Mánudagur, 22. október 2018
Enginn píndur til að skrifa
Sumir virðast hafa miklar áhyggjur af kjörum rithöfunda. Þó er enginn að pína neinn til að starfa sem rithöfundur, og nóg er framboðið miðað við eftirspurnina (ólíkt því sem á við um t.d. smiði og rafvirkja um þessar mundir). Fólk virðist vilja skrifa bækur, söngva og texta almennt án þess að skattgreiðendur þurfi að blæða fyrir uppihaldið og efniskostnaðinn. Sumir hafa samt fengið þá einkennilegu hugmynd að vilja lifa af ritstörfum einum saman án þess að geta selt nægilega margar bækur, og það sem er enn ótrúlegra: Hafa sannfært aðra um að það sé góð hugmynd.
Ritstörf þeirra sem geta ekki lifað af þeim eiga að flokkast sem áhugamál sömu rithöfunda. Rithöfundar eins og Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson, sem selja bílfarma af bókum á hverju ári, eru í hefðbundnum launavinnum samhliða ritstörfum. Ekki man ég eftir að hafa heyrt þau heimta fé skattgreiðenda til að fjármagna áhugamál sín. Þau eru til fyrirmyndar. Betlandi rithöfundar á opinberri framfærslu eru það ekki.
Ef einhver vill skrifa bók er bara hægt að setjast niður í frítíma sínum og byrja skrifa. Það á ekki að vera vandamál annarra. Bókina má svo gefa út hjá forlagi eða á eigin spýtur með aðstoð ýmiss konar fyrirtækja, t.d. Amazon.
Menn ættu kannski frekar að hafa áhyggjur af framfærslu þeirra skattgreiðenda sem þurfa að borga fyrir heimtufrekjuna og listamannabæturnar.
60 þúsund á mánuði fyrir bókaskrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:12 | Facebook
Athugasemdir
Framboð og eftirspurn, það er málið.
Það er minnkandi eftirspurn eftir bókum, og sú þróun heldur áfram. Henni verður ekki snúið við, þó svo að bækur verði 500 krónum ódýrari. Ungt fólk er hætt að lesa bækur, og eldra fólk les mun minna en það gerði. Ekki heimfæranlegt upp á alla, en minnkandi sala á bókum er bara vísir sem ekki verður horft framhjá.
Bóksalar kenna um hækkun á vsk úr 7% í 11%.
Það er brandari. Ef fólk ætlar að kaupa bók á annað borð, þá skiptir það nákvæmlega engu hvort hún er 150-200 krónum dýrari eða ódýrari.
Það kemur heldur ekki til með að skipta máli, þó svo að bókin verði 500 kr ódýrari.
Það er þetta með símaskrána. Fólk hætti að taka með sér símaskrá, þó svo að hún væri ókeypis, af því að það var engin þörf fyrir hana.
Ung fólk hlustar gjarnan á hljóðbækur. Reyndar mjög mikið. Og það eru bækur sem það hleður niður af netinu, ekki alltaf löglega. Og það eru yfirleitt aldrei íslenskar bækur.
Staðreyndin er nefnilega sú, að íslenskar bókmenntir hafa aldrei skipt ungt fólk jafn litlu máli. Ungt fólk er reiprennandi í ensku, og þarf enga þýðendur sem milliliði. Þetta fólk kynnist oft ágætis bókmenntum, sem skara langt fram úr íslenskum, sem oft eru kauðslegar, jafnvel vandræðalega lélegar, og eiga lítið erindi við hugarheim fólks í dag.
Þá er það náttúrulega þessi rótgróna innræting sósíalista sem fer fyrir brjóstið á ungu fólki. Já, rithöfundar á Íslandi eru oftast nær sósíalistar, enda er meginmarkmið þeirra að tryggja sér framfærslu á skattpeningum.
Hilmar (IP-tala skráð) 22.10.2018 kl. 11:12
Það er rétt að unga fólkið nennir ekki að lesa. Bækur eru einfaldlega komnar í harðari samkeppni en nokkru sinni við tölvuleiki, Netflix, Youtube og annað slíkt. Krakkarnir nenna ekki einu sinni í bíó lengur og þeir horfa ekki á neitt í línulegri dagskrá.
Þó kom svolítil viðspyrna þegar Harry Potter bækurnar voru upp á sitt besta, og margir krakkar héldu áfram að lesa eftir þær.
Stelpurnar eru kannski duglegri en strákarnir að lesa. Þær eru að stinga strákana af á öllum skólastigum. Strákar eiga jafnvel erfitt með að lesa í gegnum orðadæmi í stærðfræði svo lélegur lesskilningur er farinn að bitna á fleiri fögum en bara tungumálunum.
Það er engum til gagns að framleiða meira af einhverju sem enginn hefur áhuga á. Ég hætti að lesa nýjar barnabækur fyrir löngu - þær voru allar rusl.
Vandaðar þýðingar á hrífandi lesefni er eina vonin, en það þarf að vera gott lesefni, ekki fjöldaframleidd ríkisafurð skrifuð af fólki sem hefur ekki næga hæfileika til að þéna á eigin forsendum.
Geir Ágústsson, 22.10.2018 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.