Tölvuteikning frá borg við Miðjarðarhafið

Þegar stjórnmálamenn vilja blása í risastór útgjöld á kostnað skattgreiðenda til að byggja varanlega minnisvarða um sjálfa sig er gjarnan látið gera tölvuteikningar.

Þessar tölvuteikningar sýna heiðskýran himinn, logn og sólskin. Maður fær yl um allan líkamann og ímyndar sér að með hinum risavöxnu útgjöldum muni jafnvel veðrið sjálft batna.

En höfum eitt á hreinu: Það er aldrei nein sæla að bíða í biðskýli á Íslandi. Veðráttan er einfaldlega of breytileg. Það er líka oft erfitt að komast að biðskýlunum - tugir og jafnvel hundruð metra af ísilögðum gangstéttum, söltuðum vegköntum og votum túnbreiðum bíða margra farþega almenningssamganga á Íslandi.

Ætli borgarstarfsmenn, með aðgang að bílakjallara undir vinnustað sínum, gleymi stundum raunveruleikanum?


mbl.is Kostar heimili 1-2 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Raunveruleikinn er sá að á höfuðborgarsvæðinu eru þeir dagar á ári þar sem veður gerir það mjög erfitt að nota strætó eru teljandi á fingrunum. Reyndar gegnur borgalínuverkefnið meðal annars út á það að gera biðskýlin betri það er vera með einhvers konar upphitaðar "lestarstöðvar" við stofnbrautirnar og að vera með styttri tíma milli vagna og þar með styttri biðtíma. Þar er því einmitt verið að taka á þessum veðurfarsástæðum.

Ef byggðin er þéttari er hægt að veita betri þjónustu varðandi snjómokstur á göngustígum fyrir sama hlutfall af tekjum borgarinnar því þá verða færri metrar á hvern borgarbúa af slíkum stígum. 

Það er einmitt dreifing byggðarinnar með sinni úthverfavæðngu sem skapar vandamál í samgöngum og gerir bílaeign að félagslegum aðgöngumiða að borginni. Það er því mjög nauðsynlegt að bæta þónustu almenningssamgangna þannig að bíllaus lífstíll sé raunhæfur kostur fyrir sem flesta. Með öðrum orðum það þarf að skipuleggja bílinn út sem nauðsyn.

Sigurður M Grétarsson, 8.1.2018 kl. 08:17

2 identicon

Upphituð biðskýli bæta ekki leiðina frá heimilum, vinnustöðum, verslunum afþreyingasvæðum og öðrum þeim þjónustustöðum sem fólk þarf á að halda, að þessum skýlum. Borgarlína mun aldrei tengja nógu stórt hlutfall borgarbúa til að glóra sé í því, nema að byggð sé ný borg frá grunni. Hér er verið að reyna að sauma þúsund lappir á einn loðfýl og treysta því að úr verði hókus pókus.

Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.1.2018 kl. 08:43

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Með þéttingu byggðar nálægt borgarlínunni er einmitt verið að tryggja sem flestum göngufæri við hana. En það verða líka minni vagnar sem aka fólki að biðstöðvum borgarlínunnar frá þeim hverfun sem eru ekki í göngufæri við hana.

Sigurður M Grétarsson, 8.1.2018 kl. 09:01

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvar á unga fólkið að búa? Það hefur ekki efni á þéttingarhúsnæðinu og dreifist nú um suðvesturhorn landsins í leit að ódýrara húsnæði og daggæslu án margra ára biðlista. Og þarf frekar á bíl nú en nokkurn tímann.

Geir Ágústsson, 8.1.2018 kl. 09:32

5 identicon

Þessi hugmynd er andvana fædd eins og allt annað sem kemur frá bjá... öh hálfdrættingunum í meirihluta borgarstjórnar. Og eins og Frosti Sigurjónsson og margir aðrir hafa sterklega gefið í skyn, þá verður taprekstur á þessu um alla eilífð eða þangað til því verður hent á haugana.

Það var byggð borgarlína (Metro) í Kaupmannahöfn snemma á þessari öld þrátt fyrir að þar keyra strætisvagnar á 2ja mínútna fresti og það gat borgað sig því að þar voru strætóarnir yfirleitt troðfullir á annatímum og vel nýttir á öllum öðrum tímum, (sömu sögu er hægt að segja um S-lestirnarsem keyra í Stór-Kaupmannahöfn) og mikil umferðaþrengsli, svo að metróarnir urðu líka vel nýttir.

Á Íslandi eru mörgum sinni fleiri einkabílar á mann en í Kaupmannahöfn eða Oslo og strætisvagnar yfirleitt galtómir. Það borgar sig engan veginn að byggja þessa borgarlínu í Reykjavík og það verður eins og með Landeyjarhöfn, sem var handvömm Samfylkingarinnar að enginn sem hafði vit á svona verkefnum var spurður álits, ef það hefði verið gert þá hefði höfnin verið byggð vestar en hún er nú.

Það sem vinstraliðið skilur ekki í sambandi við almenningssamgöngur, að þær geta aldrei keppt við einkabílismann. Það er enginn að fara að selja bílinn sinn til að geta tekið borgarlínuna eða strætó. Samt sem áður er góð strætóþjónusta bráðnauðsynleg (þótt hún verði alltaf niðurgreidd) fyrir þá sem ekki hafa afnot af bíl. En 150 milljarða borgarlína með eilífum taprekstri er ekki það sem ég sem Reykvíkingur vil sjá. Andvana fædd hugmynd.

Pétur D. (IP-tala skráð) 8.1.2018 kl. 12:25

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Það sem er mér óskiljanlegt er þetta:

Borgin er greinilega troðfull af fólki sem er tilbúið að eyða töluverðu fé til að komast á milli staða. 

Ódýrara mánaðarkortið kostar 12300 kr á mánuði og er í flestum tilvikum notað til að komast frá A til B og til baka, einu sinni á hverjum virkum degi, og kannski nýtt í 5-10 ferðir þar fyrir utan. Svo segjum 50 ferðir á viku, eða ca. 250 kr. á ferð. Ofan á það koma skattheimtur á ferðalanganna sem eru svo notaðar til að niðurgreiða ferðalög þeirra. Segjum því að túrinn kosti farþegann um 500 kr. að meðaltali.

Að fá 500 kr. fyrir fyrirframákveðna keyrslu alla virka daga, og einhverja skreppinga þess á milli, hlýtur að vera gríðarlegt viðskiptatækifæri fyrir einkaaðila, eða hvað?

Flugfélög eru að setja í notkun heilu farþegaþoturnar til að reyna koma fólki frá einhverri borginni til annarrar, í blússandi skattheimtu af rekstri þeirra, blússandi verðsamkeppni, í hafsjó af rándýrum öryggiskröfum og lendingarleyfum, með fullt af rándýrum áhöfnum, og tekst bara ljómandi vel upp.

En að keyra sama manninum frá Grafarvogi og á Höfðatorg og til baka, innanbæjar, með fyrirframákveðinni dagskrá marga mánuði fram í tímann - nei hérna þarf ríkisvald, niðurgreiðslur og tugmilljarða fjárfestingar!

Geir Ágústsson, 8.1.2018 kl. 12:38

7 identicon

Ef það væri bara svo einfalt að hægt væri að vera með strætó sem gengur bara frá Grafarvogi og á Höfðatorg og til baka. Að A til B væri bara frá Grafarvogi og á Höfðatorg og til baka, Breiðholt og á Höfðatorg og til baka, engin stopp og bara ein stoppistöð í hverju hverfi. Fáir vagnar og litlir, takmarkað sætaframboð og allt selt fyrirfram með blússandi hagnaði. Það er ástæða fyrir því að ekki er flogið héðan á alla flugvelli í Evrópu, ekki einu sinni á alla flugvelli á Íslandi.

"Að fá 500 kr. fyrir fyrirframákveðna keyrslu alla virka daga, og einhverja skreppinga þess á milli, hlýtur að vera gríðarlegt viðskiptatækifæri fyrir einkaaðila, eða hvað?" varla ef menn eru að fara 50 ferðir á viku, nota strætó rúmlega 7 sinnum á dag alla daga ársins eins og í dæmi Geirs.

Það verður ætíð deiluefni hvort einkageirinn eigi að reka almenningssamgöngur sem hagnaðardrifið fyrirtæki eða þjónustustofnanir íbúanna sem þjónustu við íbúana. Einkageirinn er æstur og tilbúinn til að taka yfir þær leiðir sem skila öruggum hagnaði, draga úr þjónustu og hámarka gjaldtöku. En hvort það sé íbúunum í hag er nokkuð augljóst mál fyrir flesta.

Gústi (IP-tala skráð) 8.1.2018 kl. 13:33

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Einkaaðilar keppast um að bjóða upp á 4G fjarskiptakerfi sem víðast á landinu. Geta þeir ekki komið fólki á milli hverfa innanbæjar?

Þeir keppast um að fljúga á milli borga, og vona að þeir nái a.m.k. 70-80% sætanýtingu sem er þó engin vissa í. Geta þeir ekki komið fólki á milli hverfa innanbæjar?

Það er hægt að fara í rútuferðir í allskyns eyðifirði og til að skoða hin ýmsu náttúrusvæði um allt Ísland, eins oft og eftirspurn leyfir. Er ekki hægt að safna saman 20 hræðum að morgni og koma heim að kveldi án aðkomu sveitarstjórna?

Einkaaðilar standa nú þegar í miklu flóknari, miklu áhættusamari og miklu fjárfrekari starfsemi en rekstur fyrirsjáanlegra bifreiða um malbikaðar götur. 

Borgaryfirvöld reka ekki slíkt út á gjafmildi. Víða eru borgaryfirvöld beinlínis í stríði við einkaaðila sem vilja gera betur. 

Nei, yfirvöld eru hér bara að reyna halda spóni í aski sínum, sem hefur fyrst og fremst pólitíska kosti en ekki rekstrarlega. 

Geir Ágústsson, 8.1.2018 kl. 13:52

9 identicon

Einkaaðilar keppast um að bjóða upp á 4G fjarskiptakerfi sem víðast á landinu, en ekki allstaðar. Þeir keppast um að fljúga á milli fárra stórra borga. Geta þeir ekki komið fólki á milli hverfa innanbæjar? Jú, stundum og stundum ekki milli sumra stærstu hverfana ef það skilar hagnaði. 

Hvað hægt er að gera og hvað gagnast íbúunum best eru tveir ólíkir hlutir.

Öll þjónusta ríkis og borgar við íbúana hefur fyrst og fremst pólitíska kosti en ekki rekstrarlega. Heilbrigðiskerfið, skólakerfið, lögreglan, gatnakerfið, o.s.frv er ekki rekið á rekstrarlegum forsendum, það er ekki skoðað fyrst hvort hagnaður sé af því að hjúkra þér eða mennta börnin þín. Það er fyrst og fremst pólitík sem ræður því hvaða þjónustu þú færð. Vita það ekki allir?

Gústi (IP-tala skráð) 8.1.2018 kl. 15:04

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Þurfa skólar, lögregla, Vegagerðin, sjúkrahúsin og heilsugæslurnar ekki að framkvæma ákveðin verkefni fyrir ákveðið fé?

Það sem helst aðskilur opinberan rekstur og einkarekstur er sá möguleiki fyrir einkareksturinn að fara lóðbeint á hausinn og búa til pláss fyrir aðra sem leysa verkefnin betur.

Það er stórfurðulegt að sjá menn halda því fram að það sé til eftirspurn hjá borgandi kúnnum sem er óuppfyllt. 

Geir Ágústsson, 8.1.2018 kl. 16:55

11 identicon

Það er stórfurðulegt að sjá menn halda því fram að það sé til eftirspurn hjá borgandi kúnnum sem er óuppfyllt.--- Átt þú við að Icelandair sé tilbúið til að uppfylla eftirspurn mína, borgandi kúnnanum, eftir 5000 kr. einkaflugi til Feneyja? Óþolandi að þurfa að millilenda og taka tengiflug innan um aðra ferðalanga ef eftirspurn er eftir hinu og ódýrt og einfalt að fá hana uppfyllta.

Það sem helst aðskilur opinberan rekstur og einkarekstur er sá möguleiki fyrir einkareksturinn að fara lóðbeint á hausinn og búa til pláss fyrir aðra sem leysa verkefnin betur.--- Möguleiki einkarekstrar á að fara lóðbeint á hausinn er engin trygging fyrir því að þeir leysi verkefnin betur en hið opinbera. Möguleiki einkarekstrar á að fara lóðbeint á hausinn er heldur engin trygging fyrir því að aðrir einkaaðilar spretti þá upp og leysi verkefnin betur. Þegar kreppa skall á og bankar og fyrirtæki fóru lóðbeint á hausinn þurfti opinberan rekstur til að leysa verkefnin. Það vill nefnilega loða við einkareksturinn að hagnaður hverfur í vasa einkaaðila en tapinu er velt á samborgarana.

Gústi (IP-tala skráð) 8.1.2018 kl. 17:39

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er að velta fyrir mér hvar í heiminum 150.000 manna bæir væru keð lestarkerfi á borð við þetta. Þetta er rosalegur sperringur. Hef ekki heyrt hvað kostar að reka þetta. Líklega enga smáaura.

Menn hugsuðu lítið út í slíkt þegar Harpan var byggð. Aðeins 6 milljarða átti hún að kosta en fór helming yfir og reksturinn kosta það sama og húsið á sex árum. Allt úr vasa borgaranna.

Rétt athugað hjá þér að þessi mynd gæti í besta falli verið raunveruleg í kaliforníu. Í dumbung og sudda reykjavíkur 8-9 mánuði á ári mun þetta líta út eins og draugur frá kommúnistatímanum í austur Berlín. Blygðunarlaus sölumennska og staðreyndafölsun.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.1.2018 kl. 17:51

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Gústi,

Að þú bendir á björgun banka á kostnað skattgreiðenda er einmitt frábært dæmi um ríkisafskipti. 

Ríkið er einmitt búið að bjarga framkvæmdum við Vaðlaheiðagöng. Hörpunni var bjargað af ríkinu. Gömlu ríkisbönkunum var ítrekað bjargað. Íbúðarlánasjóði er reglulega bjargað.

Á hinn bóginn sjá skattgreiðendur aldrei reikninga þegar matvöruverslanir, fatahreinsanir, bifreiðaumboð eða flutningafyrirtæki tapa fé og fara jafnvel á hausinn. Um slík fyrirtæki gilda almennar leikreglur en ekki sérstakir lagabálkar sem eiga að takmarka neikvæð áhrif ríkisafskipta (með enn meiri ríkisafskiptum).

Jón Steinar,

Saga borgarlínunnar svokölluðu í Árósum í Danmörku er víti til varnaðar. 

Geir Ágústsson, 9.1.2018 kl. 07:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband