Kæru Íslendingar, ekki safna skuldum!

Árið 2007 er komið aftur á Íslandi segja sumir. Það er hægt að benda á margt sem styður slíka fullyrðingu. Einkaneyslan er komin á sama stað. Skuldir heimila eru byrjaðar að aukast eftir mörg ár af niðurgreiðslum. Nýir bílar seljast sem aldrei fyrr, sem og heitapottar og annað sem telst ekki til brýnustu nauðsynja. Byggingakranarnir gnæfa yfir mörgum svæðum. 

Ég vona að íslenskur almenningur fari samt varlega. Við lifum í brothættum heimi. Eitthvað eldfjall gæti gosið og stöðvað ferðamannastrauminn. Einhver fisktegundin gæti ákveðið að synda yfir í aðra landhelgi. Einhver banki í Bandaríkjunum eða Ítalíu eða annars staðar gæti farið á hliðina og ýtt við spilaborginni sem fjármálakerfi heimsins er (flóra seðlabanka sem prenta peninga í miklu magni og vona það besta). 

Ekki bætir úr skák að ríkisvaldið á Íslandi spennir bogann í botn. Vissulega hafa skuldir verið greiddar niður undanfarin ár en ekki nógu hratt. Skattar eru enn í hæstu hæðum eftir seinustu vinstristjórn. Fjölmörg fyrirtæki í áhættusömum rekstri eru í eigu hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga. Hið opinbera stendur undir gríðarlegum fjölda fólks, bæði opinberra starfsmanna (með tilheyrandi lífeyrisskuldbindingum) og bótaþegum (bæði þeim sem lifa algjörlega á bótum og að hluta). 

Það má mjög lítið út af bregða til að valda mjög mörgum miklum sársauka og óþægindum!

En á fólk að spara og leggja fyrir? Hár fjármagnstekjuskattur og lágir raunvextir eru ekki beinlínis hvetjandi þættir til að auka sparnað. Gjalmiðillinn er líka frekar óstöðugur til lengri tíma. Stjórnmálamenn munu ekki hika við að gengisfella krónuna ef það hjálpar þeirra pólitíska málstað. 

Á fólk að fjárfesta í einhverju sem heldur verðgildi sínu þokkalega? Já, en verðlag á hlutum eins og húsnæði og hlutabréfum er nú þegar í bóluástandi og því frekar hæpnar fjárfestingar. 

Það væri kannski ráð að sanka að sér traustum erlendum gjaldmiðlum, eins og svissneska frankanum, og setja í bankahólf. Gull og aðrir góðmálmar eru líka alltaf eftirsóttir. Hið sama má segja um margar gerðir Rolex-úra.

Ég vil hvetja alla sem geta til að bæta við sig verðmætaskapandi þjálfun og þekkingu sem bætir möguleikana til að afla tekna ef hagkerfið tekur hikstakast. Það má t.d. taka námskeið á netinu fyrir lítinn pening, svo dæmi sé tekið. 

Ég vil hvetja alla sem eru með neysluskuldir, yfirdrátt, bílalán og annað slíkt til að borga niður mínusinn. 

Ekki endurnýja bílinn ef hann er þokkalegur. Ekki fara í dýrasta mögulega fríið. Keyptu notað. Fáðu lánað eða gefins. Góði hirðinn er að springa. Verslaðu þar! 

En sama hvað þá vona ég að íslenskur almenningur fari sér hægt í hinu meinta góðæri. Stjórnmálamenn tala vissulega eins og það sé svigrúm til gríðarlegra útgjalda, en látum ekki blekkjast. 


mbl.is Meiri einkaneysla á mann en árið 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bankahólf koma líka að gagni til þess að varðveita verðmæta muni í smærri kantinum, sérstaklega þá sem yrðu aldrei bættir eftir innbrot.  Svo sem erfðagripi og skartgripi af ýmsu tagi.  Það er súrt að geta ekki haft uppáhaldshlutina sína í kringum sig - en þannig er nú bara Ísland í dag.

Kolbrún Hilmars, 11.11.2017 kl. 18:09

2 identicon

Að greiða niður yfirdráttarlán er hið besta hlutabréf.                                                                               

Hörður (IP-tala skráð) 12.11.2017 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband