Miðvikudagur, 15. nóvember 2017
Leggjum niður Seðlabanka Íslands
Það er vandasamt verk að sitja í stól alræðisherrans sem reynir að stilla saman hagkerfi, samfélag, gengi gjaldmiðils, inn- og útflutning, verðlagsþróun, kaupmátt, vexti, sparnað, fjárfestingu, fjármál ríkisins, kjarasamninga, fjárfestingar, skuldsetningu, tilhneigingu fólks til að spara eða eyða og ákvarðanir loforðaglaðra stjórnmálamanna.
Það er í raun ekki hægt.
Á frjálsum markaði er það verðlagið sem sendir skilaboð til hinna og þessara um hvað eigi að gera. Ef bananar hækka í verði, t.d. vegna uppskerubrests, getur fólk keypt epli í staðinn á meðan þeir sem geta ekki án banana verið borga uppsett verð og fá sitt. Ef skattar á vinnu bifvélavirkja hækka og gera þá óviðráðanlega dýra reynir fólk að kaupa þjónustu handlaginna frænda í staðinn.
Í Sovétríkjunum kvörtuðu opinberir embættismenn yfir álaginu sem fylgdi því að ákveða verð á þúsundum mismunandi hluta. Þeir reyndu sitt besta. Alltaf mynduðust samt biðraðir, skortur var á öllu nema vodka (enda verðlagður hátt) og enginn átti neitt.
Í Seðlabanka Íslands finnst mönnum vera mikið að gera hjá sér að ákveða verð á peningum, sem hefur um leið áhrif á verð á öllu öðru. Alltaf þarf að vera á varðbergi að grípa inn í, kaupa og selja gjaldeyri, setja reglur, stunda eftirlit og lægja óánægjuraddir þeirra sem vilja hærri eða lægri vexti.
Ríkið á ekki að standa í framleiðslu og verðlagningu á peningum frekar en sementi og ullarsokkum. Það á að gefa notkun og framleiðslu peninga frjálsa. Peningar eiga að keppa í trausti en ekki því hversu mikið bolmagn skattgreiðendur hafa til að bjarga málum þegar allt er komið í bál og brand.
Í Zimbabwe fyrir nokkrum árum geisaði verðbólga upp á mörgum hundruð prósent á ári. Þar gáfust menn upp á því að gefa út gjaldmiðla og þar notar almenningur og fyrirtæki nú marga mismunandi gjaldmiðla. Af þessu mál læra.
Er eftir einhverju að bíða?
Minni hagvöxtur og meiri verðbólga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.