr, niðurgreidd og oft mjög léleg vara frá Evrópu gefur meira svigrúm til álagningar en íslensk vara, og þegar litið er til fleiri þátta, eins og gríðarsterkar heildsölur, á íslenska varan ekki séns.

Eina undantekningin frá þessu eru agúrkur og kartöflur.
Megin ástæðan fyrir því er náttúrulega að ódýrar evrópskar agúrkur eru óætar, og sífellt minni framleiðsla á kartöflum, gerir það að verkum að vonlaust er að finna evrópskar kartöflur sem eru næstum því ætar, á viðráðanlegu verði.
Fyrsta flokks grænmeti frá Evrópu, á við tómata og papriku, er að sama skapi of dýr fyrir íslenska verslun. Þar með er okkur skapað að éta þriðja, fjórða og fimmta flokk, af niðurgreiddu rusli.

En meginmálið er þetta, íslensk framleiðsla er góð, hún sparar gjaldeyri og skapar störf. Það er svívrða ef erlendum framleiðendum er gert kleyft að losna við íslenska samkeppni með skattfé erlendra borgara. Sérstaklega þegar verið er að útrýma vandaðri og góðri innlendri framleiðslu, í skiptum fyrir mun verri vöru, þar sem sýklalyfjum og skordýraeitri er beitt ótæpilega.

Hilmar (IP-tala skráð) 22.11.2018 kl. 17:00

18 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta með óætt og ætt: Það hlýtur að vera undir neytendum komið.

En að telja það spara gjaldeyri að dæla fé í innlenda framleiðslu, það er gildra sem margir hafa fallið í. En það er efni í annan pistil. Sem hugsanatilraun má nefna, að Íslendingar flytja inn bíla, skó, nærbuxur, kúlupenna og farsíma. Þetta framleiða fyrirtæki í allskyns löndum og hafa valið framleiðslulönd og -borgir af kostgæfni til að slá út samkeppnisaðila sína. Íslendingar velja svo bara það sem er hagkvæmast fyrir þá.

Geir Ágústsson, 22.11.2018 kl. 20:32

19 identicon

Það er nú einfaldlega rangt að það sé verið að dæla fé í niðurgreiðslur á ylrækt. Sennilega í kringum 200-250 miljónir í ár, auk þess sem dreifing raforku er niðurgreidd um svipaðar upphæðir. Þess ber að geta að garðyrkjubændur njóta ekki sambærilegra kjara og aðrir stórkaupendur á orku, og að ríkis á dreifinguna. Tapið er því í raun ekkert.

Annað mál er það, að grænmeti var ekki niðurgreitt fyrir tollaniðurfellingu. Tollarnir voru vernd gegn óeðlilegri niðurgreiðslu ESB.
Ég held að það væri farsælast að hvefa aftur til fyrri tíma, og leggja á tolla á ný, og hætta niðurgreiðslum á Íslandi. Þannig fengju innlendir aðilar vernd fyrir niðurgreiðslupólitík ESB. Þá fyrst geta kaupendur ákvarðað hvort þeir vilja, tollað drasl frá evrópu, eða íslenska gæðaframleiðslu. 
Með þessu spörum við gjaldeyri, sem sumir virðast ekki skilja að er ekki endalaus, verndum innlend störf, sem skila aftur af sér sköttum, sem eru nauðsynlegir, og tryggjum matvælaöryggi, sem í síbreytilegum heimi er ekki sjálfgefin.

Og í framhaldi af þessu, þá eru kúlupennar, bílar, sokkar og farsímar, ekki niðurgreiddir erlendis, og samanburðurinn því út úr kú.

Hilmar (IP-tala skráð) 22.11.2018 kl. 21:30

20 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er kannski ljótt að segja það en svona tungutak minnir á það úr munni Donald Trump þegar hann brjálast út í fyrirtæki sem senda framleiðslu til landa þar sem vinnuafl er ódýrara, náttúrulegar aðstæður betri, aðföng hagkvæmari í innkaupum eða skattar lægri. Hann vill að bílar séu framleiddir í Bandaríkjunum til að skapa störf, spara gjaldeyri og tryggja sér atkvæði. Hann vill ekki allan þennan innflutning. 

Og ekki er Trump hrósað fyrir djúpa þekkingu á lögmálum hagfræðinnar.

En gott og vel, af pólitískri nauðsyn er núna búið að vefja íslenska garðyrkjubændur í opinbert stuðningsnet og þaðan komast þeir kannski ekki lifandi (nema íslenskum neytendum detti í hug að vilja borga meira). Er þá kannski litlu fórnað með því að verja hina íslensku tómata. Verra er að allir lamba- og beljubændur eru líka flæktir í vefinn og það er stór hópur og þeirra kerfi kostar fúlgur.

Geir Ágústsson, 23.11.2018 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband