Laugardagur, 14. október 2017
Hver hagnast mest á íslenskri vinstristefnu?
Eftir mikla umhugsun hef ég komist að því hver græðir mest á íslenskri vinstristefnu.
Það er: Ríki reykingamaðurinn!
Hver er ríki reykingamaðurinn?
Jú hann er í fyrsta lagi efnaður maður og með áhugamál sem falla að slíkri stöðu. Hann vill fara í leikhús og hlusta á sinfóníutónleika. Hvoru tveggja er rækilega niðurgreitt af ríkinu, meðal annars af fátækari gestum hinna einkareknu kvikmyndahúsa.
Í öðru lagi ferðast hann mikið, bæði vegna vinnu og af persónulegum ástæðum. Hann kaupir sitt vín og tóbak í fríhöfninni og borgar því ekki hin himinháu áfengis- og tóbaksgjöld pöpulsins. Hann sleppur því við þá skattheimtu. Það gera hinir efnaminni ekki.
Í þriðja lagi er hann, sem reykingamaður, lasnari en aðrir á svipuðum aldri sem reykja ekki. Hann hefur samt greiðan aðgang að heilbrigðiskerfinu þótt hann borgi sjaldan tóbaksgjöldin. Lágtekjufólk sem reykir sér um að fjármagna hans reykingasjúkdóma.
En auðvitað borgar hann alveg nógu mikið í skatta. Ríkustu 10% Íslendinga greiða rúmlega 60% af tekjusköttum Íslendinga. Samt tala menn um að þeir ríku eigi að borga meira. Furðulegri verður málflutningur fólks varla.
Besti vinur vinstristefnunnar íslensku, ríki reykingamaðurinn, kýs sennilega ekki til vinstri en hann græðir á hinum sem gera það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég og konan mín erum eins fjarri því að vera ríki reykingamaðurinn og hugsast getur, eigum ekki eignir, höfum aldrei reykt, erum langt fyrir neðan meðaltekjur og getum ekki veitt okkur það að fara í leikhús, bíó, á kaffihús eða annað sem tilgreint er í þessum pistli og neytum ekki áfengis né kaupum það. Við græðum ekkert á þeim sem kjósa til vinstri.
Við liggjum ekki uppi á heilbrigðiskerfinu þótt við séum að komast á seinni hluta áttræðisaldursins.
Ómar Ragnarsson, 14.10.2017 kl. 22:22
Ómar, þú ert líka ólíkur flestum, bæði hægri- og vinstrimönnum, og það á afskaplega jákvæðan hátt. Gangi þér og konu þinni sem best í öllu!
Ég held svo reyndar að ef þig vantar smávegis aukapening þá yrði hann auðfundinn í ævisögu þinni.
Geir Ágústsson, 15.10.2017 kl. 11:54
Skemmtilegar pælingar
Ég ætla að íhuga í alvöru þann möguleika að hætta alveg að drekka áfengi ef það verður til sölu í matvörubúðum.
Grímur (IP-tala skráð) 15.10.2017 kl. 14:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.